SANNKALLAÐAR vorleysingar hafa verið á sjóbirtingsveiðislóðunum í Vestur-Skaftafellssýslu síðustu daga, eða frá sunnudeginum, er flóðgáttir himnanna opnuðust.

SANNKALLAÐAR vorleysingar hafa verið á sjóbirtingsveiðislóðunum í Vestur-Skaftafellssýslu síðustu daga, eða frá sunnudeginum, er flóðgáttir himnanna opnuðust. Formaður Stangaveiðifélags Keflavíkur, Gunnar Óskarsson, hafði ætlað að veiða í Vatnamótunum ásamt félögum sínum, en þeir gátu aðeins veitt fyrsta hálfa daginn, síðan "var bara drulluleðja og vatnavextir," eins og hann lýsti ástandinu.

Gunnar og félagar veiddu þó 9 fiska þennan eftirmiðdag, slepptu þar af fimm sem voru horaðir og dökkir. Þar með voru komnir 69 fiskar á land, þar af hafði um 20 verið sleppt aftur.

"Þetta hefur verið rysjótt, bæði veðrið og veiðin í vor. Þetta er svipað í Geirlandinu, ef frá er talið 32 fiska holl þá hafa verið að kroppast upp þetta 4 og upp í 12 fiskar í hollunum og svo ekkert núna í flóðunum. Það kemur örugglega rót á fiskinn við þessa breytingu og spurning hvort hann fer að síga til sjávar úr þessu," bætti Gunnar við.

Nýtt hús við Gljúfurá

Veiðimenn við Gljúfurá í Borgarfirði munu búa við stórbætta aðstöðu í framtíðinni, en nú er búið að reisa þar nýtt veiðihús, skammt frá því gamla sem stendur enn og er ugglaust með eldri veiðihúsum landsins. Það verður þó rifið næsta haust.

Nýja húsið er 160 fermetrar með fjórum svefnherbergjum sem hvert um sig hefur sérbaðherbergi. Í húsinu er og stór stofa, stórt eldhús og innangengt er úr aðgerðarherbergi með frystikistu og vöðlugeymslu. Hugsanlegt er að verönd og heitur pottur verði hluti af aðbúnaðinum í framtíðinni, en tæplega þó í sumar. Þá er ekki víst að náist að ljúka öllum frágangi utanhúss, þ.e.a.s. við lóð hússins, áður en að veiðitíminn hefst.