Magnús Skúlason geðlæknir þýddi Litíumbókina.
Magnús Skúlason geðlæknir þýddi Litíumbókina.
KOMIN er út bók um meðferð geðhvarfasjúkdóma með litíum. Höfundur er danskur sérfræðingur í geðlækningum, Mogens Schou, og hefur Magnús Skúlason geðlæknir þýtt hana. Geðverndarfélag Íslands gefur bókina út og er útgáfan liður í fræðslustarfsemi...

KOMIN er út bók um meðferð geðhvarfasjúkdóma með litíum. Höfundur er danskur sérfræðingur í geðlækningum, Mogens Schou, og hefur Magnús Skúlason geðlæknir þýtt hana. Geðverndarfélag Íslands gefur bókina út og er útgáfan liður í fræðslustarfsemi félagsins.

Þörf lesning

"Útgáfa á efni sem þessu er að mínu mati afar brýn því það þarf að auka fróðleik á öllu er varðar geðsjúkdóma. Þar leikur Geðverndarfélag Íslands stórt hlutverk sem vonandi verður framhald á því við þurfum að beita öllum ráðum til að eyða fordómum og fáfræði um geðsjúkdóma og auka skilning almennings á þeim með skynsamlegri og góðri fræðslu," segir Magnús Skúlason í samtali við Morgunblaðið. Magnús, sem dvaldi um árabil við sérfræðinám í Danmörku, kvaðst hafa rekist á þessa bók fyrir nokkrum árum og þýtt hana en á liðnum vetri hafi verið drifið í útgáfunni.

"Hún fjallar um mjög afmarkað efni, notkun lyfsins litíum við geðhvarfasýki, og hefur höfundurinn langa reynslu af notkun þess með góðum árangri og hefur einnig stundað umfangsmiklar rannsóknir á verkun lyfsins. Bókin er mjög skilmerkilega skrifuð á skýru máli og á því fullt erindi til almennings," segir Magnús ennfremur. Í formála sínum segist þýðandinn gefa höfundi hæstu einkunn fyrir frammistöðuna og að "umfjöllun hans einkennist af skýrleika og látleysi svo að hvert mannsbarn fær skilið, en um leið tekst að varðveita hið fræðilega inntak, svo í raun er þessi litla bók hin þarfasta lesning fyrir lækna og heilbrigðisstéttir ekki síður en almenning."

Litíumbókin er einkum ætluð einstaklingum í litíummeðferð, fjölskyldum þeirra og öðrum sem áhuga hafa á að fræðast um efnið, segir í inngangi bókarinnar. Þar segir einnig: "Bókin getur ekki komið í staðinn fyrir samband sjúklings við geðlækni eða heimilislækni. Það er læknirinn sem sjúkdómsgreinir og hefur meðferð, og enginn leiðarvísir, hversu vel sem hann er skrifaður, getur komið í staðinn fyrir meðferðareftirlit hjá lækni eða leiðbeiningar sem læknir gefur sjúklingi sínum," segir höfundur ennfremur og bendir jafnframt á að bókin sé hugsuð sem hjálpartæki í samvinnu sjúklings og læknis.

Aðallega notað við geðhvarfasýki

Magnús segir að litíum sé aðallega notað við geðhvarfasýki en við lyfjagjöf verði að viðhafa vissa varúð. "Það þykir til dæmis ekki ráðlegt að nota lyfið hjá sjúklingum sem búa við skerta nýrnastarfsemi. Ef hún er skert getur það ruglað því hvernig útskilnaði lyfsins er háttað úr blóðinu og þá verður erfitt að hafa stjórn á magni lyfsins í blóðinu hverju sinni. Við meðferðina verður að stilla magnið inn á hvern og einn sjúkling. Lyfið er ýmist gefið í tímabilum eða jafnvel ævilangt og stundum er hægt að draga úr magninu án þess að það hafi merkjanleg áhrif.

Ýmsir óttast litíum jafnvel meira en önnur geðlyf vegna þess að of há þéttni þess í líkamanum getur valdið eitrun. Í bókinni er þetta vel útskýrt og hvernig auðvelt sé að fyrirbyggja slíkar aukaverkanir.

Óhætt er að segja að tilkoma litíum hafi markað tímamót í geðmeðferð."

Í bókinni er einnig rakin saga litíummeðferðar en hún hófst upp úr 1949 er ástralski geðlæknirinn John Cade gerði grein fyrir rannsóknum sínum og tilraunum. Þá er meðferðinni sjálfri lýst og svarað ýmsum spurningum um lengd, hvenær ekki eigi að beita henni, hverjir kostirnir séu og hver vandamálin. Einnig er fjallað um aukaverkanir og áhættuþætti.

Margir ættingjanna þjáðust

Mogens Schou hóf leit að nýjum leiðum í meðferð við geðhvarfasýki þar sem margir ættingja hans þjáðust af þunglyndi og geðhvarfasýki. Eftir að grein Johns Cade birtist hóf hann tilraunir í Danmörku og segir lítillega frá honum í bókinni Í róti hugans, eftir bandaríska sálfræðinginn Kay Redfield Jamison, sem átti við geðhvarfasýki að stríða. Bókin fjallar um baráttu hennar við sjúkdóminn, hvernig hún náði tökum á honum og hún segir frá þjáningum sínum og sigrum. Hún kynntist Mogens Schou sem hún sagði hafa verið sér dýrmætt því hann hefði hvatt sig til að notfæra sér eigin reynslu í rannsóknum sínum og kennslu og að tala við mann sem hefði líka notað eigin reynslu til að breyta lífi þúsunda annarra og segist hún sjálf hafa verið í þeim hópi. "Þótt litíum hafi valdið mér miklum erfiðleikum er það deginum ljósara að án þess væri ég dauð fyrir löngu eða gleymd og grafin einhvers staðar á geðveikrahæli," segir hún.