[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á UNDANFÖRNUM vikum hafa lesendur Vísindavefjarins fræðst um margvíslegustu fyrirbæri.

Á UNDANFÖRNUM vikum hafa lesendur Vísindavefjarins fræðst um margvíslegustu fyrirbæri. Þar á meðal má nefna stöðvun öldrunar, íslenskt vatn, rafsegulbylgjur frá farsímum og öðrum raftækjum, blóðflokka, sykursýki, skrifræði, hreinlæti í geimferðum, saltmagn í tárum, mal katta, líkindi í hlutkesti, sýn milli Íslands og Grænlands, súrar appelsínur, x í núllta veldi, tímasetningu páska, heiti föstudagsins langa, prósent, mýbit, ferðalög yfir ljóshraða, kjarnorkusprengjur, þar á meðal nifteindasprengjur, kynlitninga, hálfspegla, bláma himinsins, samstöðu reikistjarna 5. maí, samkomudag Alþingis kringum árið 1000, halastjörnur og frumtölur. Er þó ekki nærri allt talið. En sjón er sögu ríkari; veffangið er http://visindavefur.hi.is/

Er eða hefur verið líf á reikistjörnunni Mars?

SVAR:

Hugmyndir manna og kenningar um líf á Mars hafa tekið sífelldum breytingum með aukinni þekkingu á hnettinum. Í upphafi 20. aldar var ákaft rætt um kenningar Percivals Lowells, sem skoðaði Mars í sjónauka um árabil og taldi sig hafa greint viðamikið net skurða á yfirborði hnattarins. Ályktaði hann að vitsmunaverur hefðu grafið skurðina sem þjónuðu þeim tilgangi að flytja bræðsluvatn frá heimskautajöklunum til uppþornaðra svæða nær miðbaug. Um 1910 komu fram vandaðri kort af yfirborði Mars og var þessari kenningu þá hafnað af þorra vísindamanna, en lengi eimdi eftir af henni í margs konar skáldskap.

Fram yfir 1960 ræddu menn möguleika á að gróður gæti þrifist á Mars, því að ýmsir athugendur höfðu veitt athygli litarbreytingum sem virtust færast yfir hluta hnattarins að sumarlagi. Sumum sýndist jafnvel svæði þessi taka á sig grænan lit, en síðan kom í ljós að sáralítið súrefni er í andrúmslofti hnattarins (minna en 0,1%). Þótti þá víst að þetta gætu ekki verið grænar plöntur. Og um 1965 var ljóst orðið að litarbreytingarnar stöfuðu af miklum stormum sem þyrluðu upp ryki af yfirborði. Rykið var um tíma á sveimi í andrúmsloftinu en féll síðan á yfirborðið á ný og breytti lit þeirra svæða sem það settist á.

Árið 1976 lentu tvö könnunarför, Viking 1 og 2, á yfirborði Mars og gerðu þar jarðvegskönnun. Með tækjabúnaði um borð var gerð leit að ummerkjum um frumstætt líf og gáfu fyrstu tilraunir óvæntar niðurstöður. Bætt var næringarefnum í jarðvegssýni og virtist þá eiga sér stað upptaka, sem skýra mætti með tilvist örvera. Nánari rannsókn leiddi þó í ljós að í jarðveginum voru engar lífrænar sameindir, auk þess sem talið var að ólífræn efnahvörf gætu skýrt niðurstöður tilraunanna. Flestir vísindamannanna, sem að rannsóknum þessum komu, drógu því að lokum þá ályktun að lífverur gætu ekki þrifist í jarðvegi á Mars um þessar mundir.

Árið 1983 var rannsakaður loftsteinn sem fundist hafði á jaðri Suðurskautsjökulsins. Náð var sýnum af lofttegundum sem lokast höfðu inni í bólum í steininum og kom þá í ljós að hlutföll neons, argons, kryptons og xenons, auk tiltekinna samsætuhlutfalla þessara lofttegunda, voru samskonar og Viking-lendingarförin höfðu greint í andrúmslofti Mars nokkrum árum fyrr.

Þetta var talin örugg sönnun þess að steinninn væri ættaður frá Mars og hafa nú alls fundist 12 loftsteinar af þessu tagi á yfirborði jarðar. Þar með opnaðist leið til könnunar á sýnum frá yfirborði nágrannahnattarins, án þess að senda þyrfti þangað geimför.

Einn þessara Marssteina fannst árið 1984 á Suðurskautsjöklinum og hefur vakið sérstaka athygli fyrir það að leiddar hafa verið líkur að því að í honum séu ummerki um líf á Mars fyrir nokkrum milljörðum ára. Er fjallað nánar um þetta mál í öðru svari sama höfundar á Vísindavefnum. Þar kemur meðal annars fram að rökin fyrir ummerkjum um líf í steininum eru hvorki óyggjandi né óumdeild.

En þó að þarna skorti nokkuð á vissu er hitt víst að sjálf spurningin um líf á Mars fyrr eða síðar hefur fengið byr undir báða vængi við þessar uppgötvanir. Hún er nú rædd af áhuga og alvöru á ný. Lífvænlegt er að vísu ekki á hnettinum um þessar mundir því að meðalhiti á yfirborði hans er um -58°C, sáralítið súrefni er í andrúmslofti og geimgeislar og útfjólublátt ljós eiga greiða leið að yfirborði. Og ekkert vatn er í fljótandi formi á yfirborðinu. Stöðuvötn gætu þó verið undir heimsskautajöklum hnattarins og hugsanlegt er að jarðhiti bræði klaka í jarðvegi og þar með eru komin skilyrði þess að frumstæðar lífverur gætu þrifist.

En einkum horfa menn til þess tímabils snemma í sögu hnattarins, er vatn var á yfirborði og andrúmsloft þykkara en nú er. Þá ættu lífsskilyrði að hafa verið betri og er leitin að steingerðum leifum lífvera, sem þá kynnu að hafa þróast á Mars, einn aðalhvatinn að hinni rækilegu könnun hnattarins sem fyrirhuguð er á næstu áratugum.

Þorsteinn Þorsteinsson

jarðeðlisfræðingur, Raunvísindastofnun Háskólans.

Hverjir ástunda vúdú og hvaða hlutir eru notaðir við trúarathafnir?

SVAR:

Vúdú (voodoo, vodou, voudou) er algengasta heitið á trúarbrögðum sem mikill meirihluti íbúa á Haiti aðhyllist að einhverju marki. Hlutfallið er 80-90% samkvæmt sumum heimildum. Haitimenn sem hafa sest að í Norður-Ameríku og afkomendur þeirra ástunda einnig vúdú. Sumir fræðimenn meta það svo að vúdú hafi hnignað á Haiti á síðustu áratugum. Sem ástæður nefna menn vaxandi útbreiðslu hvítasunnuhreyfingarinnar þar í landi, minnkandi vægi stórfjölskyldunnar og áhrif erlendis frá, ekki síst með ferðamönnum. Vúdú heldur ef til vill betur velli meðal Haitimanna utan heimalandsins, sennilega vegna þess að þeir eru þar fámennir og áhrifalitlir minnihlutahópar og því verður átrúnaðurinn frá ættlandinu þeim hughreystandi uppistaða sjálfsmyndar.

Fræðimenn hafa ekki allir sömu afstöðu til vúdú, einn þeirra kallar það til dæmis "djöfladýrkun" (devil-worship) en aðrir fara um trúarbrögð þessi öllu vinsamlegri orðum. Þetta mismunandi mat stafar ef til vill af því að þessi trú, ásamt meðfylgjandi trúariðkun, getur verið mjög mismunandi frá einum söfnuði til annars. Verulegur munur er til dæmis á vúdúiðkun í borg og í sveit.

Drýgsti þátturinn í vúdú er frá trúarbrögðum Vestur-Afríku á svæðinu frá núverandi Ghana í vestri til landsvæðanna kringum neðsta hluta Kongófljóts í suðri. Heitið er talið vera dregið af "vodu" sem þýðir "andi" eða "goð" á máli Fon-þjóðarinar sem býr þar sem nú er ríkið Benin. Einhverjir fræðimenn telja heitið þó komið frá annarri vestur-afrískri þjóð, Ewe, sem býr í Tógó og Ghana.

Hinn afríski átrúnaður sem varð uppistaðan í vúdú barst til Haiti með afrískum þrælum sem þangað voru fluttir og blandaðist þar kaþólsku sem hefur verið opinber trúarbrögð þar í landi síðustu 500 árin eða svo. Mun vúdú hafa mótast nokkurn veginn á 18. öld. Samkvæmt sumum heimildum er svo að sjá sem vúdú hafi borist tilbaka til "upphafs" síns, að minnsta kosti hefur frést af því í ríkinu Benin.

Lengi vel var það einkum lágstéttarfólk á Haiti sem aðhylltist þennan átrúnað, en efri stéttir fyrirlitu hann. Á því varð breyting á fjórða áratug 20. aldar er menntamenn tóku að hylla vúdú sem þjóðartrú Haitimanna.

Francois Duvalier, illræmdur einræðisherra sem ríkti á Haiti 1957-1971, studdi vúdú, bæði til mótvægis við kaþólsku kirkjuna sem hann hafði illan bifur á og sökum þess að hann taldi stuðning við vúdú líklegan til alþýðuvinsælda. Aðalástæðaþess hve mikið af afrískum átrúnaði hélt velli á Haiti er að landsmenn þar eru að mestu leyti af afrískum ættum.

Þess skal getið að víðar á þessum slóðum er mikið um átrúnað sem svipar meira eða minna til vúdú og er einnig afrískur í uppruna. Þetta á bæði við annars staðar í Vestur-Indíum og í Brasilíu, þar sem íbúar eru að miklu eða talsverðu leyti af afrískum uppruna, og ef til vill einnig víðar. Þekktust af þessum trúarbrögðum eru líklega "Santería" á Kúbu sem hafa eflst verulega í stjórnartíð Castros, kannski sumpart vegna þess að stjórnvöld hafa skeytt minna um þau en kaþólsku kirkjuna þar. Santería hefur og mikið fylgi í Bandaríkjunum en þangað hafa þau borist með Kúbverjum sem hafa flúið Castro.

Prestar, bæði karlar og konur, þjóna í vúdú en skipulag þeirrar prestastéttar er lauslegt. Andar og goð sem dýrkuð eru í vúdú munu flest vera afrísk að uppruna og bera það með sér, en sum þeirra hafa verið samsömuð kaþólskum dýrlingum og fengið nöfn þeirra. "Dambala" heitir einn af guðum Fon-þjóðarinnar sem tengdur er slöngum og birtist stundum í slöngulíki. Hann er tilbeðinn í vúdú, stundum undir þessu heiti en stundum er látið svo heita að hann og heilagur Patrekur séu einn og sami guðinn.

"Ogun", jarnsmíðaguð í trúarbrögðum Jorúba í Nígeríu og stríðsguð í vúdú, hefur í síðarnefndu trúarbrögðunum runnið saman við heilagan Jakob, einn af postulunum tólf, bróður Jóhannesar guðspjallamanns.

Það er ekki sjálfgefið, hvað skuli telja til "hluta" sem notaðir eru við trúarathafnir, en í vúdú er trumban líklega mikilvægust. Algengt er við vúdúathafnir að trumbur séu barðar ákaflega og sungið og dansað eftir trumbuslættinum. Þannig "hitar söfnuðurinn sig upp" eins og vúdúsinnar orða það sjálfir, en það er nauðsynlegt til þess að andi eða guð, sem ákallaður er, geti tekið sér bólfestu um stundarsakir í einhverjum sem tekur þátt í athöfninni.

Hver og einn andi er ákallaður með takti og dönsum sem hann einn gegnir og fórnir eru einnig mismunandi eftir smekk andanna. Þegar andinn er kominn í einhvern viðstaddan heitir svo að sá sé "chwal" (hestur) andans. Þar með er söfnuðurinn kominn í beint samband við heim anda og goða. Andinn notar líkama og rödd mannsins, sem er setinn af honum, syngur, dansar og borðar með söfnuðinum, gefur fólki ráð og ávítar það.

Krossar gegna hlutverki við helgiathafnir, einkum við dýrkun á öndum framliðinna, sem er mikill þáttur í vúdú eins og í afrískum trúarbrögðum.

Við krossa, sem reistir eru við hlið kirkjugarða eða í þeim miðjum, er hinum látnu fórnað kertum og mat. Ýmiskonar hlutir eru dýrkaðir í þeirri trú að þeir séu þrungnir krafti frá verndaröndum einstaklinga. Alþjóðaorðið fyrir þesskonar hluti er "fetish" en hefur verið kallað "blæti" á íslensku.

Talsvert er um dýrafórnir í vúdú. Er þá slátrað dýrum, einna helst hænsnum, geitum og kúm, handa verum annars heims til neyslu. Að sumra sögn var framan af siður í vúdú að fórna meybörnum við helgiathafnir, en nú sé í staðinn fórnað hvítum kiðlingum. Mikið er um galdra í vúdú, meðal annars kváðu vera að því einhver brögð að látnir séu vaktir upp til þess að veita lifendum þjónustu ("zombies").

Dagur Þorleifsson,

stundakennari við

Háskóla Íslands.

Fellur súrt regn á íslandi? Hvert er viðnám íslenskra vatna við því?

SVAR:

Súrt regn fellur þar sem regnið er blandað brennisteinssýru (H2SO4), saltpéturssýru (HNO3) og lífrænum sýrum. Þessar sýrur myndast við bruna á kolum og olíu og eru því mjög algengar þar sem iðnaður er mikill. Áhrifa súrs regns gætir aðallega á austurströnd Bandaríkjanna, á Bretlandseyjum, í Norður-Evrópu og í Suður-Skandinavíu, en auk þess víða í Rússlandi.

Skemmdir af völdum súrs regns hafa menn fundið í barrskógum, þar sem líkur er leiddar að því að skógardauða, til dæmis í Þýskalandi, megi rekja til sýru í regni. Sýran hefur áhrif á barrið og á sveppagróður í samlífi við rætur trjánna, sveppirnir deyja og næringarupptaka trjánna minnkar. Í Suður-Skandinavíu hefur vatn súrnað svo mikið að laxfiskar hafa horfið úr vötnum og ám á stórum svæðum, til dæmis í Suður-Noregi. Þar er lítið af uppleystum steinefnum í vatni svo að sýran sem berst frá Ruhrhéraðinu í Þýskalandi hefur mikil áhrif.

Á Íslandi er lítið um iðnað sem brennir olíu og kolum, nema í álverunum í Straumsvík og á Grundartanga og í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga.

Þessi iðjuver nota kolaskaut sem brenna upp við vinnsluna og þarf til dæmis um 400 kg af kolum á móti hverju tonni af áli sem er framleitt. Leitast hefur verið við að nota kol með litlum brennisteini í þessi iðjuver, og er þess vegna síður hætta á súru regni. Iðjuverin eru einnig staðsett þannig að ríkjandi vindátt leiðir útblástur á haf út.

Hér eru ekki barrskógar sem gætu skemmst af súru regni og vegna ungs aldurs jarðlaga eru steinefni í þeim auðleysanleg. Steinefnainnihald í vatni er tiltölulega hátt og á eldvirku svæðunum er það sennilega þrisvar sinnum hærra en í Suður-Noregi.

Á blágrýtissvæðunum, sem eru elstu svæðin á Íslandi, er minna af uppleystum steinefnum, og nærri því eins lítið og í S.-Noregi. Þar væri þess helst að vænta að súrt regn hefði áhrif á sýrustig vatnsins, vegna þess hve illa vatnið nær að vega upp á móti sýrunni. Því ætti að forðast að reisa iðjuver sem brenna kolum og olíu á blágrýtissvæðum landsins, ef möguleiki er að reisa þessi iðjuver þar sem áhrifa frá þeim gætti síður.

Sýrur í úrkomu hafa einnig áhrif á fléttugróður og mosa en rannsóknir á því eru litlar hér á landi. Þó er ljóst að í næsta nágrenni Ísals lét gróður á sjá í fyrstu, en ekki er vitað hvort það var vegna sýru í regni, flúors eða annarra efna sem berast frá verksmiðjunni. Í næsta nágrenni iðnaðar má gera gera ráð fyrir einhverri mengun, og þegar gróðurskemmdir voru athugaðar í Straumsvík, kom í ljós að þeirra gætti ekki utan eins kílómetra frá verksmiðjunni.

Síðan þessar rannsóknir voru framkvæmdar hafa verið gerðar ráðstafanir hjá Ísal sem hafa minnkað mengun mjög mikið, og hefur magn flúors sem sleppur út minnkað um að minnsta kosti 85% síðan. Því þarf að athuga á ný hve víðfeðm áhrif verksmiðjunnar eru á gróðurfar.

Gísli Már Gíslason

prófessor í líffræði

við Háskóla Íslands.