[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fljótaleiðin getur betur tryggt búsetu í Fljótum en Héðinsfjarðarleiðin, segir Trausti Sveinsson, og ber þingmönnum að taka fullt tillit til þess þegar stórar og afgerandi ákvarðanir eru teknar í samgöngumálum.

"TVENN jarðgöng fyrir þúsund manns út í hött". Þannig hljóðar fyrirsögn á frétt í DV fyrir skömmu og vitnað í ummæli Kristjáns Pálssonar alþingismanns í Reykjaneskjördæmi í tengslum við borgarafund í Mosfellsbæ um umferðarmál. Þarna er Kristján Pálsson að mótmæla stefnu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra, flokksbróður síns, að grafa tvenn ný jarðgöng til Siglufjarðar þar sem fyrir eru nú þegar ein jarðgöng. "Ég skil ekki þessa forgangsröðun og þessi stefna er úr öllum takti og gjörsamlega út í hött" er haft eftir Kristjáni. Þetta er alveg rétt hjá Kristjáni, ef verið væri að byggja einkajarðgöng upp á 6,2 milljarða kr. fyrir Siglfirðinga. En svo er alls ekki. Verið er að hringvegtengja 25.000 manna byggðarlög beggja vegna Tröllaskagans sem er mikið og brýnt byggðamál. Siglfirðingar hafa verið í forustu í baráttunni fyrir þessum samgöngubótum og eiga heiður skilið fyrir. Á árinu 1996 kom fram hugmynd um að sameina sveitarfélögin við utanverðan Eyjafjörð en til þess að það gæti orðið að veruleika þyrfti að bora tvenn jarðgöng til Siglufjarðar um Héðinsfjörð svo Siglfirðingar gætu orðið þátttakendur í hinu stóra sveitarfélagi. Strax þá var þessari jarðgangaleið um Héðinsfjörð mótmælt, en jafnframt bent á aðra skynsamari jarðgangaleið, svonefnda Fljótaleið, sem er bæði ódýrari og arðsamari svo nemur milljörðum kr. Jafnframt er hún miklu meiri og betri samgöngubót fyrir íbúana út með Eyjafirði (Ólafsfjörð og Dalvík) og Skagfirðinga. Fljótaleiðin er einnig heppilegri fyrir Siglfirðinga því samgöngur verða einnig greiðar og góðar vestur í Skagafjörð og styttist leiðin þangað um 15 km. Fljótaleiðin leysir auk þess stóru vandamálin samfara miklu jarðskriði á Almenningum, sem núverandi akvegur liggur um til Siglufjarðar.

Í athugasemdum við skýrslu "Lágheiðarhóps" ( Lágheiðarhópur, sem svo er nefndur, var skipaður '94 til að gera tillögur um samgöngubætur á norðanverðum Tröllaskaga til framtíðar), sem sendar voru samgöngunefnd Alþingis og samgönguráðuneytinu, kemur fram að Héðinsfjarðarleiðin með tveimur akreinum í jarðgöngum kostar um það bil 6.210 milljónir kr. en Fljótaleiðin 5.800 millj. kr. Þar við bætist að ekki er tekið á vandamálunum nú, sem fyrr er getið, á Almenningum. Það verður því seinni tíma mál að glíma við þann kostnað sem því fylgir , sem er hér áætlaður 2.790 millj. kr. (greinarg. send samg.nf. Alþingis). Samanlagt er Fljótaleiðin því í raun 3.100 millj. kr ódýrari.

Sem dæmi um meiri arðsemi Fljótaleiðar skulu nefnd hér nokkur atriði.

Fljótaleiðin er 20 km styttri en Héðinsfjarðarleiðin frá Eyjafjarðarsvæðinu (Ólafsfjörður og Dalvík) til Skagafjarðar og suður að viðbættri 15 km vegstyttingu um nýjan Þverárfjallsveg sem tilbúinn verður eftir u.þ.b. 3 ár. Arðsemi af þessum vegstyttingum er minnst 750 kr. að meðaltali á bifreið. Ef 400 bifreiðar fara um Fljótaleið á dag að meðaltali næstu 50 árin (talan tekin upp úr skýrslu Lágheiðarhóps) gefur Fljótaleiðin 5,5 miljarða kr. meiri arðsemi af þessari umferð en Héðinsfjarðarleiðin.

Dulúð Héðinsfjarðar, Hvanndala og nágrennis með sína óspilltu náttúru vill undirritaður verðleggja á 2 til 3 milljarða kr. Þetta svæði er "okkar Hornstrandir" og mjög dýrmætur afþreyingarkostur fyrir ört vaxandi ferðaþjónustu í nærliggjandi byggðarlögum. Sérstaða svæðisins mun bæta mjög ímynd og samkeppnishæfni ferðaþjónustu framtíðarinnar á Mið-Norðurlandi.

Fljótaleiðin getur betur tryggt búsetu í Fljótum en Héðinsfjarðarleiðin og ber þingmönnum að taka fullt tillit til þess þegar stórar og afgerandi ákvarðanir eru teknar í samgöngumálum. Fljótamenn munu njóta meiri mannréttinda og félagslegs öryggis vegna styttri og greiðari samgangna við þéttbýlið á Siglufirði og Ólafsfirði. Fljótin eru í læknisumdæmi Siglufjarðar og munu njóta þjónustunnar þar betur og með ódýrari hætti en áður. Að tryggja búsetu og þar með verðgildi allra fasteigna í Fljótum svo og möguleika á betri nýtingu á mjög dýrmætum, en nú lítið notuðum, náttúruauðlindum í Fljótum metur undirritaður á 8 til 12 milljarða kr. Fljótaleiðinni til arðs, umfram Héðinsfjarðarleiðina.

Hér með er skorað á Kristján Pálsson og aðra alþingismenn að krefjast þess við lokaumræðu um jarðgangaáætlun ríkisstjórnarinnar á Alþingi, að Fljótaleiðin verði rannsökuð betur til að tryggt sé að þessum miklu fjármunum, sem ákveðið er að verja í vegatengingar og jarðgangagerð á þessu svæði, sé varið af skynsemi svo allir íbúar í þessum 25.000 manna byggðarlögum, beggja vegna Tröllaskagans, fái notið sem best, sem og allir aðrir landsmenn.

Höfundur er bóndi í Bjarnargili, Fljótum.

Höf.: Trausti Sveinsson