HARALDUR Örn Ólafsson pólfari á 125 km eftir ófarna á norðurpólinn og býst við að ná takmarki sínu 10. til 15. maí. Hann tafðist nokkuð á fimmtudag við að finna leið í gegnum mikinn íshrygg með ísbjörgum á stærð við sumabústaði. Hann gekk 16, 3 km á fimmtudag í 16 stiga frosti og hægum vindi.
Haraldur er farinn að hlakka mikið til ferðalokanna og undirbúningi að lokakafla leiðangursins er að mestu lokið af hálfu bakvarðasveitarinnar. "Tilhlökkunin við að komast á pólinn er að komast í hámæli núna," sagði Haraldur í gær í símtali við Skúla Björnsson í bakvarðasveit leiðangursins.
Rosalegasti íshryggur sem ég hef séð
Haraldur hefur ekki mætt norsku pólförunum Torry Larsen og Rune Gjeldnes sem komu gangandi á móti honum frá pólnum. Norðmennirnir áætla að komast til Ward Hunt-eyju 1. júní efir nærri fjögurra mánaða göngu þvert yfir Norður-Íshafið. Fáeinir km skildu Harald og Norðmennina að í gær en þar sem Norðmennirnir eru nokkuð vestar en Haraldur er allt eins líklegt að þeir mætist ekki á göngunni.Í gær rann upp níundi dagurinn í röð með skýjuðu veðri úti á ísnum og sagðist Haraldur aldrei hafa heyrt um að veðrið hagaði sér með slíkum hætti svo norðarlega.
Haraldur sagði færið hafa verið sæmilegt á miðvikudag en tafðist í hálfa aðra klukkustund snemma dags þegar gríðarmikill íshryggur varð á vegi hans. "Þetta var rosalegasti íshryggur sem ég hef séð og kallaði hann því Kínamúrinn," sagði Haraldur. "Þarna höfðu hlaðist upp ísklumpar á stærð við sumarbústaði og ég sá varla yfir hann þegar ég leit yfir hann af stórum hól. Ég losaði af mér sleðann og gekk í vestur og datt allt í einu niður á ótrúlega leið í gegnum hrygginn. Það var örmjó tröð með sléttu gólfi og háum veggjum sem lá í gegnum hrygginn og var alveg magnað að ganga efir henni."
Flugleiðir og FBA hafa boðið Unu Björk Ómarsdóttur unnustu Haralds að fljúga út á ísinn ásamt meðlimum úr bakvarðasveitinni þegar Haraldur verður sóttur út á ísinn í leiðangurslok.