SÓLVEIG Pétursdóttir dómsmálaráðherra situr nú ráðstefnu dómsmálaráðherra Evrópusambandsins um forvarnir gegn afbrotum í Algarve í Portúgal og sagði hún í gærkvöldi að fram hefði komið staðfestur vilji til að útvíkka samstarfið á þessu sviði til þeirra Schengen-ríkja, sem ekki eru í ESB, Íslands og Noregs.
Hún sagði að helstu niðurstöður ráðstefnunnar væru að Evrópusambandið ætti að hefja undirbúning að sameiginlegri söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um afbrot og glæpastarfsemi, víðtæku samstarfi allra þátttakenda og samræmingu löggjafar.
Hve langt á að ganga í samræmingu löggjafar?
Hún sagði að einnig hefði verið rætt um að koma ætti á fót formlegum samráðsvettvangi þar sem ESB-ríki beri saman bækur sínar, skiptist á upplýsingum um þróun mála á borð við það hvaða forvarnaraðferðir hafi gefið góða raun og hverjar ekki.Sólveig sagði að sameiginleg söfnun og úrvinnsla tölfræðilegra upplýsinga um afbrot og glæpi væri vitaskuld mikilvæg forsenda skynsamlegrar stefnumótunar. Hún gat þess að nokkur umræða hefði verið um samræmingu löggjafar og mismunandi áherslur meðal ríkjanna um hve langt ætti að ganga í þeim efnum.
"Það sem varðar okkur Íslendinga þó mestu er að hér á ráðstefnunni hefur verið staðfestur vilji ESB-ríkjanna til þess að útvíkka þetta samstarf að einhverju leyti til Schengen-ríkja, sem ekki eiga aðild að sambandinu, það er til Íslands og Noregs," sagði Sólveig. "Sá vilji er staðfestur í niðurstöðum ráðstefnunnar, en síðan er auðvitað að sjá hvernig það verður útfært af ESB þegar til formlegrar ákvarðanatöku kemur."
Sólveig sagði að íslenska dómsmálaráðuneytið hefði undirbúið fundinn með því að senda ýmsar upplýsingar um hvernig staðið væri að forvörnum gegn afbrotum á Íslandi, tíðni og gerð afbrota og fleira. Bent hefði verið á mikilvægi þess að aðilar ynnu saman á svipaðan hátt og grenndarlöggæsla væri hugsuð þar sem saman vinna lögregla, skólar, íþróttahreyfingar, félagsmálayfirvöld, kirkja og foreldrar, svo eitthvað væri nefnt.
Mörg alvarleg brot virða ekki landamæri
"Ég vakti enn fremur athygli á mikilvægi aukins samstarfs ríkja í baráttunni gegn afbrotum, ekki síst vegna þess að mörg alvarleg afbrot virtu engin landamæri, svo sem barnaklám og peningaþvætti," sagði hún. "Slíkt samstarf væri ekki síður mikilvægt varðandi forvarnir gegn afbrotum."Hún sagði að samstarf Norðurlandanna væri þýðingarmikið og á fundinum hefði verið vakin athygli á því hvernig að því hefði verið staðið með góðum árangri.
"Ég tel mikilvægt að auka samvinnuna við Evrópusambandið á sviði réttarfars og löggæslumála," sagði Sólveig Pétursdóttir. "Ég hef unnið að eflingu samstarfsins við Bandaríkin og tel einnig mikilvægt að við horfum ekki síður til Evrópu í þessum efnum."
Íslendingum og Norðmönnum var boðið að taka þátt í þessari ráðstefnu dómsmálaráðherra ESB og situr Sólveig hana fyrir Íslands hönd. Þátttaka Íslands í Evrópusamvinnu á sviði dóms- og löggæslumála byggist annars vegar á aðildinni að Schengen-samstarfinu og hins vegar því að nú er unnið að aðild Íslands og Noregs að EUROPOL, löggæslustofnun Evrópu, en framkvæmdastjóri hennar, Jurgen Storbeck, er væntanlegur til Íslands síðar í þessum mánuði.