Bæði Dow Jones-iðnaðarvísitalan og Nasdaq-tæknivísitalan hækkuðu, eftir að tölur um minnkandi atvinnuleysi í Bandaríkjunum í aprílmánuði voru birtar í gær.
Bæði Dow Jones-iðnaðarvísitalan og Nasdaq-tæknivísitalan hækkuðu, eftir að tölur um minnkandi atvinnuleysi í Bandaríkjunum í aprílmánuði voru birtar í gær. Það var einkum hækkun á gengi hlutabréfa í Cisco Systems, Oracle og Dell, sem varð til þess að Nasdaq-vísitalan hækkaði, en gengi bréfa í General Electric hafði mest jákvæð áhrif á Dow Jones-vísitöluna. Viðskipti á Nasdaq voru þau minnstu á árinu. Nasdaq-vísitalan hækkaði um 2,60% en Dow Jones-vísitalan um 1,59%. Helstu vísitölur í Evrópu hækkuðu í lok gærdagsins þegar ljóst var hvert stefndi í Bandaríkjunum. FTSE 100-vísitalan hækkaði um 0,6%, sem gerði það að verkum að í lok vikunnar var hún rúmum 2% hærri en í byrjun hennar. Xetra-vísitalan í Frankfurt hækkaði um tæp 2% í gær og endaði 1% hærra en fyrir viku. CAC 40-vísitalan í París hækkaði um 0,9% og endaði vikuna 7% hærri en hún byrjaði. SMI-vísitalan í Sviss breyttist hins vegar ekki. Allur gangur var á hvernig vísitölur í Asíu enduðu í lok dags. Hang Seng-vísitalan í Hong Kong féll um 0,3% og Straits Times-vísitalan í Singapor féll um 0,2%.