Einar Jónsson
Einar Jónsson
Eiga laun heimsins að vera vanþakklæti, spyr Einar Jónsson, og höfnun þegar fólk er komið á efri ár?

"MAFÍA er hún og mafía skal hún heita"; þessi orð urðu fleyg er þau hrukku eitt sinn af vörum þjóðkunns manns á Alþingi Íslendinga þegar hann var að lýsa einhverjum sem hann taldi ofsækja sig. Undirrituðum eru engin kjarnyrði hugstæðari en þessi, þegar fjalla skal um þá aðila, sem sótt hafa að Herdísi Erlendsdóttur, húsfreyju á Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd og hennar fólki undanfarin ár og misseri. Nýlega féll hæstaréttardómur Herdísi í óhag um rétt hennar til æsku- og æviheimilis síns svo halda mætti að þeim málum væri þar með lokið.

En því fer víðsfjarri, að þetta mál hafi aðeins verið í farvegi dómstólanna, því bæði fyrir, samtímis og eftir allan málareksturinn hefur ýmislegt átt sér stað sem ekki er hægt að nefna annað en hatrammar ofsóknir á hendur Kálfatjarnarfólkinu og þessi aðför öll sem er næsta sefasýkiskennd er enn í fullum gangi.

Áður en lengra er haldið, skal rifjað upp fyrir lesendum, sem ekki þekkja til, um hvað Kálfatjarnarmálið snýst. Á þessari kirkju- og ríkisjörð bjó faðir Herdísar frá árinu 1920 og hafði á henni erfðafestu. Það merkir að þótt sveitarstólpinn Erlendur á Kálfatjörn væri í raun leiguliði á ríkisjörð gekk leigan í erfðir og að honum gengnum gat ríkið ekki ráðstafað jörðinni til vandalausra. Í byrjun áttunda áratugarins tóku þrjú af Kálfatjarnarsystkinunum við býlinu og bjuggu þar, en aðeins eitt þeirra, Gunnar, var skrifað fyrir jörðinni. Eftir að Gunnar lést árið 1995 hefur málið snúist um það hvort Herdís héldi erfðafesturéttinum eða í það minnsta lífstíðarábúð á jörðinni. Hvorttveggja hefur verið dæmt af henni.

Það væri efni í aðra grein að fjalla um dómsniðurstöðurnar en þó skal hér farið um þær fáum orðum. Á báðum dómsstigum var komist að þeirri niðurstöðu að erfðalög leyfðu ekki að erfðafesta gengi milli systkina. Þá kom að varakröfu konunnar um að hún fengi lífstíðarábúð á jörðinni í ljósi nútímaréttlætis. Það mál má einnig sjá sem jafnréttismál þar sem hægt er að halda því fram að konan hafi óbeint goldið kynferðis síns þar sem aðeins bróðirinn en ekki hún var skrifaður fyrir jörðinni. Því fer víðsfjarri að tekið sé undir þessa kröfu. Hæstiréttur gengur reyndar feti framar en undirréttur og vísar Herdísi burt af staðnum. Má helst skilja af dómnum að almennur réttur fólks fari mjög þverrandi þegar komið er á eftirlaunaaldur. Ekki virðist hafa hvarflað að þeim háu dómurum að með brottvísuninni væru þeir að fara yfir þau mörk sem dómstóll nokkur úti í Brussel sem kenndur er við Evrópu dregur um almenn mannréttindi.

Hvergi er heldur slegið á fingur ráðuneytis fyrir að hafa beinlínis ráðstafað jörðinni af konunni áður en nokkur dómur um rétt hennar hafði gengið. Má því segja að lög, sem heimila sveitarfélögum afskipti af jörðum sem menn eru að standa upp af (um forkaupsrétt o.fl.), hafi hér verið notuð í öfugum tilgangi, það er að flæma burtu af jörð manneskju sem sat þar fyrir. Það er umhugsunarvert fyrir Alþingi sem setti þessi lög til þess að bjarga sveitum landsins.

En hver var það sem vildi bola þessari góðu konu burt þaðan sem hún hafði alið allan sinn aldur? Varla er það þorri sveitunga hennar. Suður í Vogum situr fámennur hópur manna sem kallar sig golfkúbb. Ekki eru þeir fleiri en svo að þeir munu hafa tekið höndum saman við sér fleiri höfuðborgarbúa. Fyrir tæpum áratug lét Gunnar heitinn á Kálfatjörn, af stórmennsku sinni og víðsýni, þessum veikburða klúbbi eftir hjálendur, er hann hafði til umráða og námu að stærð nær helmingi túnsins á staðnum, undir golfvöll enda var hann þá mikið farinn að minnka við sig búskap. Ef þetta var vinarbragð þá hefur það aðeins verið á annan veginn. Því hinum megin voru menn, sem að vísu þáðu gírugir boðið en kunnu ekki einu sinni að þakka fyrir sig því ekki leið langur tími þar til sjálfur velgjörðarmaður klúbbsins fékk að heyra það beint frá einum forystumanna kylfinga að hann, bóndinn á staðnum, væri orðinn fyrir þeim félögum.

Í nær heila öld hafði Erlendur á Kálfatjörn og afkomendur hans brotið þetta land úr úfnu hrauni, mest með hörðum höndum. Eftir þessum grasvinjum sóttust nú kylfunnar menn, fyrst með hægð, en síðan æ meiri þunga og loks slíku offorsi, að líkja má við tryllta varga í blóðslóð.

Eftir að Gunnar bóndi lést tók ýmislegt að gerast þar á landareigninni. Á lognkyrrum sumardegi brann húsið Hátún; húskríli frá kreppuárunum sem byggt hafði verið á samnefndri hjáleigu við Kálfatjörn. Föst búseta heyrði þar sögunni til en aðili vestur á fjörðum eignaðist húsið og notaði eitthvað um hríð sem sumarbústað en síðan lítið sem ekkert því örlögin höguðu því þannig til að það lenti inn á miðjum golfvelli þeim sem hafði orðið til með hjálp Gunnars. Var sú staða báðum aðilum til ama, þ.e. bæði eigandanum og golfurum, en þó einkanlega þeim síðarnefndu, sem buðu eitthvert málamyndafé fyrir húsið svo það mætti hverfa af vellinum en eðlilega gekk ekki saman um verðið. Það mál leystist þó farsællega fyrir báða aðila þegar húsið, sem var án rafmagns og lokað og læst til margra mánaða, fuðraði upp í frumeindir sínar áðurnefndan sumardag. Mörgum sem þekkja þarna vel til, sérstaklega sumum Vatnsleysustrandarbúum, þykir þessi eldsvoði dularfullur, svo ekki sé meira sagt.

Gagnstætt mörgum þar á ströndinni hefur undirritaður þó ekkert fyrir satt í þessu máli. En hitt veit hann að rannsókn á upptökum eldsvoðans var í skötulíki. Í lögregluskýrslu var víst að mestu látið nægja að bulla eitthvað um sólargeisla og gler sem hugsanlega hefðu valdið brunanum (þá sennilega einsdæmi á Íslandi). Hefur því verið fleygt að þessi hráki hafi þótt svo skammarlegur að hann sé nú torfinnanlegur í skjalageymslum þar til bærra embætta suður á nesjum. Enginn kvartar undan slíku, ekki heldur tryggingafélagið, sem þó mátti punga út hárri upphæð í bætur fyrir þennan eld af himni.

Hálfu þriðja ári síðar brann svo íbúðarhúsið á Kálfatjörn sem alkunnugt er. Nokkuð hefur verið fjallað um þann eldsvoða í blaðagreinum, en undirritaður kýs að segja ekki meira um það mál, þótt ekki sé þar með sagt að hann hafi engu þar við að bæta, en "sumt" má oft kjurt liggja eins og þar stendur.

Húsbruninn leiddi eðlilega til þess að Herdís varð að flytja frá Kálfatjörn; þar var í ekkert annað hús að venda. Hún hafði þó fullan hug á að bæta úr því. Keypti hún strax lítið gámahús sem sett var niður á hlaðið. Var það í fyrstu notað sem afdrep meðan hún og hennar fólk fínkembdu brunarústirnar í leit að ýmsum munum svo sem borðsilfri. Þá skyldi þetta og vera vinnuskúr og skjól meðan verið væri að byggja nýtt íbúðarhús.

En nú hófst langur ferill atgangs sem allur virtist miða að því að hindra að Herdís kæmi aftur alkomin að Kálfatjörn. Ljóst sýnist hverjir stóðu þar að baki en síðan hafa yfirvöld af öllu tagi verið notuð sem vopn í þeirri báráttu og þeim sigað á Herdísi og hennar fólk með slíku offorsi að lyginni er líkast og minnir helst á hliðstæða hluti sem henda oft á eyju syðst við Ítalíuskagann.

Ekki hafði áðurnefnt gámhýsi staðið þar nema veturinn þegar hvatvísir embættismenn héraðsins fóru að fetta fingur út í það á þeirri forsendu að það þætti ljótt en húsið er nýlegt og hið snyrtilegasta. Skipti þá engum togum, að eftir að einhverjar nótur höfðu farið milli aðila um málið hvarf hýsi þetta með öllu sem í því var svo sem ísskáp fullum af mat, hlífðarfatnaði og ýmsum smámunum sem bjargað hafði verið úr rústunum. Yfirvöld játuðu hústökuna (þótt hver benti á annan með þá ákvörðun) en hafa ekki skilað feng sínum enn, nær ári eftir brottnámið, en húsið var á sínum tíma keypt fyrir um hálfa milljón króna. Það er fáheyrð ósvífni að níðast á fólki sem stendur yfir brunnum híbýlum sínum og rífa af því neyðaraðstöðu sem komið hefur verið upp á staðnum. Þessi gjörningur er því hreint óhæfuverk og óskiljanlegt hvernig nefndir embættismenn hafa beitt valdi sínu í þessu máli og hljóta þar annarlega hvatir að hafa ráðið ferð. Hverjum voru þessir menn að þjóna?

En fleira átti eftir að fylgja í þessa veru og alltaf voru yfirvöld notuð sem skjöldur. Fjölskylda Herdísar hafði um margra ára skeið haft úthagabeit hrossa á jörðinni og nýtt túnin til slægna og síðustu ár hresst upp á gripahús og haft þar hross á vetrum. Kvöld eitt í september sl. léku Vogaklúbbsmenn þann leik að handsama hestana og reka burt í vörslu. Til þess að réttlæta þessar aðgerðir var því haldið fram að hestarnir hefðu sloppið inn á Kálfatjarnartúnið. Þótt sveitarstjórn hafi stutt hestatökumennina er mjög vafasamt að hér hafi verið um löglegar aðgerðir að ræða þar sem lög gera ráð fyrir að eigendur dýra séu kallaðir til áður en til þess kemur að þau séu tekin og flutt í geymslu.

Hér er látið að því liggja að þetta hafi verið sett á svið að mestu eða öllu leyti. Til þess liggja margar augljósar ástæður. Enginn var til frásagnar nema forsvarsmenn golfara. Hestarnir áttu að hafa sloppið rétt eftir að eigendur þeirra höfðu yfirgefið svæðið og straumur fór af rafmagnsgirðingu á óútskýrðan hátt. Áður en hendi væri veifað höfðu þeir allir verið reknir í hestarétt meira en 3 km frá svæðinu og síðan kallað á lögreglu. Hestarnir ollu engum sjáanlegum skemmdum, hvorki á golfvelli né annarsstaðar. Reyndar var því ekki haldið fram að þeir hefðu farið inn á golfvöllinn heldur að allt stóðið hefði vaðið yfir ógirtan kirkjugarðinn, sögðu hestatökumenn og börðu sér á brjóst af vandlætingu og horfðu til himins orðum sínum til áherslu um þennan "hræðilega" atburð. Nákvæm rannsókn á garðinum leiddi ekki í ljós svo mikið sem eitt hóffar né nokkur merki um meintan atburð. Fullyrðingar um annað voru auðsjáanlega helgaðar tilganginum og virðast hafa haft lítið með veruleikann að gera.

Eftirmáli þessa hesttökumáls var annað óhæfuverk og nú algerlega af hálfu yfirvalda. Gert var einskonar heiðursmannasamkomulag í deilunni (milli lögfræðinga Kálfatjarnarfólks og sveitarfélagsins) enda bæði yfirvöld og hestatökumenn orðin leið á málinu eftir stöðuga varðgæslu yfir gæðingunum. Greiða skyldi lausnargjaldið, að upphæð kr. 60 þúsund, í ávísun sem ekki skyldi innleyst. Var það skilið sem svo að þetta væri einskonar skilorðssátt. Sektir féllu niður ef ekki drægi aftur til tíðinda. En yfirvöld sviku þetta samkomulag eins og að drekka vatn einhverjum vikum seinna og innleystu ávísunina þó að engin ásökun hafi komið fram um að skilorðið hafi verið rofið í millitíðinni. Síðan sneru þessir embættismenn aðeins upp á sig þegar leitað var eftir skýringum á því hversvegna nefnt samkomulag var brotið enda erfitt að viðurkenna að maður sé ekki heiðursmaður heldur hið gagnstæða.

Tæpu hálfu ári seinna var sami leikur leikinn öðru sinni. Sakir margskonar atgangs kylfinga sem þóttust nú æðstir herrar á Kálfatjörn, eftir tilskipan ráðuneytis og síðar héraðsdóms, hafði smám saman verið hörfað með hestana inn á litla eignarjörð fjölskyldunnar, Norðurkot, samliggjandi Kálfatjarnartorfunni að vestan. En jafnvel ekki þarna á eignarlandi var Herdísi og fólki hennar nú vært með hesta sína. Í miðjum mars fóru "hrossaþjófar" aftur á stjá og smöluðu 11 hestum sem þar voru á útigangsgjöf, upp í flutingabíl og flutt í girðingu á bæ uppi í Kjós. Eigendur fréttu ekki af þessu fyrr en daginn eftir og enn var borið við að hestarnir hefðu sloppið yfir á land Kálfatjarnar og hefðu verið "á beit" í kirkjugarðinum sem enn var ógirtur en það mun vera lögleysa. Ekki var minnst á spjöll á þessu meinta beitarlandi enda lá það undir þykkum klaka og klofasnjó sem aðrir hlutar okkar ísalands síðastliðinn vetur. Hér er um kolólöglegar aðgerðir að ræða af ástæðum sem áður voru raktar auk þess sem hér bætist við að algerlega er bannað að flytja dýr milli lögsagnarumdæma undir slíkum kringumstæðum. Þegar þetta er skrifað er málið enn óleyst enda nú um stórfé að tefla og hestarnir búnir að vera fangnir vikum saman og lögregluyfirvöld tvístígandi í málinu. Hvernig á venjulegt fólk að bregðast við slíkum firnum af mannavöldum?

Annað skal að gefnu tilefni nefnt í þessu samhengi. Þegar grennslast er fyrir um hver eigi jörðina þar sem hestunum er haldið föngnum, kemur í ljós að það er að stórum hluta háttsettur maður í landbúnaðarráðuneytinu, sem mikið kom við sögu þegar ráðuneytið var að þrengja kost Herdísar á Kálfatjörn. Skyldi sá maður spila golf? Gott er þegar skel hæfir vel kjafti.

Næst beindist sóknin að minni ferfætlingum. Hundurinn Depill hafði borgið sér úr brennandi húsinu á Kálfatjörn hina örlagaríku brunanótt. Ekki hafði Herdís aðstöðu til þess að halda hann þar sem hún bjó í Reykjavík og gat eðlilega ekki hugsað sér að láta lóga dýrinu. Var reynt að gefa hundinn fólki uppi á Kjalarnesi en hann strauk óðara og var strax kominn suður á heimaslóðir. Var það ráð tekið út úr neyð að geyma dýrið í útihúsum þar á bæ. Ekki væsti þar um rakkann enda kom einhver úr fjölskyldu Herdísar daglega að hirða hestana og fékk þá Depill sinn útivistartíma. Um síðir var honum svo fenginn hvolpur úr eigu fjölskyldunnar sér til samlætis. Þótt seppi hefði borgið sér frækilega úr bráðum háska sóttu nú að honum hættulegri fjandmenn. Kona nokkur, alla leið úr Hafnarfirði, var dýrkuð upp og látin kæra veru hundanna í útihúsunum sem "dýraplagerí". Voru til kallaðir embættismenn og dýralæknir til þess að meta þá meintu ósvinnu sem þarna átti sér stað. Þegar fram kom við slíka vettvangsrannsókn að lítið sem ekkert hafði heyrst í hundunum, gerði kærandi því skóna að skorið hefði verið á raddbönd hundanna svo sem minnst bæri á þessari illu meðferð. Var einhver að tala um glórulausar ofsóknir?

Nú er Depill allur þó ekki hafi þessi atlaga orðið honum að aldurtila heldur varð dómur Hæstaréttar óbeint hans skapadómur enda engri lifandi veru gefin svo mörg líf að þar verði ekki þrot á um síðir.

Yfirvöld allskonar hafa verið æði leiðitöm að fylgja eftir öllum þeim aðförum í formi kæra og hestataka sem hersetumönnum Kálfatjarnar hefur dottið í hug að fara af stað með gegn Herdísi Erlendsdóttur og hennar fólki.

En þar kom að embættismanni var nóg boðið og neitaði að fylgja slíkum málum eftir. Næsti leikur atgangsmanna var sá að finna til mann nokkurn í líki fiðurfjárvinar sem kærði það að nokkrar pútur voru í gamla fjósinu á Kálfatjörn og urpu eigendum sínum egg í morgunverðinn. Við þessa kæru var héraðsdýralækni nóg boðið og hann vísaði henni frá sér með uppgerðri hlátursroku sem nægði til þess að láta golffélagsklíkunni sem kennd er við Voga, skiljast að nú hefði hún gengið of langt. Ekki væri hægt að ætlast til þess að embættismenn stæðu í slíkum skítverkum fyrir þessa menn.

Hér lýkur að segja af aðför og hegðan grasvallarmanna í garð Herdísar Erlendsdóttur á Kálfatjörn og hennar fólks og er þó aðeins stiklað á stóru. Minnt skal á að mest af þessu átti sér stað meðan enn var togast á um rétt konunnar á staðnum, bæði við ráðuneyti og fyrir dómstólum. Aðgerðir þessar allar hafa þegar kostað Herdísi og hennar fólk fé sem nemur milljónum króna í beinum og óbeinum kostnaði og stefnir í meira þar sem enn er haldið í "gíslingu" bæði hestum og gámhýsi að verðmæti enn stærri upphæða.

Furðu gegnir að einungis landbúnaðarráðuneytið skuli hafa farið með þetta mál af hálfu ríkisins. Þar sem verið er að skáka jörðinni til aðila sem ætlar að leggja þar niður allan búskap mætti þó segja að vel hafi verið við hæfi að það ráðuneyti gini yfir málinu. Ef fyrirhugaðar áætlanir um Kálfratjarnartúnið ganga eftir munu kirkjan og kirkjugarðurinn á staðnum lenda inni í miðjum golfvelli og hefðu einhverntíma þótt helgispjöll enda segir í lögum um kirkjugarða: "Eigi má reisa mannvirki, starfrækja stofnanir eða reka fyrirtæki, sem frá stafar hávaði eða ys, í nánd við kirkjugarða. Skal þessa gætt við skipulagningu skipulagsskyldra staða." Kirkjunnar menn og ráðuneyti þeirra hafa samt ekki haft uppi nokkra tilburði til þess svo lítið sem láta í ljósi álit sitt á þessum ráðagjörðum. Það svíður Herdísi á Kálfatjörn mjög að þola þá þögn sem þaðan stafar og beinlínis nístir þreyttar taugar.

Þessi kona sem um áratugaskeið, ásamt sínu fólki, hafði veg og vanda af flestum hlutum sem vörðuðu umsjá kirkjunnar á Kálfatjörn; sá um þrif hennar, hafði umsjón og geymdi fermingarkyrtla, tók á móti prestum og skrýddi heima í stofu og veitti þeim og mörgum öðrum messukaffi; henni er nú sveiað burt af staðnum eins og hún hafi unnið þar eitthvert óþurftaverk. Athyglivert er að geistleg yfirvöld og ráðuneyti kirkjumála hafa ekki látið í sér heyra eitt orð henni til varnar. Eiga laun heimsins að vera vanþakklæti og höfnun þegar fólk er komið á efri ár? Vei þeim sem að þessari aðför hafa staðið og vei þeim Vatnsleysustrandarbúum, sem vísast eru ekki margir, er taka undir það að gömlum sveitunga hafi nauðugum verið bolað á brott í þeirra þágu.

Höfundur er fiskifræðingur.

Höf.: Einar Jónsson