Jóhannes  Gunnarsson
Jóhannes Gunnarsson
Neytendasamtökin sinna upplýsingastarfi og aðstoða neytendur sé á rétt þeirra gengið, að sögn Jóhannesar Gunnarssonar. Það skiptir því miklu fyrir neytendur að Neytendasamtökin séu öflug.

Neytendasamtökin eiga greinilega erindi við almenning og það er ljóst að almenningur telur starf samtakanna mikilvægt. Neytendasamtökin hafa á undanförnum árum verið ein fjölmennustu samtök landsins þar sem félagsmenn taka um það sjálfir ákvörðun að vera félagsmaður. Og það er vegna þess hve jákvæðir íslenskir neytendur eru, að Neytendasamtökin eru hlutfallslega þau fjölmennustu í heimi. Hlutfallslegur samanburður segir þó ekki alla söguna. Í raun þyrftu félagsmenn í Neytendasamtökunum að vera miklu fleiri en þeir eru nú því starf í þágu neytenda er í eðli sínu kostnaðarsamt og því miður hafa stjórnvöld að miklu leyti brugðist í þessum málaflokki.

Ef allir eiga að njóta ávaxta frjáls markaðshagkerfis, einnig neytendur, verða þeir að hafa yfirsýn yfir markaðinn. Það er því mikilvægt að Neytendasamtökin geti sinnt góðu upplýsingastarfi sem geri neytendum betur kleift að rata um markaðsfrumskóginn. Þeir verða einnig að geta leitað aðstoðar á ódýran og skjótvirkan hátt sé gengið á rétt þeirra. Þarna eru Neytendasamtökin brjóstvörn íslenskra neytenda, enda sinna samtökin bæði upplýsingastarfi og aðstoða neytendur sé á rétt þeirra gengið. Það skiptir því miklu fyrir neytendur að Neytendasamtökin séu öflug og því gera flestir neytendur sér grein fyrir.

Neytendur þurfa upplýsingar

Neytendastarf er í eðli sínu viðamikið og nær auk þess inn í marga mismunandi málaflokka. Margt af því sem gera þarf kostar talsverða fjármuni. Neytendur vilja til dæmis í auknum mæli fá upplýsingar um gæði vöru og þjónustu, en gæðakannanir eru mjög dýrar. Með samstarfi Neytendasamtakanna við neytendasamtök í nágrannalöndum okkar er nú mögulegt að nýta sér niðurstöður slíkra kannana og birta í Neytendablaðinu. Blaðið fá allir félagsmenn sent og er það innifalið í árgjaldi sem er 2.800 kr. En þessar kannanir þarf að staðfæra og helst þyrftum við einnig að geta látið rannsaka merki sem eru sterk í sölu hérlendis en eru ekki með í erlendu könnununum. Til að þetta sé mögulegt verða stjórnvöld að styrkja Neytendasamtökin.

Jafnframt reka Neytendasamtökin vandaða upplýsingaþjónustu fyrir félagsmenn sína. Þessa þjónustu er þó alltaf hægt að bæta og hafa opna fyrir allan almenning. Vandaðar upplýsingar um vöru og þjónustu áður en kaup eru gerð geta sparað mikið fyrir samfélagið allt, auk þess sem slíkar upplýsingar verða til að auka gæði. Ef efla á þennan þátt í starfi Neytendasamtakanna sem raunar er nauðsynlegt, verða stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, að koma að með myndarlegan stuðning. Við skulum muna að stjórnvöld eru með þessu að spara umtalsverða fjármuni fyrir þegna sína.

Neytendur þurfa aðstoð

Neytendur þurfa einnig að hafa aðgang að leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu. Nú hafa verið gefnar út leiðbeinandi reglur í Brussel sem við eigum að taka tillit til vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Þessar leiðbeiningar heita "Access to justice" og við höfum valið að þýða: Aðgengi neytenda að ódýrum og skjótvirkum úrlausnarleiðum vegna deilna við seljendur. Búast má við að leiðbeiningarnar verði að tilskipun innan ekki langs tíma. Reglurnar munu gilda á öllu EES-svæðinu og samkvæmt þeim þarf að reka skrifstofur í öllum aðildarlöndunum til að sinna kvörtunum neytenda. Með því að nota leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna má uppfylla leiðbeiningarnar og tilskipunina á vandaðan og hagkvæman hátt.

Fleiri félagsmenn - sterkari samtök

Nú er verið að hringja til almennings til þess að fjölga félagsmönnum í Neytendasamtökunum og auka þar með slagkraft samtakanna. Það er samdóma álit þeirra sem hringja að afstaða neytenda gagnvart samtökum sínum, Neytendasamtökunum, er jákvæð. Þar eð árgjald félagsmanna er langstærsti tekjuliður samtakanna skiptir slík jákvæðni miklu máli. Félagsmenn fá líka miklu meiri þjónustu en aðrir hjá Neytendasamtökunum og má nefna fáein dæmi:

Félagsmenn fá Neytendablaðið sent 4-5 sinnum á ári. Neytendablaðið sker sig frá öðrum blöðum þar sem auglýsingar eru ekki birtar í blaðinu.

Þeir hafa fullan aðgang að heimasíðu Neytendasamtakanna, en þar eru gæða- og markaðskannanir á læstum síðum fyrir félagsmenn. Þar er að finna fleiri kannanir en þær sem birtast í Neytendablaðinu. Þeir félagsmenn sem ekki hafa aðgang að Netinu geta fengið þessar kannanir sendar í pósti án endurgjalds.

Félagsmenn fá útgáfurit Neytendasamtakanna og neytendasamtaka í nágrannalöndum okkar á sérstökum kjörum.

Þeir hafa aðgang að upplýsingaþjónustu áður en kaup eru gerð.

Þeim stendur til boða endurgjaldslaus aðstoð kvörtunarþjónustu ef vandamál koma upp eftir að kaup hafa farið fram og neytandinn nær ekki fram rétti sínum einn síns liðs.

Það getur því borgað sig fljótt að vera félagsmaður í Neytendasamtökunum.

Höfundur er formaður Neytendasamtakanna.

Höf.: Jóhannesar Gunnarssonar