Livingstone varð að fá lögreglufylgd til að komast í gegnum mannþröngina eftir að ljóst var orðið, að hann hafði verið kjörinn borgarstjóri í London. Vildu margir fá að óska honum til hamingju með sigurinn.
Livingstone varð að fá lögreglufylgd til að komast í gegnum mannþröngina eftir að ljóst var orðið, að hann hafði verið kjörinn borgarstjóri í London. Vildu margir fá að óska honum til hamingju með sigurinn.
Fjórtán árum eftir að Margaret Thatcher lagði niður borgarstjórn í London, þar sem Ken Livingstone var í forsæti, sezt Livingstone nú aftur við stjórnvölinn í höfuðborginni og enn og aftur er forsætisráðherra landsins það þvert um geð.

Fjórtán árum eftir að Margaret Thatcher lagði niður borgarstjórn í London, þar sem Ken Livingstone var í forsæti, sezt Livingstone nú aftur við stjórnvölinn í höfuðborginni og enn og aftur er forsætisráðherra landsins það þvert um geð. En sigur Livingstones var ekki eina áfall Tony Blair í kosningunum á fimmtudaginn. Verkamannaflokkurinn tapaði 568 sveitarstjórnarmönnum og um leið var sigur Íhaldsflokksins upp á 593 sveitarstjórnarmenn nógu stór til þess að gefa flokknum viðspyrnu á landsvísu. Freysteinn Jóhannsson hefur fylgzt með kosningunum á Englandi.

EINS og ég ætlaði að segja, þegar ég var svo illa truflaður fyrir fjórtán árum..... sagði Ken R. Livingstone í gær, þegar búið var að lýsa kjöri hans sem fyrsta borgarstjóra London. En þótt þessi orð hafi átt að vera gamansöm tilvísun til fortíðarinnar, fylgir öllu gamni nokkur alvara. Og víst er að ekki var brúnin léttari á Tony Blair forsætisráðherra þegar úrslitin lágu fyrir en hún var á Margaret Thatcher, þegar Livingstone var að gera hana gráhærða með gagnrýni sinni fyrir 14 árum. Thatcher gerði sér loks lítið fyrir og lagði stjórn Livingstones af og er ekki að efa, að innst inni öfundar Blair hana af því úrræði. Það er hins vegar nokkuð sem honum er fyrirmunað að gera.

The Daily Telegraph spyr í forystugrein í gær, hvort formaður Verkamannaflokksins, hafi fyrstur slíkra greitt frambjóðanda íhaldsmanna atkvæði sitt. Tony Blair neitaði að gefa upp hvern hann kaus í annað sæti og blaðið segir að í ljósi þess að Steve Norris hafi verið sá eini sem mögulega gat bundið endi á sigurgöngu Livingstone, þá sé spurningunni kastað fram.

Sigur Livingstone, þótt öruggur væri, varð samt minni en virtist stefna í. Hann var oft sjálfum sér verstur í kosningabaráttunni með vanhugsuðum ummælum um menn og málefni og öflug barátta fjölmiðla og frambjóðenda gegn honum á lokasprettinum hefur svo gert útslagið um það, að hann tapaði fylgi síðustu dagana. Sá hræðsluáróður, að hann væri einhvers konar gangandi tímasprengja fyrir London hefur haft áhrif og útslagið gerði svo að andstæðingar hans notuðu ummæli hans og pólitíska fortíð til að spyrða hann saman við óeirðirnar í miðborg London 1. maí. Þetta bakslag hjá Livingstone hefur fyrst og fremst komið Steve Norris til góða, en árangur hans kom á óvart sem og árangur íhaldsflokksins í kosningunum til borgarráðs.

Þegar talið hafði verið upp úr kjörkössunum var Livingstone með 667.877 atkvæði í fyrsta sæti, eða 38,11%. Steve Norris, frambjóðandi Íhaldsflokksins fékk 464.434 atkvæði í fyrsta sæti, eða 26,5%. Þegar slagurinn stóð svo bara á milli þeirra tveggja og atkvæði þeirra í annað sæti höfðu verið talin með stóð Livingstone uppi með 776.427 atkvæði eða 58% og Norris 564.137 atkvæði eða 42%. Frank Dobson, frambjóðanda Verkamannaflokksins, tókst að halda þriðja sætinu með 223.884 atkvæði í fyrsta sæti og 12,78% og Susan Kramer, frambjóðandi Frjálslyndra, fékk 203.452 atkvæði í fyrsta sæti eða 11,61%.

Vinalegur og vígreifur

Livingstone var ýmist vinalegur eða vígreifur í gær. Þegar sigur hans hafði verið staðfestur, kvaðst hann vilja setja punkt aftan við kosningaátök, græða sárin og einbeita sér að því að skapa skilyrði fyrir sem breiðastri samstöðu um stjórn Lundúnaborgar og samstarfi við ríkisstjórnina. Í sjónvarpsviðtali í gærmorgun gaf hann í skyn að hann væri til í viðræður við ríkisstjórnina um málefni neðanjaðrarlestanna, þar sem hann og ríkisstjórnin eru á öndverðum meiði. Hann sagði ríkisstjórnina verða að hlusta á vilja mikils meirihluta Lundúnabúa í málinu og sagði að ef ríkisstjórnin væri svo heimsk að ætla að keyra fram vilja sinn með valdi, myndi hann leita til dómstóla til þess að reyna að rétta við hlut borgarbúa. Hann lýsti vilja sínum til þess að ná aftur sáttum við gamla flokkinn sinn og komast sem fyrst þar inn aftur. Hann sagði slæma útreið flokksins á landsbyggðinni sýna að flokkurinn þyrfti á öllu sínu að halda til kosninganna á næsta ári.

Ken Livingstone tapaði orrustunni innan flokks síns. En nú hefur hann unnið stríðið. Forystumenn Verkamannaflokksins tóku mjög varlega í sáttahönd Livingstone í gær og hafa örugglega haft bæði augun á hinni, þeirri sem vendinum sveiflaði. Menn voru líka mjög varkárir í ummælum sínum, en samvinna skal það heita, þar til annað kemur í ljós. Forsætisráðherrann var staddur á Írlandi í friðarviðræðum og sagði í gær, að sér dygði lítt að reyna að dylja skoðanir sínar á Ken Livingstone. Þær hefðu ekkert breyzt við borgarstjórakjörið. En álit hans væri liðin tíð. Lundúnabúar hefðu kveðið upp sinn dóm og það væri skylda sín að sjá til þess að hlutirnir gætu gengið fyrir London. Það væri aðalatriðið.

Það liggur í loftinu, að menn muni fara sér ákaflega varlega meðan þeir eru að sjá, hvernig landið liggur. Það er hins vegar erfitt að sjá fyrir sér hvernig svo ólíkir stjórnmálamenn sem Ken Livingstone og Tony Blair geta unnið saman, sérstaklega þegar annar lítur á hinn sem hreina skelfingu! En Livingstone liggur á og flokknum reyndar líka, því það er rétt hjá Livingstone að úrslitin á fimmtudaginn og kosningar á næsta ári reka á eftir mönnum.

Kosningarnar til borgarráðsins urðu svo rothöggið fyrir Verkamannaflokkinn í London. Þar á bæ höfðu menn gert sér vonir um að verða stærsti flokkurinn og þar með ótvírætt forystuafl. Úrslitin urðu hins vegar þau, að Íhaldsmenn fengu flesta kjörna fulltrúa, en þegar uppbótarsætum hafði verið deilt niður stóðu Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn jafnir að vígi með 9 menn hvor, frjálslyndir fengu 4 fulltrúa og græningjar 3.

Þessi skipting mun örugglega reyna á borgarráðsfulltrúa og þess má geta að fyrir hópi Verkamannaflokksins fer Trevor Philips, sem var meðframbjóðandi Frank Dobson.

Talning atkvæða í kosningunum í London dróst vegna bilana í tölvum. Bæði stóð ryk þeim fyrir þrifum og svo höfðu mjög margir kjósendur skilað atkvæðaseðlunum annaðhvort samanbrotnum eða öfugum, en slíkum seðlum skiluðu vélarnar frá sér og varð að setja þá í þær aftur. Á kjördag var gert ráð fyrir því að úrslit gætu legið fyrir í fyrrinótt, en það var ekki fyrr en klukkan 12:20 í gær, að úrslit lágu fyrir í borgarstjórakjörinu og talningin í kosningunum til borgarráðsins tók enn lengri tíma.

Margir kjósendur í London kvörtuðu yfir því að kosningarnar hefðu verið flóknar, en þeir þurftu að greiða fjórfalt atkvæði, tvö til borgarstjóra og tvö til borgarráðs.

Verri útreið en von var á

Það var Verkamannaflokknum lítil huggun að líta út fyrir borgarmúrana. Önnur eins úrslit í sveitarstjórnarkosningum hefur flokkurinn ekki fengið síðan 1987. Það er að vísu rétt, að hann sat í óvenju háum söðli eftir hrakfarir íhaldsmanna 1996, en samt varð útreiðin nú verri en menn höfðu búið sig undir.

Fyrir kosningarnar höfðu menn talið, að tap á 350, jafnvel 400 sveitarstjórnarmönnum væri það, sem Verkamannaflokkurinn mætti búast við, en hins vegar tapaði flokkurinn 568 fulltrúum og missti tökin á 15 sveitarstjórnum. Það tekur tíma að sleikja sárin eftir svona ófarir og því má alveg eins reikna með því að Tony Blair vilji vinna sem mestan tíma og fresti kosningunum á næsta ári fram á haustið. Ef litið er til atkvæðamagns flokkanna úr þessum kosningum og það borið saman við síðustu alþingiskosningar, þá hefur Verkamannaflokkurinn nú 30% og hefur misst 10% yfir til Íhaldsflokksins, sem fékk nú 37% atkvæða. En hlutirnir eru ekki svona einfaldir. Þrátt fyrir gott gengi Íhaldsflokksins í kosningum að undanförnu hefur flokknum ekki tekizt að virkja það til sín á landsvísu. Það segir líka sína sögu, að kosningaþáttakan nú var aðeins um 30% að meðaltali, sem er talið hafa bitnað mest á Verkamannaflokknum. Það er þó huggun að kjósendur hans sátu heima, en flykktu sér ekki um frambjóðendur stjórnarandstöðunnar öfugt við það sem gerðist 1966, þegar kjósendur ríkisstjórnarinnar flykktust á kjörstað og studdu stjórnarandstöðuflokkinn.

Sigurreifir þrátt fyrir þingsætistap

William Hague var sigurreifur, þegar í ljós kom að flokkur hans hafði unnið 593 fulltrúa. Þessi sigur er gott vegarnesti til baráttunnar fyrir næstu þingkosningar sagði hann. Íhaldsflokkurinn hefur nú unnið aftur flest sín gömlu vígi og reyndar gert strandhögg inn á lendur Verkamannaflokksins. Það varpar hins vegar skugga á þennan árangur, að Íhaldsflokkurinn tapaði sæti í aukakosningunum í Romsey, þar sem frambjóðandi frjálslyndra, Sandra Gidley, sigraði frambjóðanda Íhaldsflokksins með 19.571 atkvæði gegn 16.260 atkvæðum. Romsey hefur lengst af verið öruggt íhaldskjördæmi; meirihluti Michael heitins Colvin var 8.585 atkvæði. Tapið nú er tvímælalaust áfall, sérstaklega þar sem þetta voru einu kosningarnar til þingsins, og því má segja að þær hafi verið nokkurs konar prófsteinn á málflutning William Hague í kosningabaráttunni. Það hefur örugglega glatt fylgismenn ríkisstjórnarinnar að horfa upp á Íhaldsflokkinn tapa sætinu og enginn hefur heyrzt gráta hörmulega útreið frambjóðanda Verkamannaflokksins, sem missti ótrúlega mörg atkvæði yfir til frjálslyndra!

En þótt úrslitin í Romsey séu nokkur afturkippur fyrir Íhaldsflokkinn, munu íhaldsmenn örugglega reyna að nota úrslitin í sveitarstjórnarkosningunum til liðssafnaðar fyrir næstu þingkosningar. Ekki veitir af, því félagar í flokknum hafa aldrei verið færri og þrátt fyrir vaxandi gengi í kosningum síðasta árið eða svo hefur ekki tekizt að virkja það til fylgis við flokkinn á landsvísu. Eins og íhaldsmenn töluðu í gær er ljóst, að þeir eru staðráðnir í að láta kosningarnar á fimmtudaginn velta þeim bolta af stað. Árangurinn er tvímælalaust til þess fallinn.

Formaður festir sig í sessi

Sigur Frjálslynda flokksins í Romsey varð vatn á myllu flokksformannsins, Charles Kennedy. Þrátt fyrir tap 21 sveitarstjórnarmanns fékk flokkurinn 28% atkvæðahlutfall, sem er hans hæsta til þessa. Kennedy er nú talinn hafa sannað sig í formannsembættinu, en þar hefur hann alltaf staðið í skugga forvera síns, Paddy Ashdown.