Ari Skúlason
Ari Skúlason
Eftir lestur skýrslunnar stendur sú áleitna spurning eftir, segir Ari Skúlason, hvort EES-samstarfið sé fullnægjandi til þess að ná utan um hagsmuni okkar.

NÚ NÝVERIÐ var dreift á Alþingi skýrslu utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi. Hér er um 330 síðna rit að ræða þar sem ítarlega er farið í gegn um öll þau svið sem EES-samningurinn nær yfir. Þetta er hið gagnmerkasta rit að flestu leyti og góður umræðugrundvöllur og mjög þarft og þakkarvert framtak hjá utanríkisráðherra. Ég er hins vegar meðal þeirra sem hafði gert mér meiri væntingar um þessa skýrslu. Eftir viðræður við ýmsa aðila, bæði embættismenn og aðra sem komu að samningu skýrslunnar, hafði ég talið mér trú um að hún yrði mun beinskeyttari en raunin er og manni kemur helst í hug að framkvæmd hafi verið pólitísk endurskoðun á upphaflegum drögum vegna þess að oft eru niðurstöður varfærnari en efnið gefur tilefni til. Skýrslan er alfarið unnin á vegum utanríkisráðherra og komust aðrir ekki að. Þegar ASÍ fékk vitneskju um að til stæði að semja skýrslu af þessu tagi var sent bréf til utanríkisráðherra og beðið um að fá að koma að málinu. Aldrei hefur borist svar við þeirri beiðni. Innan ASÍ er talið að t.d. félagsmálakafli skýrslunnar væri mun betur unninn hefði fólk á okkar vegum fengið að koma að málinu.

Umræða um málið

Þegar þetta er skrifað hefur skýrslan ekki enn verið rædd á Alþingi. Viðtökur stjórnmálamanna og annarra strax eftir að skýrslan kom út var í takt við hefðbundna íslenska umræðu um þessi mál. Umræðan byggðist fyrst og fremst á fyrirfram ákveðnum skoðunum og snerist fyrst og fremst um fisk, landbúnað, kostnað við aðild og mögulega styrki á móti frá ESB. Amen og búið. Þeir sem hafa fyrir því að kynna sér málið, og til þess er þessi skýrsla mjög góður kostur, komast að því að spurningin um Evrópusamstarfið og aðild eða ekki aðild að ESB snýst um mun fleiri málefni. Þessi spurning snýst í rauninni um allt það sem við erum yfirleitt að sýsla með, allt frá neytendavernd til fjármagnsflutninga og allt frá vinnuaðstæðum þungaðra kvenna til samkeppnisreglna og sveitarstjórnamála. Um þetta mál þarf djúpa allsherjarumræðu um nær allt okkar þjóðlíf, ekkert minna.

Mun EES-samstarfið nægja okkur?

Eftir lestur skýrslunnar stendur sú áleita spurning eftir hvort EES-samstarfið sé fullnægjandi til þess að ná utan um hagsmuni okkar. Það er öllum ljóst að það hefur orðið sífellt erfiðara fyrir EFTA-ríkin að halda þessu samstarfi gangandi. Fyrsta áfallið kom strax þegar Svíþjóð, Finnland og Austurríki fóru úr EFTA yfir í ESB. Síðan hafa ýmsir aðrir þættir komið til, t.d. að fókus ESB hefur færst í austur og suður vegna stækkunar, myntbandalagið hefur komið til og samvinnan innan ESB hefur dýpkað mikið. EES-samningurinn byggist á næst-næst-síðustu útgáfu af sáttmála ESB, Rómarsáttmálanum, og það er orðinn verulegur munur á samstarfinu innan ESB og EES-samstarfinu. Þessi munur snýr ekki síst að félagsmálum og stöðu aðila vinnumarkaðar, en staða þeirra hefur eflst mjög mikið innan ESB á allra síðustu árum. ASÍ hefur allt frá upphafi tekið mjög virkan þátt í EES-samstarfinu og þar á bæ finnum við mjög vel að það er sífellt erfiðara að taka þátt í Evrópustarfinu á grundvelli EES-samningsins. Að okkar mati er ekki seinna vænna að hefja markvissa umræðu um stöðu okkar í Evrópusamfélaginu.

Félagsmálakafli skýrslunnar

Það væri hægt að hafa mörg fleiri orð um þann boðskap sem er að finna í skýrslunni, en komast að hér. Það er þó ekki hægt að sleppa því að minnast á félagsmálakafla skýrslunnar. Þegar skýrslan var rædd í alþjóðanefnd ASÍ voru menn sammála um að þann kafla þyrfti að endurskrifa frá grunni. Í fyrsta lagi er að finna í kaflanum alvarlegar staðreyndarvillur eins og t.d. að samstarf Íslands og ESB fjalli um launamál. Þetta er alger fjarstæða og villa eins og þessi hefði aldrei farið út á prenti ef utanaðkomandi aðilar hefðu a.m.k. verið fengnir til þess að lesa handrit af skýrslunni yfir. Í samantekt kaflans segir: "Halda má því fram að EES-samningurinn hafi bætt réttarstöðu launafólks á Íslandi." Þarna er um hikandi afstöðu að ræða og ég hef í margra ára starfi að þessum málum aldrei heyrt neitt hik í þessa átt frá þeim embættismönnum sem helst hafa um þetta fjallað. Undirkaflinn um vinnurétt og samráð og samninga aðila vinnumarkaðar á Evrópuvísu er undarlega lítill og almennur miðað við aðra hluta þessa kafla og reyndar miðað við umfjöllun um ýmislegt annað í skýrslunni. Öllum sem vilja vita er ljóst að í þessum málum hefur farið fram hörð barátta á milli ASÍ annars vegar og atvinnurekenda og stjórnvalda hins vegar um að koma fram hér á landi skuldbundnum réttarbótum á þessum sviðum. ASÍ hefur m.a. kært íslensk stjórnvöld fyrir Eftirlitsstofnun EFTA í þessum efnum. Í skýrslunni er einungis farið almennum orðum um allt þetta starf og ekki er einu sinni hirt um að telja upp allar þær reglur og tilskipanir sem hafa skapað verulegar réttarbætur á þessu sviði hér á landi. Mér finnst tónninn í þessu kafla vera nýr og ótrúlega varfærinn og hikandi sem leiðir aftur hugann að því hvort hér sé um mat embættismanna eða stjórnmálamanna að ræða.

Allir sammála um EES

Það góða við skýrsluna er að hún færir umræðuna um þessi mál á nýjan grunn. Nær engum dettur í hug að halda því fram lengur að það hafi verið rangt af íslenskum stjórnvöldum að ganga inn í EES-samstarfið á sínum tíma. Til þess er eru kostir samstarfsins og ávinningur allt of augljósir. Nú er spurningin fyrir flestum einungis sú hvort núverandi staða mála sé fullnægjandi eða hvort við eigum að taka eitt skref í viðbót og stefna að fullri aðild að ESB. Þetta er stór spurning og til þess að svara henni þarf alvarlega, ítarlega og djúpa umræðu. Sú umræða þarf að komast sem fyrst á dagskrá og hún þarf að fara fram á okkar eigin forsendum. Það versta sem við getum lent í er að þurfa að taka snöggar ákvarðanir í þessu máli bara vegna þess að aðrar þjóðir, t.d. Norðmenn, kjósa að taka einhver ný skref.

Höfundur er framkvæmdastjóri ASÍ.

Höf.: Ari Skúlason