Helgi Jónas Guðfinnsson, sem leikur með belgíska körfuknattleiksliðinu Antwerpen, komst í úrslit með félagi sínu um belgíska meistaratitilinn er það vann Aalst 98:75 öðru sinni í undanúrslitum. Helgi Jónas lék lítið með vegna veikinda.
Helgi Jónas Guðfinnsson, sem leikur með belgíska körfuknattleiksliðinu Antwerpen, komst í úrslit með félagi sínu um belgíska meistaratitilinn er það vann Aalst 98:75 öðru sinni í undanúrslitum. Helgi Jónas lék lítið með vegna veikinda. Hann gerði sjö stig í fyrri leik liðanna. Antwerpen mætir annaðhvort Orange Oostende eða Spirou Charleroi. Antwerpen hefur gengið allt í haginn í vetur og vann bikarmeistaratitilinn fyrir skömmu. Helgi Jónas sagði að félagið hefði stefnt á að vinna meistaratitilinn í haust og að liðið væri því á réttri braut. "Liðin í úrslitakeppninni eru jöfn að getu og því mikilvægt að komast áfram eftir tvo leiki," sagði Helgi, sem hefur lítið leikið með félaginu í úrslitakeppninni, vegna veikinda og meiðsla. Hann kvaðst gera sér vonir um að ná sér fyllilega fyrir úrslitaleikina. Helgi hefur ákveðið að söðla um og leika með Ieper næsta vetur. Hann gerði tveggja ára samning við félagið og fylgdi sex öðrum leikmönnum liðsins og þjálfara Antwerpen til Ieper.