Haraldur Árni Haraldsson
Haraldur Árni Haraldsson
Ég vil óska Lúðrasveit Hafnarfjarðar, segir Haraldur Árni Haraldsson, innilega til hamingju með merk tímamót.

LAUGARDAGINN 15. apríl sl. fagnaði Lúðrasveit Hafnarfjarðar hálfrar aldar afmæli sínu með veglegum tónleikum og sýningu á gömlum munum sveitarinnar, í Bæjarbíói í Hafnarfirði, undir yfirskriftinni "Hugljúfir tónar í hálfa öld". Stjórnandi á tónleikunum var Stefán Ómar Jakobsson sem staðið hefur við stjórnvölinn frá árinu 1988. Það er nokkuð merkilegt að íslensk lúðrasveit skuli ná því að verða 50 ára gömul, hvað þá eldri. Ástæðurnar liggja fyrst og fremst í öllu því aðstöðuleysi sem íslenskar lúðrasveitir búa við, bæði hvað varðar húsnæðismál og fjárhag. Veðurfar hérlendis er heldur ekki "lúðrasveitavænt" sem gerir slíkum hljómsveitum erfitt fyrir með að sýna sig almenningi út á við líkt og algengt er erlendis. Þess vegna er skilningur meðal almennings á starfsemi lúðrasveita ekki mikill og áhugi á þeirri tónlist sem lúðrasveitir leika í samræmi við hann.

Afmælistónleikar LH voru skemmtilegir sem og sögusýningin sem sett var upp í anddyri bíósins. Hafnfirðingar og aðrir áhugasamir vottuðu afmælisbarninu virðingu sína með því að fjölmenna á tónleikana.

Efnisskráin var fjölbreytt, allt frá syrpu af lögum sem Frank Sinatra gerði fræg á árum áður, til klassískra verka eins og Locus iste eftir Anton Bruckner, Cortége de Bacchus eftir Léo Delibes og Nocturna eftir Tchaikowsky þar sem Arnar Halldórsson klarínettuleikari, félagi í LH, lék einleik. Eldri félagar hljómsveitarinnar léku með í þremur síðustu lögunum fyrir hlé og stjórnaði Hans Ploder tveimur af þeim, en hann var stjórnandi sveitarinnar frá 1963 til 1988. Einnig voru nokkrir eldri og fyrrverandi félagar heiðraðir við þetta tækifæri.

Það sem undirrituðum fannst bera hæst á efnisskrá tónleikanna var Fanfare 2000 eftir hollenska tónskáldið Kees Vlak. Fanfare 2000 er vel skrifað verk eftir eitt fremsta lúðrasveitatónskáld samtímans og var leikur Lúðrasveitar Hafnarfjarðar þar einkar góður.

Afmælistónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar voru eins og áður segir hin besta skemmtun og leikur sveitarinnar í heild góður undir traustri stjórn Stefáns Ómars Jakobssonar.

Ég vil að lokum óska Lúðrasveit Hafnarfjarðar innilega til hamingju með merk tímamót. Megi starfsemi sveitarinnar blómstra um ókomna tíð.

Höfundur er skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og fyrrverandi félagi í Lúðrasveit Hafnarfjarðar.

Höf.: Haraldur Árni Haraldsson