HÆTTA er á að samskipti Bandaríkjanna og Evrópu, bæði á sviði viðskipta og varnarmála, muni versna í framtíðinnni, samkvæmt mati virtrar breskrar rannsóknarstofnunar sem fjallar um öryggismál. Í nýbirtri ársskýrslu International Institute for Strategic Studies (IISS) er því haldið fram að viðleitni Evrópuríkja til að þróa sjálfstæða öryggis- og varnarmálastefnu og áætlanir Bandaríkjanna um að setja upp öflugt gagneldflaugakerfi ógni samskiptum yfir Atlantshafið. Fram kemur að flest evrópsk ríki, þ.e. fyrir utan Bretland, séu andvíg því að Bandaríkin setji upp gagneldflaugakerfi og telji það að óþörfu bjóða heim hættunni á nýju vígbúnaðarkapphlaupi í heiminum. Að sama skapi hafi Bandaríkin "þungar áhyggjur" af þróun sameiginlegu öryggis- og varnarmálastefnunnar innan ESB. Tekið er fram að sá mikli munur sem nú er á hernaðarmætti Bandaríkjanna og Evrópuríkjanna geti valdið sundrungu innan Atlantshafsbandalagsins (NATO).
Lýðræði áfram óburðugt í Rússlandi
Í skýrslunni er einnig fjallað um þróun mála í Indónesíu, hættuna af átökum milli Indlands og Pakistans og þróun mála í Rússlandi.Samkvæmt skýrslunni mun Rússland í náinni framtíð liggja einhvers staðar mitt á milli Tyrklands og Egyptalands hvað varðar eðli lýðræðis í landinu. "Svo virðist sem í Rússlandi sé að þróast stjórnarfar sem kalla má "stýrt" lýðræði, líkt og finna má í mörgum fyrrverandi sovét-lýðveldum," segir í skýrslunni. Skýrsluhöfundar láta í ljós efasemdir um að nýir valdhafar muni uppræta spillingu í rússnesku samfélagi en margt í því sambandi muni velta á "heilindum, kjarki og áræðni" Pútíns forseta. Dregið er í efa að hugsanleg aukin áhrif leyniþjónustunnar í stjórnartíð Pútíns, sem er fyrrverandi yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar, muni hafa skaðleg áhrif á tengsl Rússlands við önnur ríki.
Það er mat skýrsluhöfunda að þróun þjóðarréttar og aukið vægi diplómatískra lausna í samskiptum þjóða hafi breytt hefðbundnum skilningi á fullveldi ríkja. Ríki geti ekki lengur skýlt sér bak við þá reglu að fullveldi þeirra komi í veg fyrir íhlutun í innanríkismál. Reglur alþjóðlegs mannúðarréttar hafi styrkst og alþjóðasamfélagið sé nú í auknum mæli reiðubúið að skipta sér af því ef þeim reglum sé ógnað eða þær brotnar. Skýrsluhöfundar slá því föstu að fullveldi ríkja geti þannig ekki lengur varið þau gegn íhlutun ef um er að ræða pyntingar, þjóðarmorð eða þjóðernishreinsanir.
Pinochet-málið táknrænt
Bent er á afskipti Bandaríkjanna af ástandi á Haiti og í Sómalíu og íhlutun Sameinuðu þjóðanna í Bosníu og á Austur-Tímor. Tekið er fram að NATO hafi ekki haft heimild Sameinuðu þjóðanna til aðgerða í Kosovo síðastliðið vor en slík heimild hafi í reyndinni verið tryggð eftir á.Vakin er athygli á því að yfirleitt sé það vandasamt verk að tryggja að þeir sem gerast brotlegir við alþjóðalög fái makleg málagjöld. Höfundar skýrslunnar telja að þess verði langt að bíða að Alþjóðlegi sakadómurinn (International Criminal Court - ICC) verði starfhæfur. Ákveðið var að setja dómstólinn á laggirnar árið 1998 en Bandaríkin og Kína hafa neitað að undirrita stofnskrá hans.
Skýrsluhöfundar telja að handtaka Pinochets, fyrrverandi einræðisherra í Chile, hafi staðfest hve eðli þjóðarréttar hefur breyst á undanförnum árum. Þó svo að hann hafi síðar verið látinn laus telja höfundarnir að málið endurspegli "ánægjulega útvíkkun þeirrar hugmyndar að í mannúðlegum heimi skuli enginn vera álitinn æðri lögunum".
London. AFP.