Tungumálakunnátta er lykillinn að menntun og almennt eru gerðar æ meiri kröfur um tungumálakunnáttu á öllum sviðum þjóðlífsins," segir Auður Hauksdóttir, lektor í dönsku, spurð um hið nýja nám, en hún hefur ásamt Guðrúnu Guðsteinsdóttur, dósent í ensku, og Sigríði Sigurjónsdóttur, dósent í íslensku, skipulagt þessa nýju námsleið. Einnig hafa Bergljót S. Kristjánsdóttir, dósent í íslensku, Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku, og Þóra Björk Hjartardóttir, dósent í íslensku fyrir erlenda stúdenta, unnið að skipulagningu námsins. "Náminu er ætlað að efla málakennslu í grunn- og framhaldsskólum og er einkum ætlað dönsku-, ensku- og móðurmálskennurum og þeim sem kenna íslensku sem erlend mál. Þessu nýja námi er einnig ætlað að stuðla að auknum rannsóknum á sviði tungumálanáms og -kennslu.
Okkur finnst brýnt að hefja þetta nám núna þegar nýjar námskrár í grunn- og framhaldsskólum hafa tekið gildi en þær hafa það markmið að auka enn frekar tungumálanám og bæta færni nemenda á þessu sviði. Eigi málanámið að ná þeim markmiðum sem að er stefnt, þurfa kennararnir að hafa góða kunnáttu á fræðasviði sínu og kunna skil á kennslufræði greinarinnar. Þá má geta þess að árið 2001 verður evrópskt ár tungumála og því þótti okkur við hæfi að hefja námið á námsárinu 2000-01."
Mikilvægt að efla rannsóknir
Eitt markmið M.Paed.-námsins er að efla rannsóknir á sviði málanáms og málakennslu. "Rannóknir á þessum sviðum hafa stóraukist um allan heim og skilningur manna á eðli tungumála og tungumálanáms hefur aukist jafnt og þétt. Þetta á jafnt við um móðurmálið sem erlend mál. Með tilkomu nýrra miðla í kennslu er t.d. mikilvægt að meta hvaða námsefni hentar í kennslunni og hvaða þættir málsins valda nemendum erfiðleikum. Sáralitlar rannsóknir hafa verið gerðar á tungumálanámi og -kennslu hér á landi, t.d. hvernig Íslendingum gengur að læra dönsku og ensku, hvað þeir eiga auðvelt með og hvað vefst helst fyrir þeim. En slík vitneskja er nauðsynleg til að hægt sé að byggja upp markvisst nám."Er hugsanlegt að tungumálanámið sé ekki nógu markvisst hér á landi?
Auður Hauksdóttir verður fyrir svörum: "Sú ríka áhersla sem hefur verið á lestur í íslenskum skólum er afar mikilvæg bæði í kennslu erlendra mála og í móðurmálskennslu. Málfræði er mikilvæg í öllu málanámi, en kennarar verða að geta glöggvað sig á, hvaða málfræðiatriði skipta mestu máli. Rannsóknir mínar á dönskukennslu gefa vísbendingar um, að oft sé lögð einhliða áhersla á málfræði, en að skapandi þáttum málsins sé of lítill gaumur gefinn. Þá hafa rannsóknir mínar sýnt að fagmenntun dönskukennara í grunnskólum er mjög ábótavant. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að tungumál lærast fyrst og fremst með því að nemendur noti þau á eigin forsendum. Þegar nemendur tjá hugsanir sínar leita þeir að orðum sem þeir hafa þörf fyrir og þannig verða þau meira lifandi fyrir þeim og þeir upplifa málið sem tæki til tjáskipta. Sem dæmi um litla áherslu á tjáningu í málakennslu má nefna að á samræmdum prófum í dönsku hefur hlutur tjáningar einungis verið 20% ritun. Mat á talmáli er ekki hluti af prófinu.
Samræmdu prófin eru reyndar ótæmandi rannsóknarefni um tungumálanám og kunnáttu nemenda, því þar fer heill árgangur í próf á hverju ári og því eru þar á ferðinni gífurlega mikilvæg gögn sem ástæða væri að rannsaka nánar. Með þeirri vitneskju væri síðan hægt að bæta námið enn frekar."
Samstarfsverkefni
M.Paed-námið er samstarfsverkefni ensku-, dönsku- og íslenskuskorar við Háskóla Íslands. Námið tekur þrjú misseri, tvö misseri eru kennd í heimspekideild og eitt í félagsvísindadeild. Þeir kennarar sem lokið hafa kennsluréttindanámi þurfa einungis að taka tvö misseri. Nokkur námskeið, eins og rannsóknir á málanámi og málakennslu, máltaka móðurmáls og erlendra mála, kenningar um ritun, textalestur, orðaforða og hlustun í erlendu máli verða kennd sameiginlega en önnur eru kennd innan hverrar greinar."Auðvitað hefur hvert tungumál sína sérstöðu. Danskt talmál er til dæmis mun erfiðara fyrir Íslendinga en það enska og þannig mætti áfram telja, en með vissri samnýtingu getum við náð hagræðingu sem gerir okkur kleift að koma þessu námi á fót," segir Auður og bætir við að samvinna þessara greina hafi verið mjög lærdómsrík og skemmtileg.
Að sögn Guðrúnar Guðsteinsdóttur, dósents í ensku, hefur lengi verið rætt um það innan enskudeildarinnar að setja upp svona nám. "Fyrir rúmu ári vorum við Auður saman í samstarfsnefnd á vegum Háskóla Íslands, Kennaraháskólans og Háskólans á Akureyri, en nefndinni var ætlað að skilgreina markmið í námi væntanlegra ensku- og dönskukennara út frá breyttri námskrá sem nú er að taka gildi og þá sáum við að óhjákvæmilegt er að efla menntun kennara ef markmið hennar eiga að ná fram að ganga. Þetta varð því til þess að við fórum að leita leiða til þess að koma þessu námi á fót."
Auk þeirra kennara sem komu að skipulagi M.Paed.-námsins mun Birna Arnbjörnsdóttir, doktor í málvísindum frá Bandaríkjunum, verða einn af aðalkennurunum, en hún hefur unnið að kennslu og rannsóknum í kennslufræðum tungumála síðustu tíu árin við Notre Dame-háskólann í Bandaríkjunum.
"Birna hefur mikla rannsóknar- og kennslureynslu, einkum í því að kenna útlendingum ensku. Það er því mjög mikill fengur að fá hana til starfa," segir Guðrún.
Að kynnast menningunni
"Á öllum sviðum þjóðlífsins finnum við fyrir kröfum til aukins tungumálanáms og mikillar færni í tungumálum hvort sem er í námi eða atvinnulífinu," segir Auður Hauksdóttir. "Við Íslendingar eigum auðvitað langa reynslu í að sækja nám til útlanda og okkur hefur fundist sjálfsagt að læra fleiri en eitt erlent tungumál. Þetta viðhorf er dýrmætt.Enskan hefur að undanförnu verið að taka yfirhöndina og í því felst viss hætta, ekki aðeins vegna minni menningarlegrar fjölbreytni heldur getum við glutrað niður mikilvægum sóknarfærum t.d. í námi og viðskiptum. Það er miklu auðveldara að byggja upp samskipti við erlendar þjóðir og hagsmunum okkar er betur borgið ef við tölum mál þeirra og skiljum menninguna."
Guðrún Guðsteinsdóttir tekur undir þetta og bendir á hve tengslin milli tungumáls og menningar séu mikilvæg. "Í enskunámi verðum við að leggja meiri áherslu á samfélagslega þáttinn, hvaða hlutverki tungumálið gegnir í hefðum og kurteisisvenjum og hvaða málsnið er við hæfi að nota við ólíkar aðstæður. Stundum heyrir maður Íslendinga tala mjög góða ensku með Oxford-hreim en síðan brjóta þeir grundvallar kurteisisvenjur sem eru innbyggðar í málfarið. Þá hljóma þeir ruddalegir í eyrum enskumælandi fólks."
Eru Íslendingar samt ekki mjög áhugasamir um enskunámið?
"Almennt eru Íslendingar mjög brattir yfir enskukunnáttu sinni en alltaf má gera betur. Það eru auðvitað sérstök íslensk einkenni á málnotkun hér á landi sem koma fram í framburði einstaka orða og þýðingum á ýmsum orðatiltækjum eins og eðlilegt er. Áhrif enskunnar eru orðin mjög mikil í daglegu lífi og fólk þarf talsverða enskukunnáttu til þess að geta nýtt sér Netið að einhverju ráði og sama á við um krakka sem nota tölvuleiki," segir Guðrún, en hún segist einnig merkja nokkrar breytingar meðal nemenda sinna í Háskólanum sem hafa nýlokið framhaldsskóla. "Áður voru nemendur sem hófu nám við enskudeildina mjög sterkir í málfræði og ritun en nú virðist sá þáttur vera að veikjast en talfærnin hefur hins vegar aukist verulega og nemendur er ófeimnari við að tjá sig."
Íslenska fyrir móðurmálskennara
"Námið í íslensku er hugsað fyrir móðurmálskennara en einnig þá sem kenna íslensku fyrir útlendinga," segir Sigríður Sigurjónsdóttir, dósent í íslensku. "Í grunn- og framhaldsskólum fjölgar þeim nemendum stöðugt sem hafa annað mál en íslensku að móðurmáli og því þurfa kennarar að vera undir það búnir að mæta þörfum þessara nemenda. Einnig má ekki gleyma því íslenska er kennd við erlenda háskóla víða um heim og ákveðin sérhæfing á þessu sviði skiptir því miklu máli og hefur ekki verið sinnt sem skyldi hingað til."Að sögn Sigríðar hefur íslenskuskor boðið upp á M.Paed.- nám síðasta áratug en með þessari samvinnu við dönsku og ensku verður mikil breyting á því námi. Ríkari áhersla verður lögð á íslenskuna sem kennslugrein, m.a. kenningar um málanám og máltöku, miðlun námsefnis og sérstök áhersla verður lögð á rannsóknir á móðurmáli, móðurmálskennslu og íslensku sem erlendu máli.
"Rannsóknir mínar hafa aðallega beinst að máltöku barna og þær sýna að máltaka móðurmáls er reglubundið ferli og börn tileinka sér málfræðileg atriði í tiltekinni röð. Mikilvægt er að kennarar hafi þekkingu á því hvernig máltaka barna og unglinga gengur fyrir sig í höfuðatriðum, þannig að þeir geti skipulagt móðurmálskennsluna í samræmi við það. Þessi þekking nýtist að sjálfsögðu einnig við kennslu erlendra mála. Auk mín mun Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor við KHÍ, sem einnig hefur unnið að rannsóknum á máltöku íslenskra barna, koma að kennslunni. Birna Arnbjörnsdóttir mun sinna þeim þætti sem snýr að máltöku íslensku sem erlends máls. Önnur námskeið verða kennd af kennurum íslenskudeildar og í samvinnu við ensku og dönsku. Hluti M.-Paed námsins fer fram í félagsvísindadeild."
Nám með starfi
Þeir sem hafa áhuga á M.Paed.- námi verða að hafa lokið BA-prófi í íslensku, ensku eða dönsku. Þá geta þeir sem lokið hafa prófi úr Kennaraháskólanum með íslensku, dönsku eða ensku sem valgrein hafið þetta nám, en þurfa þó að taka ákveðið viðbótarnám á BA-stigi.Til að auðvelda starfandi kennurum að stunda námið verða námskeiðin haldin síðdegis og kennt verður í lotum. Þeim sem hafa áhuga á náminu á hausti komanda er bent á að snúa sér sem fyrst til Hugvísindastofnunar.