Unnið að lokun holu 4 hinn 4. maí 2000.
Unnið að lokun holu 4 hinn 4. maí 2000.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STARFSMENN Landsvirkjunar við Kröflu unnu að því í vikunni, undir stjórn Egils Sigurðssonar veitustjóra, að hella steypu niður í borholu 4 í Bjarnarflagi og loka henni með því endanlega. Lýkur þar með einstakri sögu borholu.

STARFSMENN Landsvirkjunar við Kröflu unnu að því í vikunni, undir stjórn Egils Sigurðssonar veitustjóra, að hella steypu niður í borholu 4 í Bjarnarflagi og loka henni með því endanlega. Lýkur þar með einstakri sögu borholu.

Holan var boruð sumarið 1968 sem vinnsluhola fyrir væntanlega gufuvirkjun sem þá var verið að reisa þar skammt frá á vegum Laxárvirkjunar. Borun var framkvæmd með Norðurbor sem boraði 1.138 metra djúpa holu og gaf hún um 8 kg af háþrýstigufu. Holan var tekin í notkun í nóvember sama ár og hefur verið nýtt síðan, fyrst fyrir Kísiliðjuna og rafstöðina, en hin síðari ár fyrir Hitaveitu Skútustaðahrepps. Afköst holunnar hafa farið minnkandi og voru nú orðin óveruleg. Í vetur kom í ljós að holufóðring var mjög tærð og ekki viðgerðarhæf, var því ákveðið að ljúka sögu holunnar nú.

Í umbrotahrinu að kvöldi 8. september 1977 gerðist sá einstæði atburður að holan gaus glóandi gjalli, myndaðist þá gat á rörbeygju yfir holutoppi og stóð eldtungan tugi metra í loft upp. Fyrsta gosið stóð í um eina mínútu en 10-20 mínútum síðar kom önnur gusa sem stóð álíka lengi. Í birtingu næsta dag sást dreif af gjalli umhverfis og norðan holunnar í allt að 180 metra fjarlægð en gufustrókur stóð upp úr rörbeygju yfir holutoppnum og sagði sína sögu.

Áætlað er að um 3 tonn af gjalli hafi þá komið úr holunni. Holan var í blæstri meðan á gosinu stóð og sömuleiðis á eftir. Þetta var eina eldgosið sem upp kom í Bjarnarflagi í goshrinu þeirri sem hófst í desember 1975 og lauk í september 1984 og nefnd hefur verið Kröflueldar, jafnframt er þetta eina þekkta dæmið í heiminum af eldgosi upp um borholu.

Mývatnssveit. Morgunblaðið.

Höf.: Mývatnssveit. Morgunblaðið