STJÓRNVÖLD á Sri Lanka hafa veitt hernum og lögreglunni aukin völd og hefur verið lýst yfir stríðsástandi vegna sóknar skæruliða Tamílsku tígranna gegn Jaffnaborg.

STJÓRNVÖLD á Sri Lanka hafa veitt hernum og lögreglunni aukin völd og hefur verið lýst yfir stríðsástandi vegna sóknar skæruliða Tamílsku tígranna gegn Jaffnaborg. Stjórnarandstaðan í landinu heldur því hins vegar fram, að stjórnin sé að taka sér alræðisvald með átökin við skæruliða að skálkaskjóli.

Chandrika Kumaratunga, forseti Sri Lanka, kynnti lögin um stríðsástand í landinu í fyrradag en þau heimila hernum meðal annars að gera eignir manna og öll farartæki upptæk. Þau banna einnig verkföll og allar mótmælaaðgerðir. Í skjóli laganna var auk þess komið á ritskoðun á fréttum erlendra blaðamanna en hún gildir nú þegar gagnvart innlendum fjölmiðlum. Talsmenn stjórnarandstöðunnar mótmæltu lögunum og sögðu, að þeim væri aðeins ætlað að afnema pólitískt frelsi í landinu. Þá hafa ýmis alþjóðasamtök, t.d. Fréttamenn án landamæra, mótmælt ritskoðuninni.

Stjórnarherinn á Sri Lanka varð fyrir miklu áfalli er hann missti mikilvæga herstöð á Jaffnaskaga fyrir tæpum tveimur vikum og sækja skæruliðar nú að sjálfri Jaffnaborg. Stjórnin lýsti því hins vegar yfir í gær, að Jaffnaborg yrði varin og hefði herinn þar gert gagnárás á skæruliða og hrakið þá frá mörgum stöðvum sínum.

Jaswant Singh, utanríkisráðherra Indlands, hafnaði á miðvikudag óskum Sri Lankastjórnar um hernaðaraðstoð en sagt er, að hún hafi m.a. átt að fela í sér, að indverski herinn aðstoðaði við brottflutning stjórnarhermanna frá Jaffnaborg, allt að 40.000 manns.

Reiða sig á stuðning Ísraela

Sri Lankastjórnin tilkynnti í fyrradag, að hún ætlaði að taka upp stjórnmálasamband við Ísrael, og þykir víst, að Ísraelar muni laun henni það í einhverju, ekki síst með hernaðaraðstoð. Ísraelsk stjórnvöld hafa fagnað stjórnmálasambandinu og ætla að senda nefnd manna til landsins.

Colombo. AFP, AP.

Höf.: Colombo. AFP, AP