[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Prayers from Hell. Safndiskur Trikont, Þýskaland.

LÍNUDANS, hamborgararassar og væmnir Nashville-söngvarar eru það fyrsta sem flestum dettur í hug þegar minnst er á kántrítónlist. Þessi glassúrmynd á ekkert skylt við alvöru skítuga og persónulega kántrítónlist. Hér er kynntur til sögunnar frábær diskur um rætur kántrítónlistar meðal sveittra og drullugra suðurríkjabúa á fyrri hluta aldarinnar. Hann nefnist "Prayers from hell" eða "Bænir úr víti" og segir það mikið um innihald disksins.

Diskurinn er fullur af söngglöðum hvítum sveitalubbum sem slógu í gegn á tímum kreppu og þurrka í Bandaríkjunum með hráum trega og trúarsöngvum. Þarna blandast saman þjóðlagahefð gamla heimsins og blús og trúartónlist hinna svörtu. Þessi tónlist fer með hlustandann til hitasvækjudaga í suðurríkjunum þar sem konurnar spila á gítar, karlarnir syngja og börnin glamra á þvottabretti.

Fyrstu kántrísöngvararnir voru bændur sem spiluðu með fjölskyldum sínum og á þessum diski eru flytjendur yfirleitt systkin, hjón eða frændfólk. Frægust slíkra fjölskyldna er Carter-fjölskyldan en þarna eru einnig Monroe-bræður, Collins-hjónin og fleiri "fjölskyldubönd". Þetta er frumstæð tónlist um Jesú og ofdrykkju sem gerði Elvis Presley, Jhonny Cash og fleiri að tónlistarmönnum. Í æsku sinni heyrðu kapparnir þessi lög í gegnum léleg útvörp í suðurríkjahreysum sínum, tóku upp kassagítarinn og gerðust súperstjörnur. "Prayers from hell" eru barnagælur rokksins. Þetta er einlæg tónlist um guðsótta og góða siði sem kannski á lítið erindi við góðærisgeðveikt nútímafólk en gleymum samt ekki góðum boðskap kúrekanna og vörum okkur á viskíi, lauslæti og glysi heimsins.

Ragnar Kjartansson

Höf.: Ragnar Kjartansson