RICO Saccani hljómsveitarstjóri var í sjöunda himni yfir því hvernig til tókst með flutning Orgelsinfóníunnar eftir Camille Saint-Saëns á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í gærkvöld. Flutningurinn var með þeim nýstárlega hætti að Hörður Áskelsson organisti lék á orgel Hallgrímskirkju en Sinfóníuhljómsveit Íslands var í Háskólabíói. Einleikarinn og hljómsveitin ásamt hljómsveitarstjóra voru tengd saman með hljóði og mynd um ljósleiðara og mynd af Herði við hljóðfærið varpað upp á stóran skjá ofan við hljómsveitina.
"Ég var algjörlega mótfallinn þessu í upphafi og benti tæknimönnunum á að ef þetta tækist ekki fullkomlega þá yrði mér kennt um sem stjórnanda. En þegar við reyndum þetta á þriðjudaginn þá tókst þetta fullkomlega í fyrstu tilraun. Hljómburðurinn var einnig frábær og ég á enginn orð yfir hvernig tæknimönnunum tókst að endurskapa hljóm orgelsins í Hallgrímskirkju svo fullkomlega. Ég sagði við áhorfendur áður en við hófum flutninginn að þetta væri einstakt tækifæri sem gæfist ekki aftur fyrr en hér væri búið að byggja tónleikahús með fullgildu konsertorgeli," sagði Rico Saccani.
Hörður Áskelsson organisti tók í sama streng og sagðist himinlifandi yfir hvernig til tókst. "Ég heyrði auðvitað ekki hvernig hljóðfærið hljómaði í Háskólabíói þar sem ég sat í Hallgrímskirkju en upplifunin var eins og á tónleikum. Ég sá Rico á sjónvarpsskjá og hann mig svo þetta var eins og við værum hlið við hlið. Þetta var einstök upplifun og undir það hafa ýmsir tekið sem hlýddu á. Ég gæti best trúað að þetta væri í fyrsta sinn sem hljóð og mynd eru notuð samtímis við svona flutning," sagði Hörður Áskelsson.