Fulltrúar á stofnfundi Samfylkingarinnar klöppuðu Össuri Skarphéðinssyni, formanni flokksins, lof í lófa og var honum færður blómvöndur þegar úrslit í formannskjörinu lágu fyrir í gær.
Fulltrúar á stofnfundi Samfylkingarinnar klöppuðu Össuri Skarphéðinssyni, formanni flokksins, lof í lófa og var honum færður blómvöndur þegar úrslit í formannskjörinu lágu fyrir í gær.
Össur Skarphéðinsson, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu við setningu stofnfundar Samfylkingarinnar í gær að Samfylkingin væri tilbúin til þess að veita ríkisstjórn forystu hvort heldur væri á þessu kjörtímabili eða eftir næstu kosningar. Össur sagði að gjald fyrir auðlindanýtingu ætti m.a. að nýta til að lækka tekjuskatt launafólks og lagði hann áherslu á varfærni og aðgát varðandi hugsanlega aðild að ESB. Ómar Friðriksson fylgdist með stofnfundinum í gær.

FJÖLMENNT var á stofnfundi Samfylkingarinnar sem hófst kl. 10 í gærmorgun með hátíðlegri athöfn í Borgarleikhúsinu. Þar fluttu m.a. Glenda Jackson þingmaður Verkamannaflokksins í Bretlandi og

Ole Stavad, varaformaður danska Jafnaðarmannaflokksins, stutt ávörp. Glenda Jackson lagði í ræðu sinni áherslu á virkt lýðræði og sígild meginatriði jafnaðarstefnunnar. Sagði hún að stjórnmálaflokkar gleymdu því stundum að lýðræðið byggðist óhjákvæmilega á því að þeir hlustuðu vel á sjónarmið og vilja kjósenda. Sagði hún að grundvallarsjónarmið jafnaðarstefnunnar sem byggðist á félagslegu réttlæti, mannréttindum, frelsi og jafnrétti væru í fullu gildi þrátt fyrir breytingar sem væru að eiga sér stað í umheiminum en gagnrýndi blinda einstaklings- og markaðshyggju. Óskaði hún Samfylkingunni velfarnaðar og lokaorð hennar voru: "Guð blessi nýja barnið."

Nokkrar kveðjur og hamingjuóskir bárust inn á fundinn, m.a. frá Gerhard Schroeder, kanslara Þýskalands og formanni þýska Jafnaðarmannaflokksins.

Össur hlaut 76,4% atkvæða

Hápunktur fundarins í gær var svo þegar úrslit í formannskjörinu voru kynnt um kl. 11. Kosningarétt höfðu 10.191 en alls bárust 4.574 atkvæðaseðlar í póstatkvæðagreiðslunni um formann eða 45% atkvæða þeirra sem rétt höfðu til þátttöku. 173 atkvæði bárust með ófullnægjandi hætti og voru því ekki talin með skv. ákvörðun kjörstjórnar. Auðir og ógildir seðlar voru 82. Úrslit urðu þau að Össur Skarphéðinsson hlaut 3.363 atkvæði eða 76,4% og Tryggvi Harðarson 956 eða 21,7%.

Þegar úrslit lágu fyrir kvaddi Tryggvi sér hljóðs og hvatti fundarmenn að fylkja sér að baki hinum nýkjörna formanni. "Það var mín bjargfasta trú að það væri Samfylkingunni til góðs að það færi fram kjör um fyrsta formann Samfylkingarinnar," sagði hann.

Forgangsverkefni að berjast gegn græðgi og tillitsleysi

Þessu næst flutti nýkjörinn formaður Össur Skarphéðinsson ræðu. "Við höfum endurskipulagt okkur og endurnýjað hugmyndagrundvöll okkar og það er þess vegna sem landsmenn geta treyst getu okkar og kjarki við að endurnýja þjóðfélagið líka. Við teljum að það sé brýn þörf á að jafna leikinn í samfélaginu og við erum tilbúin til þess að veita ríkisstjórn forystu. Við erum tilbúin til þess hvenær sem er að taka við stjórnartaumunum, hvort heldur er á þessu kjörtímabili eða eftir næstu kosningar. Kæru flokkssystkin. Ég lýsi yfir að af minni hálfu þá hefst kosningastarfið strax í dag," sagði Össur m.a. í ræðu sinni.

Össur sagði að grunnboðskapur hinnar endurnýjuðu jafnaðarstefnu væri nútímaleg velferðarskipan sem tryggði sérhverjum tækifæri til að lifa fullu lífi í leit sinni að hamingju. "Kjörorðin um frelsi, jafnrétti og bræðralag fela af okkar hálfu í sér bindandi loforð um að þegar við tökum við landsstjórninni þá verði það forgangsverkefni að berjast gegn græðgi og tillitsleysi, að koma þeim til hjálpar sem eiga undir högg að sækja. Það verður okkar hlutverk, sem erum komin saman í þessum sal, að gæða stjórnmálin siðferðilegu inntaki, sem þau skortir svo mjög í dag," sagði Össur.

Hann fjallaði einnig um alþjóðavæðinguna og sagði að ný staða krefðist nýrra pólitískra svara. Byltingin sem kennd væri við upplýsinga- og þekkingarsamfélagið hefði nú gert mannauðinn að hinu ráðandi framleiðsluafli.

Verða að hafa hóf á græðgi sinni á fjármálamarkaðinum

"Sú tíð er liðin að hinar upprennandi kynslóðir í landinu séu synir ogt dætur verkamanna, bænda og sjómanna. Þorri launafólks í landinu vinnur í dag við hverskonar þjónustustörf og huglæga iðju. Þeim fjölgar stöðugt sem starfa sjálfstætt og tilheyra ekki vel skilgreindum atvinnuhópum. Þessi þróun kallar á breytt skipulag á vinnumarkaði og hún kallar líka á önnur viðmið í stjórnmálastarfi, hún kallar á önnur vinnubrögð af okkar hálfu. Markaðskerfið er orðið ráðandi skipulagsform í öllu atvinnulífi og það gegnir sínu hlutverki oft ágætlega við dreifingu, verðlagningu og sköpun auðlegðar. Markaðskerfið hneigist hins vegar eitt og sér til þess að skapa meiri ójöfnuð en við viljum búa við og það getur óheft valdið hinum mestu hörmungum. Í mannlegu félagi getur markaðurinn verið lipur og góður þjónn, en hann er skelfilegur húsbóndi," sagði Össur.

Hann vék einnig að hlutverki fjármagnsmarkaðarins sem þrátt fyrir að gegna mikilvægu hlutverki skapaði einnig nýjan ójöfnuð á Íslandi að sögn hans. "Sú aðstaða sem fjármagnsöflin hafa í góðæri undanfarinna ára haft til þess að hlaða upp fjármagni kallar á aukna samfélagsábyrgð af þeirra hálfu líka. Þau verða í vaxandi mæli að skila sínu aftur til þess samfélags sem skóp þeim auðinn. Í háþróaðri kapítalisma en hér ríkir er það alsiða að fyrirtæki og auðmenn leggja ríflega fram til menningar, líknarstarfs og framfaramála. Þeir sem gera út á fjármálamarkaði verða að hafa hóf á græðgi sinni. Þeir verða að starfa innan ramma samfélagsins sem elur þá. Þeir geta ekki leyft sér að skilja sig úr lögum við venjulega Íslendinga," sagði hann.

Í ræðu sinni vék Össur einnig að markaðshagkerfinu sem hann sagði að væri nútímaumgjörð þjóðlífsins en jafnrétti og menntun væru lykilþættir við að tryggja félagslegt réttlæti. "Við viljum ekki markaðssamfélag þar sem peningaleg viðmið eru hin helgu vé allsstaðar í samfélaginu en við hins vegar styðjum markaðshagkerfið, við styðjum einstaklingsframtak og við viljum heilbrigða samkeppni í atvinnulífinu. Gleymum því ekki að samkeppni í atvinnulífinu er hagsmunamál fyrir neytendur og við erum hreyfing neytenda. Ríkisvaldið á að taka afstöðu með neytendum í stað þess að leggja áherslu á einkavæðingu og verndaraðgerðir sem leiða til fákeppni og jafnvel nýrrar einokunar," sagði Össur.

Hann sagðist ekki vera hræddur við að samkeppnisvæða ríkisfyrirtæki eins og Landsbanka og Búnaðarbanka en sagðist hafna einkavæðingu grunnþátta í mennta- og heilbrigðiskerfinu.

"Í þessu máli er skýr víglína á milli okkar og ríkisstjórnarflokkanna og við eigum, góðir félagar, að beita okkar kröftum þar sem munar um þá, og þarna er þeirra þörf," sagði hann.

Netið notað við þjóðaratkvæðagreiðslur

Í ræðu sinni lagði Össur áherslu á að Samfylkingin beitti sér fyrir því að með aðstoð Netsins yrði hægt að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál og sveitarstjórnum yrði gert kleift að skjóta þýðingarmiklum ákvörðunum til almennrar atkvæðagreiðslu. Sagðist hann hafa í hyggju að nota Netið til að ráðfæra sig reglulega við flokksmenn.

Össur lagði mikla áherslu á eflingu menntunar og sagði að tilfærsla á fé til menntamála yrði fyrsta úrslausnarefni ríkisstjórnar sem Samfylkingin stæði að.

Skýr víglína í fiskveiðistjórnarmálinu

Hann fjallaði einnig um auðlindamál og sagði: "Auðlindir í sjó og landi eru eign þjóðarinnar og fyrir nýtingu á þeim ber að greiða sanngjarna leigu til þjóðarinnar. Gjald fyrir auðlindanýtingu á að mínu mati meðal annars að nýta til þess að lækka tekjuskatt launafólks. Þjóðin öll á að fá sanngjarnan hlut af afrakstri sameiginlegra auðlinda sjávar með því að veiðiheimildir verði leigðar út til langs tíma eins og við höfum lagt til. Að því gefnu er það mín skoðun að það eigi að stýra fiskveiðum með aflamarkskerfi en ég er hins vegar algerlega andvígur núverandi gjafakvótakerfi stjórnarflokkanna. Ég er í hópi þeirra sem eru ekki gramir yfir nýföllnum dómi Hæstaréttar. Ég tel að með þessum dómi hafi Hæstiréttur í reynd vísað veginn til breytinga á fiskveiðikerfinu og ég heiti ykkur því að við munum ekki láta stjórnarflokkana komast upp með að svæfa málið áfram í kyrrsetunefndum mörg misseri í viðbót. Í þessu máli er algjör og skýr víglína í íslenskum stjórnmálum," sagði Össur og tóku fundarmenn undir þessi orð hans með lófataki.

Umsókn um aðild að ESB óráðleg án samstöðu

Össur fjallaði einnig um Evrópumálin og sagði m.a. að Evrópusambandið væri að breytast og stækka og atburðarásin gæti leitt til þess að þjóðin stæði frammi fyrir því að gera upp hug sinn um aðild.

"Við getum ekki gert upp hug okkar um aðild nema ljóst sé um hvað við vildum semja. Ég tel því að næsta skref í þessum málum sé að hefja skipulega vinnu við að skilgreina samningsmarkmið Íslendinga í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. En um þau markmið verður að ríkja meirihlutasamstaða meðal þjóðarinnar. Það er ekki ráðlegt að sækja um aðild nema slík samstaða sé fyrir hendi og nægir þar að minna á dæmi Norðmanna. Við sækjum ekki um nema við vitum nákvæmlega hvað við viljum og nema víðtæk samstaða ríki um samningsmarkmiðin meðal þjóðarinnar," sagði Össur.

Hann sagði ennfremur að kostirnir við aðild gætu reynst þyngri á metum en gallarnir, að því tilskildu að Íslendingar einir nýttu fiskimiðin. Sagði hann eðlilegt að Íslendingar færu gætilega við alþjóðlegar skuldbindingar. "Slík varkárni má þó ekki leiða til einangrunarhyggju," sagði hann.

Viðbúnaður skv. varnarsamningi leiði ekki til skeytingarleysis

Össur fjallaði einnig um önnur utanríkismál og sagði að á tímum nýrrar heimsskipunar og örra tæknibreytinga yrðu Íslendingar að gæta þess að viðbúnaður hérlendis samkvæmt varnarsamningnum við Bandaríkin leiddi ekki til skeytingarleysis hjá okkur sjálfum um öryggismál. "Íslendingar eiga að íhuga þátttöku og sjálfstætt starf í ýmsum nýjum og brýnum öryggisverkefnum, ekki síst þeim sem beinast gegn hryðjuverkum hverskonar og skemmdarverkum á hugbúnaði, við almannavarnir og björgunarstörf," sagði hann.

Réttindi haldist í hendur við skyldur

Undir lok ræðu sinnar lagði Össur áherslu á helstu baráttumál Samfylkingarinnar og sagði m.a.: "Við berjumst fyrir sanngjörnu samfélagi jafnra tækifæra. Við viljum að einstaklingurinn blómstri í samfélagi sem sinnir um hann. Við viljum að réttindi haldist í hendur við skyldur. Við viljum að öflugt efnahagslíf og sanngjarnt samfélag fari saman. Við teljum að einstaklingsframtak og félagshyggja eigi samleið. Við viljum gagnsæja og lýðræðislega stjórnsýslu með dreifðu valdi. Við einsetjum okkur að breyta íslenskum stjórnmálum með nýjum hugmyndum á grunni samhjálpar og atorku."

Í lok ræðunnar risu fundarmenn úr sætum og hylltu hinn nýkjörna formann með langvinnu lófataki.

Höf.: Ómar Friðriksson