MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Hafrannsóknastofnun: "Þann 27. apríl birtist í Morgunblaðinu grein eftir Ingólf Sverrisson, deildarstjóra hjá Samtökum iðnaðarins, sem bar heitið "Þegar draumur breytist í martröð".

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Hafrannsóknastofnun:

"Þann 27. apríl birtist í Morgunblaðinu grein eftir Ingólf Sverrisson, deildarstjóra hjá Samtökum iðnaðarins, sem bar heitið "Þegar draumur breytist í martröð". Greinin fjallar um skipasmíðar á vegum íslenskra aðila erlendis á undanförnum misserum og var þar m.a. fjallað um smíði hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar. Hafrannsóknastofnunin getur ekki svarað fyrir umboðsmenn skipasmíðastöðva né þá útgerðarmenn sem þar voru gagnrýndir. Hér verður hins vegar reynt að svara í stuttu máli nokkrum fullyrðingum Ingólfs sem tengjast smíði Árna Friðrikssonar RE 200.

Ingólfur segir að fátt eitt hafi staðist varðandi smíði skipsins og nefnir þar: 1. að smíði skipsins sé langt á eftir áætlun, 2. að hávaði í vélbúnaði skipsins sé verulegt vandamál og 3. að skipið sé orðið mun dýrara en reiknað var með.

Tafir á afhendingu

Það er rétt að afhending Árna Friðrikssonar er "á eftir áætlun". Ástæður þess hafa hins vegar margsinnis verið skýrðar og tengjast bilunum/göllum sem upp komu í framdrifsbúnaði, skrúfuási og skrúfu skipsins. Þetta leiddi síðan til keðjuverkandi seinkana á öðrum þáttum í smíðinni og er ein meginástæða þess að afhending skipsins dróst. Jafnvel þótt Ingólfur gefi í skyn að komist hefði verið hjá þessum töfum hefði smíðin verið í höndum annarrar stöðvar er ómögulegt um það að fullyrða.

Hávaði

Það er alrangt að hávaði sé nú "verulegt vandamál" í hinu nýja hafrannsóknaskipi. Vandamál tengd hávaða voru vegna missmíði á skrúfu og skrúfuási eins og að ofan er getið, en þau voru síðan lagfærð að fullu af framleiðanda. Umræddar tafir á afhendingu skipsins stöfuðu þannig m.a. af því að byggingaraðili stóðst ekki kröfur í samningi um lágt hávaðastig.

Eftir lagfæringar fullnægir skipið nú ýtrustu hljóðkröfum með tilliti til hávaða í sjó og til bergmálsmælinga fiskistofna.

Heildarkostnaður

Það er ekki rétt sem fullyrt er í grein Ingólfs að skipið sé "orðið mun dýrara en reiknað var með" og að kostnaður sé nú orðinn meiri en ef skipið hefði verið smíðað samkvæmt tilboði Slippstöðvarinnar. Í því sambandi skal hér rakin kostnaðaráætlun smíðinnar og endanlegt uppgjör við skipasmíðastöðina ASMAR: Tilboð ASMAR hljóðaði upp á tæplega 1.200 millj. kr. Tilboð Slippstöðvarinnar var tæplega 1.600 millj. króna, eða um 400 millj. kr. hærra. Áætlað er að greiðslur til ASMAR verði nú tæpar 1.100 millj. kr.

Heildarkostnaður vegna smíði skipsins verður hins vegar um 1.600-1.700 millj. kr. en þá er innifalinn allur kostnaður við skipið, þ.e. hönnunarkostnaður, framdrifsbúnaður, ýmis rannsóknatæki, kostnaður við eftirlit o.fl., auk umrædds smíðasamnings við ASMAR. Ef skipið hefði verið byggt í Slippstöðinni má áætla að heildarkostnaður við skipið hefði orðið 2.000-2.100 millj. kr.

Í forsendum fyrir vali á samingsaðila frá 19. febrúar 1998 kemur fram að áætlaður heildarkostnaður við smíði skipsins verði um 1.400-1.600 millj. kr. Ástæður hækkunar heildarkostnaðar í 1.600-1.700 millj. kr. nú eiga sér aðallega eftirfarandi skýringar: Varahlutir í framdrifsbúnað reyndust um 25 millj. kr. dýrari en áætlað var, haustið 1998 var ákveðið að setja í skipið svokallaðan fjölgeisladýptarmæli sem kosta mun uppsettur um 60 millj. kr. og aukaverk vegna smíðinnar, sem ekki voru séð fyrir í samningi, nema um 25 millj. kr. Þá er ótalið að kostnaður vegna eftirlits, aðallega vegna lengingar smíðatíma, reyndist um 35 millj. kr. hærri en ráð var fyrir gert.

Það er því ljóst að eini viðbótarkostnaðurinn sem tengist sjálfri smíðinni eru aukaverk (um 25 millj. kr.) og aukinn eftirlitskostnaður tengdur töfum á smíði (um 35 millj. kr.). Samtals eru þetta um 60 millj. kr. eða um 4% af heildarkostnaði skipsins. Vegna tafa á afhendingu greiddi skipasmíðastöðin hins vegar um 140 millj. kr. í dagsektir og bætur.

Hvernig Ingólfur kemst að þeirri niðurstöðu að skipið sé "orðið mun dýrara en reiknað var með" í samningi við ASMAR-skipasmíðastöðina er þess vegna óskiljanlegt því frekar mætti með rökum sýna fram á kostnaðarlækkun.

Gott skip

Vonandi skýrir það sem hér hefur verið sagt þann misskilning sem víða kemur fram í grein Ingólfs varðandi smíði Árna Friðrikssonar RE 200. Víst er að Hafrannsóknastofnunin hefur í engu ætlað sér að hlunnfara íslenska smíðaaðila enda margt af þeim útbúnaði sem prýða mun skipið íslenskt hug- og handverk. Nægir þar að nefna frábæra íslenska hönnun skips, fullkomna vinnslulínu frá Marel og hátækni tölvu- og hugbúnaðarkerfi frá Afli ehf.

Þannig mun nú íslenska þjóðin eignast gott og vel útbúið rannsóknaskip sem vonandi mun reynast vel við hin margvíslegu verkefni sem okkar bíða á nýrri öld."