½ Leikstjóri: Charles McDougall. Handrit: Jimmy McGovern. Aðalhlutverk: Christopher Eccleston, Saskia Reeves. (85 mín.) Bretland 1999. Háskólabíó. Bönnuð innan 16 ára.

HANDRITSHÖFUNDUR þessarar myndar hefur undanfarin ár verið talinn einn sá allra besti á Bretlandi. Hann er maðurinn á bak við hina framúrskarandi góðu sakamálaþætti, "Cracker", og fyrsta kvikmyndin sem hann skrifaði, "Priest", var einkar sterk og áhrifarík. Aðalleikarinn í þessari mynd, Christopher Eccleston, hefur einnig verið áberandi undanfarin ár. Hann lék einmitt í fyrstu "Cracker"-þáttunum en vakti fyrir alvöru á sér athygli í myndinni "Shallow Grave". Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem ég horfði á "Hjarta". Því miður, já því miður vegna þess að mér hefur hingað til líkað það, sem fólkið að baki þessari mynd hefur gert, verður að segjast að hún olli talsverðum vonbrigðum. Hún fer vel af stað. Fléttan er áhugaverð og allt lofar góðu. En síðan er eins og botninn detti úr myndinni eða þá að McGovern hafi hreinlega ekki náð að fylgja góðri hugmynd nægilega vel eftir. Það sem meira er, þá er handrit hans sorglega klisjukennt, sem er aldeilis ólíkt honum. Maður veit ekki hvað veldur. Kannski er hann orðinn svo eftirsóttur að hann er farinn að fjöldaframleiða. Kannski er hægt að skella skuldinni á leikstjórann. Allavega vonar maður að betur gangi næst. Eccleston er hinsvegar geysitraustur sem fyrr.

Skarphéðinn Guðmundsson

Höf.: Skarphéðinn Guðmundsson