Helga Arnalds og Þórhallur Sigurðsson með Leif heppna Eiríksson á víkingasýningunni í Washington nýverið.
Helga Arnalds og Þórhallur Sigurðsson með Leif heppna Eiríksson á víkingasýningunni í Washington nýverið.
Helga Arnalds hefur samið brúðuleikrit um Leif heppna og ferðir hans. Verkið var frumsýnt í Washington í tilefni opnunar víkingasýningar Smithsonian- stofnunarinnar.

LEIFUR heppni heitir brúðuleikritið og er sett upp af brúðuleikhúsinu Tíu fingur í samvinnu við Reykjavík, menningarborg Evrópu árið 2000 og Landafundanefnd. Höfundur leikmyndar er Petr Matásek.

"Þegar velja þurfti íslenskt atriði til að sýna í tengslum við víkingasýninguna uppgötvaðist að í raun var ekkert beinlínis ætlað fyrir börn á henni. Börn eru stór hluti þeirra gesta sem sækja sýningar sem þessa og því kom sú hugmynd upp að við settum upp skemmtilega og fræðandi sýningu um Leif heppna Eiríksson," segir Helga þegar spurt var út í tildrög þess að brúðuleikhús hennar er komið til höfuðborgar Bandaríkjanna.

"Þessi sýning ætti sérstaklega að höfða til barna, en raunar einnig til fólks á öllum aldri," bætir Helga við.

Brúðuleikhús hennar hefur einnig sett upp söguna um Ketil flatnef, prinessuna með gulltárin og fleiri verk frá stofnun árið 1994.

Þórhallur Sigurðsson, leikstjóri leikritsins um Leif heppna, segir að það sé skemmtilegt verkefni en um leið ögrandi að setja upp slíkt verk fyrir enskumælandi áhorfendur.

"Við fengum ábendingar um ákveðin atriði sem þurfti að hafa í huga," segir hann. "Þannig má ekki nefna ákveðna líkamsparta á nafn, sem ekki þættu mikið tiltökumál í Evrópu."

Byggt á Íslendingasögunum

Leikverk Helgu er byggt á Íslendingasögunum og er blaðurskjóðan Ísafold látin leiða áhorfendur gegnum söguna meðan hún tekur þvottinn niður af snúrunum og hlýðir á eftirlætis útvarpsþátt sinn um víkingana.

Smám saman verður Ísafold hluti af sögunni og lendir í margskonar óvæntum og skemmtilegum uppákomum.

Alls var brúðuleikritið um Leif heppna sýnt þrisvar sinnum í Blair-fyrirlestrarsalnum í Náttúrusögusafni Smithsonian-stofnunarinnar, og sáu nokkur hundruð manns sýninguna í hvert sinn.

Helga segir að spennandi verkefni séu framundan. "Áhorfendur tóku verkinu mjög vel og hlógu mikið og virtust skemmta sér hið besta. Það kom mér skemmtilega á óvart að bandarísk börn hlógu ekki aðeins á þeim stöðum sem ég hafði vænst, heldur oftar," sagði hún.

Meðal gesta á sýningunum var fjöldi Íslendinga sem búsettir eru í Bandaríkjunum og komu margir þeirra að máli við þau Helgu og Þórhall að sýningunni lokinni og þökkuðu fyrir.

Fer Leifur í Disneyworld?

"Ég er ekki í vafa um að sýningin á eftir að fara víðar í Bandaríkjunum. Meðal annars hefur komið til tals að hún fylgi víkingasýningunni eftir," segir Helga aðspurð um næstu verkefni. Víkingasýningin mun ferðast víða í Bandaríkjunum og Kanada á næstu tveimur til þremur árum, sækja heim borgir á borð við New York, Los Angeles, Houston og Ottawa.

Þá kemur komið til tals að Helga kynni verkið um Leif heppna fyrir áhorfendum í þeim þekkta skemmtigarði Disneyworld í Orlando í Flórída.

Ef til kemur yrði Leifur settur upp í haust hjá Mikka mús og félögum í undraveröld Disneys. "Óneitanlega yrði það mjög spennandi. Málin eru enn aðeins á umræðustigi, en maður bíður bara og vonar," sagði Helga Arnalds.