BORGARFULLTRÚAR Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu á fundi borgarstjórnar í fyrrakvöld forgangsröðun meirihlutans á verkefnum borgarinnar; gæluverkefnum hefði verið sinnt á kostnað lögbundinna verkefna á borð við viðhald gatnakerfis borgarinnar.

BORGARFULLTRÚAR Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu á fundi borgarstjórnar í fyrrakvöld forgangsröðun meirihlutans á verkefnum borgarinnar; gæluverkefnum hefði verið sinnt á kostnað lögbundinna verkefna á borð við viðhald gatnakerfis borgarinnar. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, óskaði eftir því á fundinum að séð verði til þess að viðhald gatnakerfis borgarinnar verði tekið föstum tökum.

Kjartan sagði fulla ástæðu til þess að leggja viðbótarfjármagn í viðhald gatnakerfisins, á móti mætti skera niður fjárframlög til verkefna sem ekki eru lögbundin. Þessu samsinnti Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Hann gagnrýndi að jafnmikilvæg framkvæmd og nauðsynleg og viðhald gatna í borginni hefði setið á hakanum.

Vill kanna hvað veldur ástandinu nú

Borgarstjóri tók undir það með sjálfstæðismönnum að viðhald gatna borgarinnar væri mikilvæg framkvæmd og nauðsynleg en hafnaði því að R-listinn hefði ekki sinnt því sem skyldi, viðhald gatnakerfisins hefði ekki farið versnandi á umliðnum árum. Hún benti hins vegar á að hún teldi ástæðu til þess að kanna hvað ylli því að ástand þess væri jafn slæmt nú og raun ber vitni, hvort eitthvað væri í malbikinu eða efnanotkun sem færi svo illa með göturnar.