Forstöðumenn ráðuneyta og ríkisstofnana kynntu sér möguleika fjarvinnslu á fundinum  á Hótel Sögu.
Forstöðumenn ráðuneyta og ríkisstofnana kynntu sér möguleika fjarvinnslu á fundinum á Hótel Sögu.
MÖGULEIKAR á flutningi stofnana og fyrirtækja út á landsbyggðina eru víða fyrir hendi út frá tæknilegu sjónarmiði, en tregða stjórnenda er helsti þröskuldurinn í slíkri þróun. Þetta kom ma.

MÖGULEIKAR á flutningi stofnana og fyrirtækja út á landsbyggðina eru víða fyrir hendi út frá tæknilegu sjónarmiði, en tregða stjórnenda er helsti þröskuldurinn í slíkri þróun. Þetta kom ma. fram á fundi sem iðnaðarráðherra boðaði til að kynna forstöðumönnum ráðuneyta og ríkisstofnana nýjustu tækni á sviði gagnaflutninga og fjarvinnslu. Í lok fundarins opnaði Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, nýjan vef sem ber heitið Markaðstorg og er ætlað að styðja við þróun fjar- og gagnavinnslu á landsbyggðinni.

Jóhannes Pálsson frá Hönnun og ráðgjöf á Reyðarfirði flutti erindi um tækifæri á flutningum verkefna, stofnana eða fyrirtækja út á landsbyggðina og taldi því fátt til fyrirstöðu. Tæknilega væru slíkir möguleikar fyrir hendi í gagnaflutningum og fjarvinnslu á landsbyggðinni að engu máli skipti hvar stofnanir væru staðsettar. Hins vegar væri tregða stjórnenda erfiðasti þröskuldurinn sem þyrfti að yfirstíga.

"Ein meginforsendan sem þarf að liggja fyrir er kjarkur stjórnenda. Þetta er ekki einfalt því þeir sem sitja í einhverri stöðu vilja auðvitað ekki missa hana eða flytja til."

Á fundinum kynntu nokkur fyrirtæki reynslu sína af flutningi verkefna til landsbyggðarinnar í gegnum fjarvinnslu og var niðurstaðan sú að yfirleitt hefði það gengið vel og að verkefnin hefðu jafnvel staðið sterkari á eftir. Skráningarstofan hefur samið við Íslenska miðlun um flutning ýmissa verkefna og við nánari skoðun hefur komið í ljós að fleiri verkefni er mögulegt að vinna á landsbyggðinni sem nú eru unnin á vegun Skráningarstofunnar í Reykjavík.

Forsvar er fyrirtæki sem stofnað var í desember sl. á Hvammstanga og hefur tekið að sér það verkefni að vinna gagnagrunn fyrir Alþingi, en það felst í því að tölvuskrá málaskrá Alþingis til að auðvelda aðgang að málum Alþingis. Sparisjóður Siglufjarðar hefur unnið að skráningu fyrir lífeyrissjóði í samvinnu við Kaupþing, og hefur það samstarf lofað góðu.

Nýr vefur opnaður um fjarvinnslu á landsbyggðinni

Þeir sem kynntu þessi verkefni voru sammála því að helstu kostirnir við flutninga á verkefnum til landsbyggðarinnar fælust í starfskröftunum og ódýrara húsnæði en í boði væri á höfuðborgarsvæðinu. Vinnuaflið væri að öllu jöfnu stöðugra á landsbyggðinni og starfsumhverfið styrkti því verkefnin sem þar væru unnin.

Helsti þröskuldurinn sem menn stæðu fyrir væri þó tregða stjórnenda fyrirtækja og stofnana við að flytja verkefni til fyrirtækja á landsbyggðinni. Einnig er hár kostnaður við gagnaflutninga hjá landsbyggðarfyrirtækjum talinn ósanngjarn miðað við sambærilegan kostnað hjá fyrirtækjum á höfuðborgasvæðinu.

Í lok fundarins opnaði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra nýjan vef, fjarvinnsla.is, undir heitinu Markaðstorg fjar- og gagnavinnslu. Markaðstorgið er hugsað til þess að auðvelda fyrirtækjum á landsbyggðinni markaðssetningu og fyrir væntanlega verkkaupa til að kynna sér þá þjónustu sem er í boði. Jafnframt er hugmyndin að vefsíðurnar nýtist sem upplýsingaveita um hvað er að gerast í fjar- og gagnavinnslu á landsbyggðinni. Það er fyrirtækið Snerpa ehf. á Ísafirði sem sá um uppbyggingu vefsins.

Valgerður sagðist líta á Markaðstorgið sem tengilið á milli fyrirtækja og opinberra stofnana og að vonir sínar væru bundnar við það, að torgið muni leiða af sér fleiri opinber störf á landsbyggðinni.