[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÁGÚST Einarsson, fyrrverandi alþingismaður, ræðir um Samfylkinguna nú sem flestir aðrir félagar hennar, enda stofnfundur nýja jafnaðarmannaflokksins á næsta leiti.

ÁGÚST Einarsson segir: "Það eru mikil tíðindi þegar stjórnmálaflokkur er stofnaður. Með flokki Samfylkingarinnar er brotið blað í flokkasögu hérlendis. Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag eru hryggjarstykkið í hinum nýja flokki."

Einkenni flokkakerfisins

OG ÁFRAM segir: "Flokkakerfið hefur lengi einkennst af einum stórum og þremur litlum flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn er sá stóri núna en á fyrri hluta 20. aldar var Framsókn í þeirri stöðu.

Ýmsir segja að flokkakerfið hafi ekkert breyst, það lúti enn lögmálinu um einn stóran og þrjá litla, Vinstri-grænir hafi tekið við af Alþýðubandalagi og Samfylkingin sé ekkert annað en útvatnaður Alþýðuflokkur. Þetta er ekki rétt. Alþýðubandalagið breyttist í hefðbundinn, evrópskan jafnaðarmannaflokk í formannstíð Ólafs Ragnars. Vinstri-grænir eiga ekki samleið í flokki með jafnaðarmönnum, ekki frekar en sambærilegir flokkar á Norðurlöndum. Jafnaðarmannaflokkar nágrannalandanna eru stórir, vinstrisinnaðir miðjuflokkar og Samfylkingin stefnir í þá átt.

Flokksstofnun Samfylkingarinnar dróst úr hófi og brýningar höfðu þau áhrif að fólki innan Samfylkingarinnar er ljóst að nú er að duga eða drepast. Ef brjótast á út úr flokkagildru fortíðar verða menn að hugsa stórt. Össur Skarphéðinsson, sem verður örugglega formaður, gerir kröfur fyrir hönd Samfylkingarinnar að hún leiði næstu ríkisstjórn og að nútímaleg sjónarmið jafnaðarmanna fái trygga fótfestu. Þetta eru rétt viðhorf.

Sjálfstæðisflokkurinn flýtur á góðærinu en um leið og harðnar á dalnum efnahagslega og flokkurinn hættir að "skaffa" fer fylgið fljótt af þessum flokki sérhagsmuna og stórfyrirtækja. Framsókn er í alvarlegri kreppu, Halldór máttlítill og aðrir ráðherrar flokksins misheppnaðir. Það eru að myndast skýrar víglínur í mörgum málum, m.a. í afstöðu til ESB, í einkavinavæðingu, til gjafakvótakerfisins og hvernig bregðast eigi við hinu nýja þekkingarsamfélagi."

Tækifæri

LOKS segir: "Samfylkingin á núna tækifæri en það þarf að vanda sig. Bjartsýni vegna þess að nú sé orðinn til flokkur er vísasta leiðin til að festast í 20-25% fylgi sem þýðir engin raunveruleg áhrif. Flokksstofnunin er mikill áfangi hjá Samfylkingunni en það er mikil vinna eftir til þess að ná raunverulegum áhrifum."