KOMIÐ ER sumar og brátt verður veturinn fjarlæg minning, þegar menn með skóflur þurftu að moka snjó frá dyrum mínum við Fossagötu svo ég kæmist leiðar minnar.

KOMIÐ ER sumar og brátt verður veturinn fjarlæg minning, þegar menn með skóflur þurftu að moka snjó frá dyrum mínum við Fossagötu svo ég kæmist leiðar minnar. Farfuglarnir koma í hópum og kveða sín ljóð - og mannfólkið í borginni er að því leyti eins og fuglarnir, að geta krunkað sig saman á hvern tónlistarviðburðinn á fætur öðrum. Slíkt og þvílíkt er framboðið orðið í Reykjavík að fari maður til hægri missir maður af einhverju til vinstri. Þessu hefði ég ekki þorað að spá, þegar ég fluttist til landsins fyrir fjórum áratugum, þótt jafnvel þá væri ýmislegt fleira gert á tónlistarsviðinu en dansaður konga og sungið í fimmundum.

Tónlistarlíf stendur með miklum blóma og framfarirnar eru sannarlega miklar. Ég er ekki bara að tala um sígilda tónlist. Þótt gamall sé eins og á grönum má sjá er mér vel kunnugt um þá miklu þróun sem orðið hefur í poppinu og rokkinu líka og sé að Íslendingar skipa sér í fremstu röð.

Maður, sem helgað hefur meirihluta ævi sinnar tónlistarkennslu, gleðst yfir að hafa átt dálítinn þátt í þessu ævintýri, það er líkast því að sjá þéttvaxinn skóg hefja sig hátt; skóg sem maður tók þátt í að gróðursetja endur fyrir löngu.

Og enn spretta upp tré. Mér eru ofarlega í huga tvennir vortónleikar tónlistarskóla, sem ég sótti og leyfi mér að minnast á í stuttu máli. Nemendur Nýja tónlistarskólans, þar sem ég starfaði við söngkennslu áður, réðust í uppfærslu á óperunni Dídó og Eneas eftir Henry Purcell. Það var falleg sýning og fagmannleg, skemmtilegir búningar og góð leikstjórn. Skólahljómsveitin skilaði sínu prýðisvel undir stjórn Ólivers Kentish. Bjarkey Sigurðardóttir söng hlutverk Dídóar vel og Lindita Óttarsson vakti athygli mína í hlutverki Belindu, efnilegar söngkonur báðar tvær. Ég flyt Sigrúnu Björnsdóttur skólastjóra og kennurum skólans mínar bestu þakkir fyrir skemmtunina með óskum um framhald á velgengninni.

Óperuiðja Tónlistarskólans í Kópavogi flutti gamanóperurnar Batnandi byttu er best að lifa og Dómarinn táldregni eftir Gluck í Salnum. Leikmynd var skemmtileg og haganlega útbúin, úr píanóinu tókst að laða heila hljómsveit og leikurinn var fjörlegur og snurðulaus. Flutningur allur var vel æfður og mátti heyra góðar raddir, en ég held að ekki sé á neinn hallað þótt ég nefni Oddnýju Sigurðardóttur messósópran sérstaklega. Hún á eftir að gera garðinn frægan ákveði hún að leggja út á söngvarabrautina. Það vona ég svo sannarlega að hún geri, því að ég sat alveg dáleiddur undir söng hennar. Hulda Jónsdóttir sópran er líka bráðgott efni. Anna Júlíana Sveinsdóttir má vera stoltur kennari af þessari frammistöðu að dæma.

Allir, sem hönd lögðu á plóginn, kennarar, nemendur og fyrirtæki og stofnanir sem styrktu verkefnin með fjárframlögum, eiga heiður skilinn.

Iðkun íþrótta er holl og góð og sjálfsagt er að styrkja íþróttastarfsemi af megni. En tónlistin á slíka styrki jafnvel skilið og ætti að fá stærri sneið af kökunni en raun ber vitni. Það er ekki nóg að reisa tónlistarhús, það verður að hlúa að tónlistarflutningnum líka. Ég vona bara að ég lifi að komast á fyrstu tónleikana í nýju tónlistarhúsi. Hvað sem því líður mun ég ekki láta mitt eftir liggja í lófatakinu, hvort sem ég fæ sæti Uppi - eða Niðri!

SIGURÐUR

DEMETZ FRANZSON,

söngkennari.

Frá Sigurði Demetz Franzsyni:

Höf.: Sigurði Demetz Franzsyni