SAMKÓR Vestmannaeyja vísiterar Reykjavík og heldur tónleika í Digraneskirkju í Kópavogi í dag, laugardag, kl. 17. Samkór Vestmannaeyja var endurvakinn fyrir tæpum sex árum þegar Bára Grímsdóttir, stjórnandi kórsins, flutti til Vestmannaeyja. Á efnisskránni eru Eyjalög eftir Oddgeir Kristjánsson, Arnþór Helgason o.fl., íslensk þjóðlög og dægurlög, erlend lög m.a. eftir Bítlana, lagasyrpa eftir Paul Simon og djasslög. Einnig flytur kórinn lag eftir stjórnandann, Báru Grímsdóttur, sem og nokkur lög sem eru í útsetningu hennar. Undirleikari á tónleikunum er Helga Laufey Finnbogadóttir. Einsöngvari er Eyvindur Steinarsson. Kynnir Ólafur Týr Guðjónsson.
Í Samkór Vestmannaeyja eru um 30 manns. Kórinn heldur svo sína árlegu vortónleika í Eyjum 17. maí nk.