HNIGNUN á landsbyggðinni lýsir sér í afturhvarfi til fortíðar á ýmsum sviðum. Hruni í samgöngumálum sem felst í því að einokun er komin aftur í innanlandsfluginu. Lokun deilda á sjúkrastofnunum.

HNIGNUN á landsbyggðinni lýsir sér í afturhvarfi til fortíðar á ýmsum sviðum. Hruni í samgöngumálum sem felst í því að einokun er komin aftur í innanlandsfluginu. Lokun deilda á sjúkrastofnunum. Ég nefni hér eitt dæmi, lokun á fæðingardeild Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað þar sem er fullkomin skurðstofa. Sængurkonur skulu fara á Heilsugæslustöð Egilsstaða. Sparnaður af þessu tagi er afturhvarf til fortíðar. Fiskvinnslan, sem hefur haldið uppi þjóðarbúinu, er orðin þannig að vinna er 2-3 daga í viku, svo er fólkið sent heim á dagvinnukaupi. Þegar samið er um kaup og kjör á bónusinn að bjarga öllu. Fiskvinnslufólkið hefur bara bónus þá daga sem er unnið, þetta fólk er orðið lágtekjuhópar og landsbyggðin láglaunasvæði. Allt þetta framantalda er sjálfsagt einn af mörgum þáttum í fólksflóttanum af landsbyggðinni. Ef þetta heldur áfram að þróast á þennan veg verður ekki langt að bíða að allir af landsbyggðinni verði komnir á suðvesturhornið. Nú hefur málgagn þess flokks sem kenndi sig við að vera landsbyggðaflokkur, "Austri" hætt að koma út. Á Austurlandi er gefið út eitt landsmálablað, "Austurland" sem er gefið út af flokki sem ekki er til. Hvenær kemur svo að því að þetta blað gefst upp á því að koma út. Þetta allt er mikil hnignun á Austurlandi. Svona kann þetta að vera víða á landsbyggðinni.

Gunnar G. Bjartmarsson.

Mjög stórrar leðurtösku - skólaverkefnis - er saknað

MJÖG stór rauðbrún leðurtaska dregin saman með snúru, hvarf úr kennslustofu í Skipholti 37, 1. hæð. Taskan er fóðruð að innan með dökkbrúnu rúskinni og innan í töskunni eru þrír vasar. Í töskunni var svart leðurbelti með skeifulagaðri sylgju, ljósbrún smátaska, fóðruð með rauðu leðurfóðri og dökkbrún lyklakippa, skreytt með hlýraroði. Taskan og allt sem í henni var er skólaverkefni sem meta átti til prófs. Þetta er mikið tilfinningalegt tjón fyrir eigandann. Hún hefur lagt gífurlega mikla vinnu í þetta verkefni. Þetta er allt sérsaumað. Ef einhver veit hvar þessir hlutir eru niðurkomnir er sá hinn sami vinsamlegast beðinn að hafa samband við Áslaugu í síma 563-3881 eða 566-7514.

Grá úlpa með hettu tapaðist

GRÁ úlpa með hettu tapaðist á Café Victor síðastliðið páskadagskvöld. Eigandinn væri afar þakklátur ef hún fyndist. Upplýsingar í síma 587-1964 eða 699-7100.

Gleraugu gleymdust í Stellu

GLERAUGU gleymdust í versluninni Stellu í Bankastræti föstudaginn 28. apríl sl. Upplýsingar í síma 551-3635.

Hjólabretti tapaðist

HJÓLABRETTI, rautt og appelsínugult, tapaðist við Kríuhóla 4 föstudaginn langa. Brettið var sumargjöf. Upplýsingar í síma 567-9950 eða 699-7950.

Lítill hundur í óskilum

Á SUÐURGÖTUNNI í Skerjafirði fannst lítill, ljósbrúnn, hreinræktaður hundur miðvikudaginn 3. maí sl. Hann er síðhærður og svolítið flatur í framan. Hann er með svart nælonhálsband en ómerktur. Upplýsingar gefur Birna í síma 561-3419.

Læða fæst gefins

SEX vikna kettlingur, læða, fæst gefins á gott heimili. Kassi og fleira fylgir. Upplýsingar í síma 561-4939.