ÞESSA dagana minnast Bandaríkjamenn þess að 25 ár eru liðin frá því að Víetnamstríðinu lauk. Stríðið hefur markað djúp sár í þjóðarsál Bandaríkjanna og haft margvísleg áhrif á þá ekki síður en landið sem var vettvangur þessa hroðalega stríðs.

ÞESSA dagana minnast Bandaríkjamenn þess að 25 ár eru liðin frá því að Víetnamstríðinu lauk. Stríðið hefur markað djúp sár í þjóðarsál Bandaríkjanna og haft margvísleg áhrif á þá ekki síður en landið sem var vettvangur þessa hroðalega stríðs. Í því féllu yfir tvær milljónir Víetnama.

Það er áhrifamikið að skoða minnismerkið um Víetnamstríðið í miðborg Washington, en þar er að finna nöfn yfir 58 þúsund Bandaríkjamanna sem féllu í stríðinu. Á hverjum degi kemur fjöldi manna að minnismerkinu til að skoða það og votta hinum látnu virðingu sína. Margir ferðamenn koma af forvitni til að skoða þennan fræga stað og sjá með eigin augum nöfn hermannanna sem eru skráð á vegginn. Fyrir útlendinga er þetta kannski eins og að lesa símaskrána; vissulega áhrifamikið, en nöfnin hafa enga þýðingu fyrir þá persónulega. Fyrir aðra er þetta hins vegar heilagur staður. Þarna mátti sjá fólk með tárin í augunum snerta nöfn ættingja sem skráð eru á vegginn. Margir leggja blóm við hann eða skilja eftir blað sem hefur að geyma saknaðarorð til föður, afa eða frænda. Þegar Víkverji skoðaði minnismerkið tók hann sérstaklega eftir korti frá barni sem sendi kveðju til afa síns sem það hefur væntalega aldrei séð. "Í dag eru 65 ár liðin frá því þú fæddist og nú eru bráðum 30 ár síðan þú lést. Ég hugsa oft til þín. Guð blessi þig."

MIKIL umræða hefur átt sér stað í Bandaríkjunum um Víetnamstríðið, lok þess og þann lærdóm sem draga má af því. Víkverji fylgdist nýverið með umræðum í sjónvarpi, en meðal þátttakenda voru Gerald Ford, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og nokkrir blaðamenn sem voru í Víetnam á stríðstímanum og fjölluðu um það. Það kom í hlut Fords að taka hina óhjákvæmilegu ákvörðun um að draga Bandaríkin út úr stríðinu, en það gerðist í lok apríl 1975.

Í umræðunum var talsvert rætt um það hvernig fréttamenn fjölluðu um stríðið á sínum tíma, en myndir og frásagnir fjölmiðla af því sem var að gerast í Víetnam áttu mikinn þátt í því að stór hluti almennings í Bandaríkjunum varð mjög andsnúinn þátttöku Bandaríkjamanna í stríðinu. Einn af blaðamönnunum sagði í umræðunum að stjórnmálamenn ættu að draga þann lærdóm af Víetnamstríðinu að segja almenningi alltaf satt. Johnson forseti hefði aldrei sagt þjóð sinni hver staða Bandaríkjamanna væri í stíðinu. Hann hefði reynt að telja henni trú um að Bandaríkin gætu sigrað og komið sér hjá því að skýra þjóðinni frá þeim ósigrum sem bandaríski herinn mátti þola í Víetnam. Blaðamaðurinn sagði að þegar staða Breta í seinni heimsstyrjöldinni var sem verst og sá möguleiki blasti við að Bretar gætu hugsanlega tapað fyrir Þjóðverjum hefði Churchill verið gerður að forsætisráðherra. Fyrsta verk hans hefði verið að skýra þjóð sinni frá því hve staðan væri alvarleg. Bretum hefði vissulega fundist þetta slæmar fréttir, en þeim hefði þótt gott að vita sannleikann. Roosevelt, forseti Bandaríkjanna, hefði einnig ákveðið að segja þjóð sinni sannleikann um auðmýkjandi ósigur Bandaríkahers á Pearl Harbor. Hann hefði sagt að framundan væru erfiðir tímar og langt stríð en Bandaríkjamenn myndu sigra á endanum. Það gekk eftir.