Gestir kunnu vel að meta tónlist Bubba.
Gestir kunnu vel að meta tónlist Bubba.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hellu - Það var vel við hæfi að fá rokkkónginn Bubba til að troða upp í veitingahúsinu með konunglega nafnið, Kristjáni X. á Hellu, þar sem hann hélt velheppnaða tónleika fyrir stuttu. Veitingahúsið Kristján X. opnaði seint á sl.
Hellu - Það var vel við hæfi að fá rokkkónginn Bubba til að troða upp í veitingahúsinu með konunglega nafnið, Kristjáni X. á Hellu, þar sem hann hélt velheppnaða tónleika fyrir stuttu. Veitingahúsið Kristján X. opnaði seint á sl. ári en húsið stóð á Þingvöllum á alþingishátíðinni 1930 og var þar matsalur fyrir hirð Kristjáns X. Danakonungs, sem sótti Ísland heim það ár. Árið 1935 var húsið flutt að Ljósafossi þar sem starfsmenn við virkjanaframkvæmdir mötuðust í því, en 1938 var það flutt á Hellu og var lengst af notað sem pakkhús hjá Kaupfélaginu Þór. Húsið var endurbyggt á sl. ári, en í því er eitt og annað sem minnir á upphaflegt hlutverk þess, s.s. myndir og forláta flugustöng, sem konungur mun hafa notað við veiðar í Elliðaánum í áðurnefndri heimsókn. Bubbi Morthens náði strax upp góðri stemmningu og var húsfyllir í þessu sögufræga húsi og gestir vel með á nótunum. Bubbi flutti á einum og hálfum tíma allt frá Ísbjarnarblús til nýrri laga, sem fréttaritari kann ekki nöfnin á, við góðar undirtektir. Milli laga kryddaði hann flutninginn með óborganlegum frásögnum, aðallega af sjálfum sér á yngri árum, þar sem ekkert var dregið undan í lýsingum á líferni og dagdraumum hins unga drengs við færibandið í Ísbirninum og víðar.

Að loknum tónleikunum tjáði Bubbi fréttaritara blaðsins að hann væri að vinna að upptökum á svokölluðum pistlum Carls Michaels Bellmans, sem segja má að sé Jónas Hallgrímsson Svía, elskað og dáð ljóðskáld. "Það kemur út diskur frá mér í sumar með 10-12 pistlum, en hugmyndin að þessu vaknaði þegar ég var að æfa dagskrá fyrir Listahátíð í sumar þar sem ég ætla að syngja þessi ljóð Bellmans. Það má vel vera að næsta mál á dagskrá hjá mér verði að fara um landið með Bellman."

Bubbi er alltaf bestur einn með gítarinn sinn.