ÍRSKI orkumálaráðherrann Joe Jacob og Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra vonast til þess að Írland og Norðurlöndin geti mótað sér sameiginlega afstöðu í málefnum er varða starfsemi kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield í Bretlandi fyrir fund OSPAR-ríkjanna í Kaupmannahöfn í júní. Telja þau að þannig séu mun betri líkur á því að þrýsta megi á Breta um að hætta alfarið vinnslu geislavirks kjarnorkuúrgangs í Sellafield.
Ráðherrarnir tveir funduðu í Reykjavík í gær. Ræddu þau um málefni Sellafield og væntanlegan fund OSPAR-ríkjanna, þ.e. ríkjanna sem aðild eiga að OSPAR-samningnum, samningi um vernd hafrýmis á Norðaustur-Atlantshafi. Var fundurinn afar gagnlegur, að sögn Sivjar, og undir það tekur Jacob. Þau hyggjast halda áfram samvinnu sinni í þeirri von að óskir beggja, um að telja megi Breta á að draga úr losun geislavirks úrgangs í hafið, verði að veruleika.
"Ástæða þess að ég óskaði eftir fundi með íslenska umhverfisráðherranum var fyrst og fremst sú að ég vildi útskýra í hverju áhyggjur írskra stjórnvalda og almennings á Írlandi felast hvað varðar kjarnorkumálin í heild sinni," sagði Jacob á blaðamannafundi sem haldinn var í ráðherrabústaðnum í gær. Bætti hann við að einkum og sér í lagi hefði hann viljað útskýra þá hættu sem kjarnorkuiðnaðurinn í Bretlandi skapaði á Írlandi.
Jacob sagði ljóst að Írar og Íslendingar deildu áhyggjum varðandi losun geislavirks úrgangs í hafið. Því væri mikilvægt að löndin ynnu saman með það í huga að draga úr þeirri hættu sem að öryggi og heilsu íbúa í löndunum tveimur steðjar vegna áhrifa geislavirks úrgangs á umhverfi sjávar og lífskilyrði fólks.
"Við [Írar] krefjumst þess á fundinum í júní að endurvinnslu kjarnorkuúrgangs verði hætt og rök okkar eru þau að endurvinnslan jafngildi mengun sjávar," segir Jacob en auk Íra hafa Danir lagt fram ályktun í þessa veru fyrir fundinn. "Við höfum einfaldlega glatað allri trú og öllu trausti sem við höfðum gagnvart þessari starfsemi í Sellafield."
Geislun margfalt meiri í hafinu umhverfis Írland en Ísland
Írar hafa eins og Norðurlöndin harðlega mótmælt starfseminni í Sellafield, ekki síst eftir að í ljós kom fyrr í vetur að öryggismálum í stöðinni var verulega áfátt og að gögn um stöðu mála þar höfðu verið fölsuð.Jacob segir Íra hafa næg gögn í höndunum til að sanna hættuleg áhrif losunar geislavirks úrgangs í hafið og að mengunin geti stefnt fiskistofnum og sjávarfangi í hættu.
Áhyggjur almennings á Írlandi séu því fyllilega réttmætar, ekki síst á þéttbýlli stöðum á austurströnd landsins, sem er aðeins í nokkurra kílómetra fjarlægð frá kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield.
Við mælingar hér á Íslandi hefur hins vegar ekki orðið vart við eiturmagn í sjávarafurðum, að sögn Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra. Ekkert bendi heldur til þess að við séum að nálgast hættumörkin í því efni.
"Írar eru í þeirri sérstöku stöðu að vera í næsta nágrenni við Sellafield-endurvinnslustöðina," sagði Siv. "Ef hægt er að tala um einingar í geislamengun þá mælist einingin 1000 í Írlandshafi en 50 við strendur Noregs og 1 við Íslandsstrendur."
Hún benti á hinn bóginn á að markaður með sjávarafurðir væri afar viðkvæmur og því væri Íslendingum mikið í mun að taka höndum saman við Íra og aðrar Norðurlandaþjóðir og telja Breta áað hætta losun geislavirkra eiturefna í hafið.