ÆSKILEGT væri að leggja niður endurgreiðslu þungaskatts til sérleyfishafa áætlunarbifreiða, en hið opinbera keypti þess í stað tiltekna, skilgreinda þjónustu áætlunarbifreiða, af fyrirtækjum og einstaklingum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu um almenningssamgöngur með áætlunarbílum á landsbyggðinni, sem Karl Benediktsson og Óskar Eggert Óskarsson, landfræðingar hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, kynntu á ráðstefnu samgönguráðuneytisins, Vegagerðarinnar og Flugmálastjórnar sem haldin var í Borgarnesi.
Haldin voru þar fjölmörg erindi um samgöngur í lofti, með almenningsvögnum og áætlunarbílum í þéttbýli og dreifbýli og komið var inn á hlut einkabílsins og skipulagsmál.
Í skýrslunni, sem þeir Karl og Óskar unnu fyrir samgönguráðuneytið og Vegagerðina, er gerð grein fyrir hlutverki almenningssamgangna með áætlunarbílum á landsbyggðinni, settar fram hugmyndir um framtíðarskipan og hlutverk ríkis og sveitarfélaga í því sambandi og einnig bent á aðferðir til að skipuleggja þjónustuna svo hún nýtist sem flestum.
Fámennari hópar nýta þjónustuna
Óskar segir að með breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu, almennri bílaeign og auknum kröfum um þjónustu séu aðstæður fyrir almenningssamgöngur alltaf að verða erfiðari. "Hóparnir sem nýta sér almenningssamgöngur eru orðnir miklu fámennari. En samt eru nokkrir hópar, eins og eldra fólk, unglingar og ferðamenn, sem nýta sér þær í nokkrum mæli," segir Óskar.Hann segir strjálbýli landsins einnig gera rekstur almenningssamgangna mjög erfiðan. "Það er mjög erfitt að halda uppi almenningssamgöngum og útilokað að þær beri sig í dreifðum byggðum.
Það er því pólitísk ákvörðun hvort halda eigi þessari þjónustu uppi. Við tökum ekki afstöðu til þess í skýrslunni, en bendum á að ef það á að halda henni uppi með viðunandi hætti, verður að borga fyrir hana," segir Óskar.
Í skýrslunni segir að til að ná markmiðum nýlegrar ályktunar Alþingis um stefnu í byggðamálum og varða almenningssamgöngur á landsbyggðinni, sé nauðsynlegt að auka fjárveitingar til málaflokksins. Lagt er til að endurgreiðsla þungaskatts yrði lögð niður og í stað þess komið á nýju fyrirkomulagi þar sem hlutverk ríkis og sveitarfélaga yrðu skilgreind upp á nýtt.
Landinu yrði skipt í svæði sem tækju mið af búsetu, vinnusókn, verslunarmynstri og sókn í þjónustu og á hverju svæði myndu sveitarfélögin mynda með sér byggðasamlag um almenningssamgöngur.
Leiðirnar milli Reykjavíkur og Akureyrar og Reykjavíkur og Egilsstaða yrðu skilgreindar sem stofnleiðir. Ef vetrarsamgöngur yrðu tryggðar á Möðrudalsöræfum yrði leiðin milli Akureyrar og Egilsstaða einnig skilgreind sem stofnleið. Aðrar leiðir yrðu skilgreindar sem héraðsleiðir.
Lagt er til að hlutverk ríkisins yrði að skilgreina æskilega ferðatíðni áætlunarbíla á stofnleiðum og gera samninga við fyrirtæki um kaup á þeirri þjónustu. Einnig að skilgreina lágmarksþjónustu á héraðsleiðum, sem fæli í sér tengingu byggðarlaga innan héraðsins ásamt tengingu við stofnleiðir og að veita nægilegt fjármagn til að íbúar þéttbýlis og innra dreifbýlis eigi kost á lágmarksþjónustu. Einnig hefði ríkið eftirlit með því að sveitarfélög sinntu hlutverkum sínum og að ökutæki fullnægðu öryggiskröfum.
Lagt er til að hlutverk byggðarsamlaganna yrði að skipuleggja þjónustu áætlunarbíla á svæðinu og tengingu út fyrir það. Einnig að gæta þess að þeir lágmarksstaðlar sem ríkið setur og fjármagnar séu uppfylltir, en sveitarfélögin gætu svo aukið við þjónustuna eftir því sem þau teldu æskilegt og þá á eigin kostnað.Óskar segir marga kosti samfara því að sveitarfélögin tækju í auknum mæli þátt í skipulagningu almenningssamgangna. Bæði þekktu heimamenn best þarfir íbúanna og einnig yrði auðveldara að samræma áætlunarferðir þeim akstri sem sveitarfélögin stæðu þegar fyrir, svo sem akstri til skóla og öðrum þjónustuakstri.
Fjárfesta þarf fyrir 40 milljarða
Páll Guðjónsson, framkvæmdastjóri Aflvaka, ræddi almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Hann benti á að gert væri ráð fyrir 40-50% fjölgun einkabíla til ársins 2020 og miðað við það þyrfti að fjárfesta í umferðarmannvirkjum fyrir 40 milljarða króna. Ef hægt væri að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem leiddi til þess að hægt væri að fresta fjórðungi fyrirhugaðra framkvæmda myndu sparast 10 milljarðar króna. Ef notkun einkabíla myndi minnka um 10% og sú umferð færðist yfir á almenningsvagna mundi álag á gatnakerfi borgarinnar minnka um 5-7%. Auk þess mundu milljarðar sparast vegna færri umferðarslysa og líta mætti á minnkandi bílaumferð sem framlag til mengunarvarna.Páll telur það taka 5-10 ár að snúa þróuninni við því byggja þurfi markaðinn fyrir almenningssamgöngur upp frá grunni.