STEFNT er að því að reglugerð um nýfæði, sem meðal annars felur í sér reglur um merkingar á erfðabreyttum matvælum, verði gefin út síðar á þessu ári.

STEFNT er að því að reglugerð um nýfæði, sem meðal annars felur í sér reglur um merkingar á erfðabreyttum matvælum, verði gefin út síðar á þessu ári.

Gert er ráð fyrir að erfðabreytt matvæli verði merkt og til erfðabreyttra matvæla teljist matvæli sem innihalda í mælanlegu magni DNA eða prótein tilkomið með erfðabreytingum.

Þetta kemur fram í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns vinstri grænna, um erfðabreyttar afurðir.

Í svarinu kemur fram að ráðuneytið telur að neytendur skuli eiga rétt á upplýsingum um hvaða matvæli séu erfðabreytt eða innihaldi erfðabreyttar afurðir.

Gefinn verði sex mánaða aðlögunartími

Í fyrirliggjandi drögum að reglugerð er gert ráð fyrir að þeir sem sett hafa erfðabreytt matvæli á markað fái sex mánaða aðlögunartíma til að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar. Því ættu neytendur að geta vænst merktra matvæla á fyrri hluta næsta árs.

Þá kemur fram að stefnt er að því að gefa út tvo bæklinga um erfðabreyttar afurðir á þessu ári; annan um erfðbreytt matvæli og hinn um erfðabreyttar lífverur. Með þessu móti hyggst ráðherra tryggja að almenningur fái hlutlausar og faglegar upplýsingar um erfðabreytt matvæli og þau áhrif sem erfðabreyttar lífverur geta haft á umhverfið.