IÐNAÐARRÁÐHERRA kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær frumvarp til laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, en jarðvísindalegar rannsóknir í Norður-Atlantshafi benda til þess að verðmæt olíuefni kunni að leynast á landgrunni Íslands og hafa erlend...

IÐNAÐARRÁÐHERRA kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær frumvarp til laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, en jarðvísindalegar rannsóknir í Norður-Atlantshafi benda til þess að verðmæt olíuefni kunni að leynast á landgrunni Íslands og hafa erlend olíufyrirtæki sýnt áhuga á olíuleit á landgrunninu. Frumvarpið fer nú til þingflokka ríkisstjórnarflokkanna og verður síðan lagt fram á Alþingi í framhaldinu.

Í upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu kemur fram að forsenda þess að erlend fyrirtæki fáist til að fjármagna leit að olíu og gasi á landgrunni Íslands sé að sett verði sérstök lög um þessa starfsemi, en slík löggjöf sé til staðar í öllum nágrannaríkjum okkar.

Þrjú svæði koma helst til greina

Með lagasetningunni er sett rammalöggjöf um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, en með því er átt við jarðolíu, jarðgas eða annars konar kolvetni sem er til staðar í jarðlögum undir hafsbotni frá náttúrunnar hendi og nýtanlegt er í loftkenndu eða fljótandi formi.

Við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af norrænni löggjöf um hliðstæð efni, auk þess nauðsynlegt var að samræma ákvæði frumvarpsins löggjöf Evrópusambandsins vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Fram kemur að helstu svæðin sem koma til greina í þessum efnum séu Jan Meyen hryggurinn, Hatton-Rockall svæðið og setlagasvæðið undan ströndum Norðurlands. Engir tæknilegir þættir virðast geta komið í veg fyrir olíuvinnslu á þessum svæðum, ef slíkar auðlindir finnast í nægjanlegum mæli.