SÍÐASTA helgi bar mikið svipmót 1. maí dagsins á mánudag sem verkalýðsshreyfingin hélt hátíðlegan hér á landi eins og annars staðar í heiminum.

SÍÐASTA helgi bar mikið svipmót 1. maí dagsins á mánudag sem verkalýðsshreyfingin hélt hátíðlegan hér á landi eins og annars staðar í heiminum. Kröfugöngur og rauðir fánar eru að vísu arfur frá stjórnmálahreyfingu, sem reis upp og stofnaði til heimsveldis; taldi mönnum trú um að það væri heimsveldi verkalýðsins og lifði á slagorðum eins og "guð er ópíum fólksins" og "betri er rauður en dauður". Ekkert slagorðanna kom að gagni, enda tók heimsveldið upp á því að deyja drottni sínum mitt í ofbeldi og fangelsunum, sem var hin hálffalda undirstaða ríkisins að viðbættri endalausri fátækt lýðsins. Sósíalisminn er enn við lýði, sem hin félagslega lausn, en bauð heim fleiri óleystum svörum við miklum draumum og kjaftæði á liðinni öld en dæmi voru um áður. Má benda á Weimar-lýðveldið því til sönnunar. Með aukinni upplýsingu allra þjóða á Vesturlöndum á síðari hluta nítjándu aldar og þó einkum á tuttugustu öld, ásamt mikilli iðnvæðingu, spratt upp þörfin fyrir skipulega verkalýðshreyfingu. Inn í þessa hreyfingu tróðst vald einræðis og ógna og bókstaflega taldi henni trú um að þar væri komið hjálpræði verkamanna. Þar með var boðið upp á átök við pólitíska andstæðinga vinstrafólks sem hafa í gegnum áratugina ekki endilega snúist um sanngirni heldur orðið öðrum þræði slagsmál á milli heimskerfa. Hver maídagur minnir á þessa fáránlegu sögu þar sem öfgafullir óþokkar notuðu sjálfsagðan rétt verkalýðshreyfinga fyrirhuguðu heimsveldiskerfi til framdráttar. Því er það að þegar verkalýðshreyfingin krefst margra sjálfsagðra og eðlilegra hluta á sínum heiðursdegi ber að hlusta þótt verkalýshreyfingin ein og sér geti aldrei komið í staðinn fyrir þjóðkjörna fulltrúa.

Gaman var að hlusta á gamla verkalýðssforingjann, Guðmund J., í þættinum Tvennir tímar á sunndag á Stöð 2, þar sem Guðmundur, nú látinn, fór yfir sögu Dagsbrúnar á liðinni öld, einkum seinni hluta hennar, þegar hann veitti Dagsbrún forustu lengst af. Guðmundur var mikill sómamaður, snjall verkalýsforingi. Hann einbeitti sér að kjörum félaga sinna og varðaði minna um heimsmálin eða þann leynda draum sumra flokksfélaga sinna að taka þyfti föðurlandið með byltingu. Guðmundur kunni margar sögur úr hinni pólitísku verund og sagði manna best frá, eins og þeir vita sem þekktu hann. Hann sat á þingi í mörg ár fyrir allaballa en ekki er vitað til að hann hafi verið mjög ánægður. Stuttu eftir að hann gekk í þann flokk ungur maður sat hann flokksfund þar sem Brynjólfur og Einar voru að taka í gegn einhvern ónafngreindan mann og kölluðu hann landráðamann. Gekk á þessu um stund þangað til nýliðinn, Guðmundur, hallaði sér að sessunaut sínum, Áka Jakobssyni, sem þá var ráðherra í nýsköpunarstjórninni, og hvíslaði: Um hvern eru þeir að tala? Þá brosti Áki ljúfmannlega og hvíslaði á móti að þeir væru að tala um sig. Nýsköpunarstjórnin var um það bil að springa enda kominn upp ágreiningur um Keflavíkurvöll. Bandaríkjamenn vildu hafa not af honum áfram en það vildu vinstrimenn í stjórninni ekki. Áki hafði lagt fram miðlunartillögu við sína menn, sem þeir brugðust ókvæða við, að gera bókun í ríkisstjórninni þar sem beiðninni var andmælt.

Þátturinn með Guðmundi J. var svolítil klassík þar sem rakin er baráttusagan á seinni hluta 20. aldar. Auðvitað voru það stjórnvöld, sem leystu úr málum, en krafan var komin frá Dagsbrún og félögum. Dagsbrún átti góðan talsmann þar sem Guðmundur var. Þeir voru fleiri í stjórn Dagsbrúnar, sem urðu sögufrægir. Svo var um Tryggva Emilsson.

Indriði G. Þorsteinsson

Höf.: Indriði G. Þorsteinsson