Tveggja manna maki, segja menn stundum um Roy Keane fyrirliða.
Tveggja manna maki, segja menn stundum um Roy Keane fyrirliða.
Val á knattspyrnumanni ársins á Englandi hefur ekki verið jafn auðvelt í langan tíma - Roy Keane fyrirliði Manchester United hefur borið höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í úrvalsdeildinni. Um það eru leikmenn og sparkskýrendur sammála.

Val á knattspyrnumanni ársins á Englandi hefur ekki verið jafn auðvelt í langan tíma - Roy Keane fyrirliði Manchester United hefur borið höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í úrvalsdeildinni. Um það eru leikmenn og sparkskýrendur sammála. Leita verður aftur til tímabilsins 1987-88, að John Barnes hjá Liverpool varð fyrir valinu, eftir jafn friðsælu kjöri. Keane kom raunar til álita í fyrra, eins og félagi hans Dwight Yorke, en þá birtist Fransmaðurinn fótafimi hjá Tottenham Hotspur, David Ginola, eins og skrattinn úr sauðarleggnum með flaksandi lokka og hirti bikarinn við nefbroddinn á þeim. Ætli Sir Alex Ferguson hafi ekki hreinlega gleypt tyggigúmmíið við það tækifæri?

Í ár varð aftur á móti ekki fram hjá Keane gengið. Menn ganga yfirleitt ekki framhjá honum tvisvar. Veturinn, sem sumir óttuðust að yrði sá síðasti sem Keane klæddist búningi meistaranna, snerist upp í allsherjar yfirráð fyrirliðans. Hann er ekki aðeins besti leikmaðurinn í ensku knattspyrnunni, heldur jafnframt sá launahæsti. Stjórn United beygði sig sællar minningar fyrir launakröfum kappans á liðnu hausti, létu eftir honum hátt á sjöttu milljón króna - á viku. Hið fræga launaþak félagsins var sprengt í loft upp. Milljón krónur hirðir kappinn á dag, ef við gefum okkur að hann hvíli lúin bein einn dag í viku. Ekki amalegt.

Holdgervingur baráttu

En margur verður af aurum api og Keane hefur gætt þess af kostgæfni að gefa ekki höggstað á sér, hefur leikið sem aldrei áður. Var þó enginn meðalmaður fyrir. Vel má skilja hvers vegna félagið lagði sig í líma við að halda honum.

Keane er mikill kappi. Fer fyrir liði sínu með góðu fordæmi og hvetur menn til dáða, með góðu eða illu. Hann er holdgervingur baráttu og sigurvilja enda lærisonur tveggja svipmestu og sigursælustu knattspyrnustjóra sinnar kynslóðar, Brians Clough og Alex Fergusons. "Ég hef verið svo lánsamur að leika undir stjórn tveggja merkra knattspyrnustjóra," segir hann. "Ég stend í þakkarskuld við Brian Clough fyrir að gefa mér svo snemma tækifæri hjá Nottingham Forest. En það er Alex Ferguson sem hefur haft mest áhrif á feril minn, innan vallar sem utan."

Það sem menn finna Keane helst til foráttu er skapið. Hann á það til að byrsta sig og berja sér á brjóst, svo bjargarlitlir menn blotna á lærum. Í seinni tíð hefur kappinn líka sýnt dómgæslu mikinn áhuga, sem kemur sér illa þegar hann er sjálfur í hópi leikmanna. Stundum hefur Ferguson brugðið á það ráð að kippa kauða hreinlega útaf til kælingar. Þetta vandamál er hins vegar óverulegt, þegar upp er staðið, af hefur ekki hlotist umtalsverður skaði. Keppnisskap er sannra kappa siður.

Kom frá Cobh Ramblers

Clough gróf Keane hinn unga upp í heimalandi hans, Írlandi. Var hann þá í röðum Cobh Ramblers. Hlaut pilturinn strax sína eldskírn og varð á skömmum tíma umtalaðasta og eftirsóttasta eign Nottingham Forest. Þegar skógarmenn féllu með skelli vorið 1993 hófst líka æsilegur slagur um krafta hans. United hreppti hnossið, borgaði 3,75 milljónir punda, sem var metfé í þá daga.

Keane small snemma inn í liðið sem landaði hverjum titlinum af öðrum og þegar sjálfskipaður hershöfðingi, Paul Ince, gekk á dyr, sumarið 1995, tók Keane upp merki hans, sem kjölfesta og drifkraftur á miðjunni. Þegar hinn óborganlegi Eric Cantona dró sig í hlé, tveimur árum síðar, tók hann síðan við fyrirliðabandinu.

Keane leiddi United til hinnar ótrúlegu þrennu í fyrra og mun, ef að líkum lætur, fagna fleiri sætum sigrum áður en yfir lýkur. Og þegar Roy Keane leggur skóna á hilluna mun nafn hans lifa áfram, í sögubókum. Hann er án efa einn af dáðustu drengjum Manchester United, fyrr og síðar.