UNDIRBÚNINGUR vegna byggingar yfirbyggðrar 50 metra sundlaugar og heilsuræktarstöðvar í Laugardal eru í fullum gangi, en í vikunni fór fram forval vegna hæfnisvals á sérhönnuðum til hönnunar á mannvirkjunum.

UNDIRBÚNINGUR vegna byggingar yfirbyggðrar 50 metra sundlaugar og heilsuræktarstöðvar í Laugardal eru í fullum gangi, en í vikunni fór fram forval vegna hæfnisvals á sérhönnuðum til hönnunar á mannvirkjunum. Að sögn Stefáns Hermannssonar borgarverkfræðings mun bygging laugarinnar kosta rúman hálfan milljarð, en Björn Kr. Leifsson, eigandi líkamsræktarstöðvarinnar World Class, sem kemur til með að reka heilsuræktarstöðina, sagði að byggingarkostnaður hennar yrði um 800 milljónir króna. Heildarframkvæmdin hljóðar því upp á rúmlega 1,3 milljarða króna.

Rísa sunnan við útisundlaugina

Yfirbyggða sundlaugin og heilsuræktarstöðin munu rísa sunnan megin við útisundlaugina. Sundlaugin verður í eigu borgarinnar en heilsuræktarstöðin í eigu Björns Kr., eins og áður sagði. Sundlaugarbyggingin verður um 4.000 fermetrar en heilsuræktarstöðin um 6.850 fermetrar, húsið allt verður því um 10.850 fermetrar.

Búið er að teikna útlit laugarinnar og heilsuræktarstöðvarinnar, en það var arkitektinn Ari Már Lúðvíksson, sem gerði það. Björn Kr. sagðist vonast til þess að framkvæmdir myndu hefjast um næstu áramót og að heilsuræktarstöðin yrði tekin í notkun í árslok 2002, en þá mun líkamsræktarstöð World Class í Fellsmúla verða lögð niður þegar.

Skógarilmur í gufubaðinu

Björn Kr. sagði að í heilsuræktarstöðinni, sem verður sú stærsta á Íslandi, yrði bryddað upp á ýmsum nýjungum.

"Þetta verður heilsuræktarstöð með mjög ítarlegri þjónustu," sagði Björn Kr. "Þarna verður eitthvað fyrir alla og er þetta hugsað sem svona fjölskylduparadís.

Þarna verður læknaþjónusta og sjúkraþjónusta og síðan verður þarna sérstakur tækjasalur fyrir eldri borgara.

1.500 fermetra tækjasalur

Þarna verður baðhús að þýskri fyrirmynd, þar sem við verðum með nokkrar þurrgufur og blautgufu, nuddpottur og hvíldaraðstaða. Þá verður veitingastaður tengdur við baðhúsið, en þar verður fyrst og fremst boðið upp á heilsufæði, salöt og drykki. Það sem er nýtt við þetta er að gufuböðin verða öll með mismunandi hita, innréttingum og lýsingu. Þá verður einnig mismunandi ilmur inni í þeim, t.d. skógarilmur, jurtailmur o.s.frv. Þetta verður fyrst og fremst hugsað fyrir þá sem vilja slaka á og það verður bannað að tala í gufuböðunum."

Að sögn Björns Kr. verður sérbúningsaðstaða fyrir baðhúsið, en fyrir líkamsræktarstöðina verður önnur búningsaðstaða, gufa og nuddpottur.

"Tækjasalurinn verður 1.500 fermetrar samanborið við 550 fermetra sem við höfum núna uppi í Fellsmúla og þarna verða þrír leikfimisalir. Þá munum við bjóða upp á barnapössun, en það verður barnaíþróttavöllur í stöðinni og munum við t.d. koma til með að halda íþróttanámskeið fyrir börnin."

Kristinn Gíslason, verkefnastjóri hjá borgarverkfræðingi, sagði að allir þeir, sem hefðu rétt til að skila séruppdráttum til byggingarnefndar Reykjavíkur, hefðu haft rétt til að taka þátt í forvalinu. Hann sagði að verk sérhönnuðanna sneri að gerð teikninga vegna rafmagns, hita. burðarþols, stýrikerfis o.þ.h.

Fjöldi umsókna um verkið

Kristinn sagði að í gær hefði verið síðasti dagurinn til að skila umsóknum og að fjölmargir hefðu gert það. Hann sagði að næsta skref væri að velja 3 til 5 þátttakendur úr hópi umsækjenda til að taka þátt í sjálfu hæfnisvalinu. Þegar því væri lokið og þeir búnir að skila tillögum sínum yrði einn aðili eða fyrirtæki valið til að sjá um sérhönnunina. Kristinn sagði að þar sem um mjög stórt og viðamikið verkefni væri að ræða mætti gera ráð fyrir því að aðeins þau fyrirtæki sem hefðu mikla reynslu og þekkingu yrðu valin til að taka þátt í hæfnisvalinu.