BORGARSTJÓRN Reykjavíkur hefur samþykkt að gerð verði tveggja ára tilraun í grunnskólunum í Breiðholti með nýtt fyrirkomulag skóla- og tómstundastarfs í 1.-4. bekk.
Tilraunin felur m.a. í sér sjö stunda samfelldan skóladag og ókeypis aðgang 6 ára barna að forskóla tónlistarskóla. Í skýrslu verkefnisstjórnar sem hafði forgöngu um tilraunina má lesa að 16,9% 6-9 ára barna í borginni sæki nám í grunnskólana í Breiðholti en vegna þátttökuleysis í lengdum skóladegi hafi aðeins 0,7% niðurgreiðslna til þess verkefnis runnið til skólanna fjögurra.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er þetta misræmi milli barnafjöldans og niðurgreiðslnanna vegna hás hlutfalls einstæðra foreldra og efnaminna fólks í hverfinu, sem hefur síður efni á að greiða fyrir þá þjónustu sem nú er veitt en foreldrar í öðrum hverfum og endurspeglar litla þátttöku í heilsdagsskólanum í hverfinu. Sker Breiðholt sig úr öðrum hverfum borgarinnar hvað þetta varðar.
Þversögn
Helgi Hjörvar, formaður verkefnisstjórnarinnar, sagði í samtali við Morgunblaðið að meginatriðið í tilrauninni væri að jafna þjónustustig á milli grunnskóla."Þjónustustig í heilsdagsskólanum hefur verið mismunandi eftir skólum og það er aðeins hluti nemenda, þ.e. þeir sem borga þjónustugjöld, sem nýtur hennar," sagði Helgi. "Heilsdagsskóli er að verulegu leyti hugsaður sem úrræði fyrir einstæða foreldra og börn úr efnaminni fjölskyldum og í því er ákveðin þversögn að það eru fyrst og fremst hinir sem geta og eru tilbúnir að greiða fyrir þessa þjónustu við börnin og það hefur gert að verkum að sum börn fá heimanámsaðstoð og önnur ekki og þjónusta hefur orðið mjög mikil eftir áherslum skóla. Þarna er hins vegar gert ráð fyrir að niðurgreiðslunum sé öllum beint til þess að skapa tilboð fyrir alla um ókeypis heimanámsaðstoð, morgunstund með kennara og íþróttaskóla og almennt tómstundatilboð sem tryggi öllum börnum í þessum fjórum skólum 7 stunda ókeypis skóladag þannig að þau hafi kost á þjónustu til klukkan þrjú.
Þá taki Íþrótta- og tómstundaráð við með tómstundatilboð sem hægt er að taka þátt í með því að greiða þann kostnað sem til fellur við það en sú þjónusta er ekki skólastarf heldur fyrst og fremst úrræði vegna langs vinnudags foreldra og það er verið að skilja á milli þessara tveggja hlutverka. ÍTR tekur að sér tómstundastarfið í skólunum og þá er allt tómstundastarfið í Breiðholti, innan skólanna eða utan þeirra, komið á eina og sömu höndina og við bindum vonir við að það geti eflt tómstundastarfið mjög," sagði Helgi. Hann segir að kostnaður borgarsjóðs af tilrauninni í Breiðholti yrði nokkuð meiri en áætlað var í ár, 10 m. kr., en það stafaði af því hve niðurgreiðslur til skólanna þar hafi verið langt undir meðaltali. "Þegar menn taka þá ákvörðun að jafna þjónustuna um borgina eykst kostnaðurinn þar. Ef fyrirkomulagið yrði hins vegar tekið upp í borginni allri yrði það nokkuð dýrara en rekstur heilsdagsskólans á síðasta ári og við gætum verið að tala um allt að 200 m. kr. á ári."
60 mínútur til viðbótar
Í skýrslu verkefnisstjórnarinnar kemur fram að lagt sé til að nemendum 1.-4. bekkjar gefist kostur á þjónustu frá morgni til klukkan þrjú síðdegis af hálfu skólans, ÍTR taki við börnunum klukkan 14 og fylgi þeim í tónlistarskólann og íþróttaskólann. Skólinn fái til viðbótarráðstöfunar 60 mínútur á hverja deild í 2.-4. bekk og geti valið hvort þeir nýti allan tímann til heimanámsaðstoðar eða hluta til morgunstundar. Þar sem heimanám 6 ára barna felist fyrst og fremst í lestri sé ekki talið rétt að veita þá aðstoð í skólunum. Mikilvægt sé að foreldrarnir sjálfir taki þátt í að kenna og þjálfa börnin sín í lestri og því sé lagt til að þau börn njóti annars konar tilboða meðan 2.-4. bekkur stundar heimanám, þ.e. íþróttaskóla, tónlistarnám og tómstundatilboð frá ÍTR.Um væri að ræða tónlistarnám forskóla tvo daga vikunnar, íþróttafélög í Breiðholti veiti 6 ára börnum tilsögn í helstu íþróttum tvo daga vikunnar en fimmta daginn bjóði ÍTR 6 ára börnunum fjölbreytt starf með ólíkum viðfangsefnum, t.d. föndur, myndlist, vettvangsferðir o.fl.
Að loknum skóladegi, kl 15 til 17, verði börnum í 1.-4. bekk boðið tómstundastarf á vegum ÍTR innan skólans gegn þjónustugjöldum sem standi undir kostnaði, öðrum en húsnæðiskostnaði.
"Þetta er tilraun og hún verður metin eftir 1 ár og aftur eftir 2 ár og afstaða tekin til þess hvort fara eigi með það í fleiri skóla," sagði Helgi.
Um fyrirkomulag forskóla tónlistarskóla fyrir 6 ára börn sagði Helgi að viðræður við Tónlistarskóla Sigursveins og Eddu Borg um framkvæmd tilraunarinnar hæfust á næstunni.