Helgi Pétursson
Helgi Pétursson
Á að viðurkenna sigur einkabílsins og skipuleggja aðgerðir út frá slíkri staðreynd, spyr Helgi Pétursson, eða vinna að því að gera almenningssamgöngur að raunhæfum valkosti?

STARFSHÓPI, sem borgarstjóri skipaði sl. haust og ætlað var að "kanna og leggja mat á tiltæka kosti í rekstri og þjónustu almenningssamgagna í Reykjavík", var nokkur vandi á höndum.

Í tengslum við mótun svæðisskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið hafa menn nefnilega gefið sér eftirfarandi forsendur hvað varðar umferð og enginn hefur dregið þær í efa:

Gert er ráð fyrir að bílaumferð muni aukast um 50%.

Stefnt er að því að viðhalda núverandi þjónustustigi vegakerfisins.

Til þess þarf að:

Leggja Sundabraut

Ljúka endurbyggingu Vesturlandsvegar

Byggja við Sæbraut

Tvöfalda og byggja við Reykjanesbraut

Byggja við vegakerfi við nýja miðbæjarkjarna

Byggja nýja vegtengingu milli Hafnarfjarðarvegar og

Reykjanesbrautar (Fossvogsbraut)

Byggja Ofanbyggðarveg

Byggja Hlíðarfót.

Auka umtalsvert framboð á bílastæðum og bílastæðahúsum, m.a. á svæðum þar sem þegar eru vandræði á lausnum m.v. núverandi ástand.

Sérfræðingar hafa slegið fram lauslegri kostnaðaráætlun vegna þessara framkvæmda. Þær eru taldar kosta um 40 milljarða króna á næstu 20 árum. Þá er ekki talinn með vaxandi kostnaður samfélagsins vegna umferðarslysa, sem nú þegar er ógnvekjandi. Né heldur er þar talinn með kostnaður heimilanna af því að eiga og reka tvo - jafnvel þrjá - einkabíla á ári hverju. Þá er heldur ekki reynt að greina kostnað vegna umhverfismála í þessari tölu.

Eðlilegar tvær lykilspurningar í starfi hópsins urðu því:

1. Með hvaða hætti geta auknar almenningssamgöngur dregið úr fyrirsjáanlegum sameiginlegum kostnaði samfélagsins miðað við þessar forsendur?

2. Eru ríkisvaldið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu reiðubúin til einlægs og markviss samstarfs um 5-10 ára uppbyggingarátak við að vinna almenningssamgöngum þann sess að á þær verði litið sem raunhæfan valkost í ferðamáta á svæðinu?

Samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur.

Í þessu samhengi standa sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu og ríkisvaldið frammi fyrir þeirri spurningu hvort viðurkenna eigi sigur einkabílsins og skipuleggja allar nauðsynlegar aðgerðir út frá slíkri staðreynd, eða hvort snúa eigi vörn í sókn og vinna markvisst að því að gera almenningssamgöngur að raunhæfum valkosti í ferðamáta framtíðarinnar.

Borgarstjórn hefur sem betur fer samþykkt einróma að velja síðari kostinn og fyrir liggur þessi samþykkta tillaga borgarstjóra sem nú verður unnið eftir:

"1. Að vinna að því að styrkja almenningssamöngur sem raunhæfan ferðamáta og auka hlut þeirra í samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins.

2. Að beita sér fyrir því í viðræðum við nágrannasveitarfélögin að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði efldar og leitað verði samstöðu um leiðir til að draga úr þeirri aukningu á umferð einkabíla á svæðinu sem spáð er. Samstaða um sameiginleg markmið í því efni hlýtur að vera forsenda fyrir samrekstri eða frekara samstarfi við nágrannasveitarfélögin.

3. Að í viðræðum við fulltrúa ríkisvaldsins verði byggt á sameiginlegum hagsmunum svæðisins og ávinningi þjóðarbúsins í heild af góðum og vel nýttum almenningssamgöngum, ekki hvað síst með tilliti til alhliða umhverfisþátta.

4. Að fela borgarstjóra að láta vinna ítarlega athugun á kostum og göllum aukins samstarfs eða samrekstrar um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt verði metið hvort æskilegt er að skilja á milli stefnumótunar og þjónustukaupa annars vegar og rekstrar samgöngutækja hins vegar hjá Reykjavíkurborg (SVR) og settar fram rökstuddar tillögur í því efni. Sérstök áhersla verði lögð á starfsmannamál í úttektinni þannig að réttur starfsmanna verði ekki lakari en nú er, ef einhverjar breytingar verða lagðar til á rekstri fyrirtækisins."

Möguleikar í stöðunni

Nokkrir möguleikar eru sjáanlegir í samstarfi við aðra aðila um framkvæmd almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Aukið samstarf við Almenningsvagna bs. s.s. með samræmdri gjaldskrá, gagnkvæmu skiptimiðakerfi o.fl. getur styrkt stöðu almenningsvagnaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Með sama hætti eru sjáanlegir möguleikar í því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu taki upp samstarf um samrekstur almenningsvagnaþjónustunnar í meira mæli en gert er í dag. Slíkt má bæði framkvæma með því að SVR tæki að sér að framleiða þjónustuna fyrir allt svæðið eða að stofnað yrði sameiginlegt fyrirtæki til að sinna akstri á öllu svæðinu. Forsenda slíks samreksturs er að samstaða náist milli sveitarfélaganna um lykilatriði, þ.e. rekstrarform, gjaldskrármál, þjónustustig og kostnaðarskiptingu.

Þáttur ríkisvaldsins

Framundan eru viðræður sveitarfélaganna við ríkisvaldið um þróun almenningssamgangna. Heimur almenningssamganga er svo sannarlega heimur þversagnanna, því um leið og ríkisvaldið hefur skuldbundið sig samkvæmt alþjóðasamningum að vinna "með markvissu samstarfi við sveitarfélög um að efla almenningssamgöngur í þéttbýli", er einkabíllinn og rekstur hans gríðarlega þýðingarmikill tekjuþáttur fyrir ríkissjóð og í stað þess að styrkja almenningssamgöngur í þéttbýli með fjárframlögum eru beinar árlegar tekjur ríkissjóðs af rekstri SVR og AV um 144 milljónir í formi gjalda og skatta. Það hlýtur að vera forsenda fyrir áframhaldandi þróun, að ríkið söðli algjörlega um í afstöðu sinni til almenningssamgangna.

Efnum loforðin

Efling almenningssamgangna er að mínu viti nærtækasta, einfaldasta, skynsamlegasta og umhverfisvænasta tækið sem við höfum til þess að grípa inn í þróun sem ella mun kosta okkur sameiginlega gríðarlegar fjárhæðir í nýjum umferðarmannvirkjum, spilla náttúru, menga umhverfi, valda ómældu tjóni, slysum og ekki hvað síst stórauknum kostnaði heimilanna.

Þetta er þróun sem allar nágrannaþjóðir okkar hafa fyrir löngu gripið inn í með margvíslegum hætti. Þetta er þróun sem við höfum öll, einstaklingar, sveitarstjórnir og ríkisvald, lofað að ekki skuli yfir okkur ganga. Við höfum lofað þessu í umhverfisstefnum af öllu tagi, í skipulagsforsendum, alþjóðasáttmálum og ótölulegum fjölda hátíðaræða.

Nú er komið að því að standa við stóru orðin.

Höfundur er borgarfulltrúi og formaður stjórnar SVR.

Höf.: Helgi Pétursson