EINS og undanfarin ár verður Fjölskyldudagur í félagsheimilum eldra fólks í Kópavogi, Gjábakka og Gullsmára. Fjölskyldudagurinn árið 2000 verður laugardaginn 6. maí og hefst dagskráin í báðum félagsheimilum kl. 14.
Sama dagskrá er í báðum félagsheimilunum að öðru leyti en því að það er formaður Félags eldri borgara í Kópavogi, Karl Gústaf Ásgrímsson, sem opnar og stjórnar dagskráinni í Gjábakka en Sigurbjörg Björgvinsdóttir forstöðumaður sér um það í Gullsmára. Á dagskráinni verður m.a. kórsöngur.
Það er Samkór Kópavogs undir stjórn Dagrúnar Hjartardóttur og kór Digranesskóla undir stjórn Gróu Hreinsdóttur sem syngja. Bergþór Pálsson og Signý Sæmundsdóttir syngja nokkur lög, Linda Ásgeirsdóttir leikur atriði úr Latabæ og Magnús Halldórsson leikur á munnhörpu. Kaffi og meðlæti verður til sölu á sanngjörnu verði.
Aðgangur að Fjölskyldudegi er, eins og undanfarin ár, öllum heimill án endurgjalds meðan húsrúm leyfir.