RAUÐI kross Íslands ætlar að koma til aðstoðar sveltandi íbúum Eþíópíu og hefja í því skyni fjáröflunarátak sem standa mun næstu vikur. Átakið hefst um helgina með samvinnu við Skeljung hf.

RAUÐI kross Íslands ætlar að koma til aðstoðar sveltandi íbúum Eþíópíu og hefja í því skyni fjáröflunarátak sem standa mun næstu vikur. Átakið hefst um helgina með samvinnu við Skeljung hf., sem ætlar að gefa þrjár krónur af hverjum eldsneytislítra sem keyptur er á Shell-stöðvum um allt land á laugardag og sunnudag til aðstoðar við Eþíópíu.

Átakið mun standa næstu vikur. Landsmönnum verður gefinn kostur á að hjálpa með ýmsum hætti. Baukar fara brátt að birtast á stöðum þar sem almenningur fer um, gíróseðlar liggja frammi í bönkum og á Akureyri verður Listasafnið með fatasöfnun tengda nýstárlegri sýningu sem þar hefst á föstudag eftir viku.

Þeir sem vilja reiða fram fé af greiðslukorti geta líka hringt í Rauða krossinn í síma 570 4000 eða farið á vefinn www.redcross.is og sent framlag um öruggan netmiðlara.

Alþjóða Rauði krossinn hefur myndað loftbrú til tveggja staða í sunnanverðri Eþíópíu og þangað er flogið nær daglega frá birgðastöðvum í Nairobi í Kenýa.

Markmið Rauða krossins er að koma næringarríkum mat til 188 þúsund manna á svæðum í suðurhluta landsins, þar sem neyðin er mest. Flug með hjálpargögn hófst 17. apríl og ætlunin er að halda því áfram, jafnvel til áramóta ef þörf krefur.

Starfsmenn Rauða krossins á staðnum segja að stöðugt fleiri hirðingjafjölskyldur komi til þéttbýlissvæða í suðurhluta Eþíópíu, aðframkomnar eftir langa göngu af heimaslóðum. Þetta fólk, einkum börnin, konurnar og eldra fólkið, hefur í mörgum tilvikum ekkert borðað í marga daga og reiðir sig algjörlega á mataraðstoð.