VÆNTANLEGA verður útboðsgengi þeirra 8 milljóna hluta í deCODE genetics sem selja á í forsölu á bilinu 14-18 dollarar á hlut, samkvæmt upplýsingum á ipo.com þar sem upplýsingar um fyrirtæki sem eru að sækja um skráningu á Nasdaq-hlutabréfamarkaðnum er að finna. Ekki kemur fram hvenær útboðið muni hefjast og samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er þetta ekki endanleg verðákvörðun á félaginu heldur mun gefa til kynna að það muni verða á þessu bili. Óvíst er hvort endanlegt verð liggur fyrir fyrr en degi fyrir útboð.
Fréttin af væntanlegu útboðsgengi hafði mikil áhrif á gráa markaðinn á Íslandi en fyrstu viðskipti í gær voru á rúmlega 40 dollara á hlut en í lok dags voru viðskipti með bréf deCODE á 30 $. Er þetta 25% lækkun á einum degi en gengið fór hæst í janúar eða í um 65 dollara á hlut.
Erfitt fyrir ný líftæknifyrirtæki að fara á markað
Margeir Pétursson forstjóri MP Verðbréfa segir að þótt útboðsgengi deCODE, sem birt var í gær, sé talsvert lægra en búist var við fyrir nokkrum vikum, lýsi það trú fjárfestingarbankans, sem sér um skráningu fyrirtækisins á Bandaríkjamarkaði, á deCODE að það skuli vera verðlagt með þessum hætti eftir þær sviptingar sem verið hafa á hlutafjármarkaði með bréf líftæknifyrirtækja að undanförnu.
Bandarískir fjárfestar varkárir
Margeir sagði að fyrir þremur mánuðum eða svo hefði vissulega mátt búast við að útboðsgengi deCODE yrði hærra. En nú væru bandarískir fjárfestar mjög varkárir gagnvart líftæknifyrirtækjum og hefðu dregið sig að miklum hluta út úr þeim markaði. Jafnframt væri mjög erfitt fyrir ný fyrirtæki að koma þar inn og því sýndi það trú fjárfestingarbankans Morgan Stanley á fyrirtækinu að haldið væri áfram með skráningu þess.Á fundi stjórnar Fjárfestingarbanka Íslands 3. febrúar sl. var ákveðið að stefna að því að selja eignarhlut FBA í deCode, og í tilkynningu frá bankanum í byrjun apríl kom fram að salan mundi fara þannig fram að hluthöfum FBA gæfist kostur á að kaupa hlutabréf bankans. Um 625 þúsund hluti er að ræða en söluverð verður það útboðsgengi sem boðið verður þegar skráning fer fram á Nasdaq. Bókfært verð hlutabréfa bankans í deCode er nú um 15 dollarar hver hlutur.