Á MÁLSTOFU um hnattvæðinguna og stöðu Íslands á stofnfundi Samfylkingarinnar í gær kom fram að aukin samvinna, aukin viðskipti og þátttaka þjóða í starfi alþjóðasamtaka sé besta leiðin til að stuðla að því að útrýma fátækt í heiminum og til að bæta...

Á MÁLSTOFU um hnattvæðinguna og stöðu Íslands á stofnfundi Samfylkingarinnar í gær kom fram að aukin samvinna, aukin viðskipti og þátttaka þjóða í starfi alþjóðasamtaka sé besta leiðin til að stuðla að því að útrýma fátækt í heiminum og til að bæta velmegun almennt. Þetta kom meðal annars fram í máli Glendu Jackson, þingmanns breska verkamannaflokksins og leikkonu, sem var sérstakur gestur stofnfundarins. Hún sagði mikilvægt að styrkja alþjóðastofnanir sem vinna að því að bæta hag hinna verst settu í heiminum. Þá þyrfti að létta á skuldabyrði þróunarlandanna, þannig að þau gætu orðið fullgildir þátttakendur í alþjóðlegum viðskiptum.

Jackson var einn af fjórum frummælendum málstofunnar. Aðrir frummælendur voru Ari Skúlason, framkvæmdastjóri ASÍ, sem fjallaði um smáríkin í nýja hagkerfinu, Aðalsteinn Leifsson, starfsmaður fastanefndar ESB í Osló, en erindi hans nefndist Evrópusambandið í alþjóðahagkerfinu, og Þórir Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Rauða kross Íslands, sem talaði um frjáls félagasamtök í breyttum heimi.

Hnattvæðingin nú á forsendum fjármagnsins

Í máli Ara Skúlasonar kom fram að aukin hnattvæðing leiddi til aukinnar velferðar. Hnattvæðingin væri eins konar einkavæðing valdsins. Til dagsins í dag hefði hún leitt af sér aukið misvægi í heiminum. "Fjölþjóðafyrirtækin hafa hagnast mest hingað til," sagði Ari. "Hnattvæðingin fer nú fram á forsendum fjármagnsins en þar þarf félagslega vídd." Ari sagði þetta hafa verið eins í Evrópusambandinu í byrjun, en þar hefði orðið mikil breyting á.

"Evrópusambandið er sterkasta efnahagsvaldið í heiminum, " sagði Aðalsteinn Leifsson. Hann sagði ekki einungis skynsamlegt fyrir Íslendinga að ganga í ESB heldur einnig nauðsynlegt. Sambandið væri ekki eingöngu byggt á fjárhagslegum grunni heldur æðri gildum eins og mannréttindum, vinnuverndarsjónarmiðum og umhverfismálum.

Frjáls félagasamtök með aukið hlutverk

Þórir Guðmundsson sagði að menn væru stöðugt að gera sér betur grein fyrir nauðsyn þess að borgararnir væru virkir í þjóðmálaumræðunni, en ekki bara á fjögurra ára fresti. Hann sagði óbreytta borgara geta haft mikil áhrif á umhverfi sitt. Alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankinn og ESB ættu sífellt meiri og sterkari samskipti við frjáls félagasamtök, sem hefðu yfirtekið mikið af þeim verkefnum sem ríkisstjórnir í ýmsum löndum hefðu sinnt áður.

Stjórnandi málstofunnar var Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaðurSamfylkingarinnar.