RUDOLF Scharping, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði í fyrradag, að yrðu herútgjöld ekki aukin væri hætta á, að þýski herinn yrði enn meiri eftirbátur herjanna í bandalagsríkjunum en hann er nú.

RUDOLF Scharping, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði í fyrradag, að yrðu herútgjöld ekki aukin væri hætta á, að þýski herinn yrði enn meiri eftirbátur herjanna í bandalagsríkjunum en hann er nú. Kom þetta fram á ráðstefnu með foringjum í hernum og fulltrúum meira en 600 fyrirtækja. Sagði Scharping, að vegna lítilla herútgjalda í langan tíma skorti herinn alls konar búnað, t.d. nýjustu hergögnin. Vegna þess gæti hann í raun ekki uppfyllt skyldur sínar í NATO og væri heldur ekki búinn undir það í væntanlegum Evrópuher. Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, hét í sinni ræðu fullum stuðningi við endurnýjun innan hersins enda væri það í samræmi við þýska öryggishagsmuni og utanríkisstefnu landsins.

Pútín undirritar START II

VLADÍMÍR Pútín, forseti Rússlands, undirritaði í fyrradag START II-afvopnunarsamninginn en hann er um fækkun bandarískra og rússneskra kjarnavopna. Er stefnt að því, að kjarnaoddarnir verði ekki fleiri en 3.000 til 3.500 í hvoru ríki. Pútin varar hins vegar Bandaríkjastjórn við og segist munu rifta öllum afvopnunarsamningum komi hún á laggirnar sérstöku varnarkerfi gegn kjarnavopnum. Segir hann, að það fari í bága við samninginn frá 1972 um langdrægar eldflaugar og geti leitt til nýs vígbúnaðarkapphlaups.

Minnkandi frjósemi

KOMIÐ hefur í ljós við rannsókn á vegum Alþjóðanáttúruverndarsjóðsins, að sæðisfrumutala nýliða í danska hernum er óvenju lág og þar með frjósemi þeirra. Er ástæðan sögð vera efnamengun af mannavöldum. Er einkum um að ræða efni, sem hafa áhrif á hormónastarfsemi líkamans, en þau er meðal annars að finna í plastflöskum og leikföngum, ýmsum ílátum undir matvæli, hreinsiefnum og skordýraeitri. Vegna þessa hefur Evrópusambandið verið hvatt til að banna notkun þessara efna en þau og áhrif þeirra eru nú í rannsókn jafnt austanhafs sem vestan.

Kasmírbúum sleppt

INDVERJAR hafa sleppt fimm aðskilnaðarsinnum frá Kasmír úr fangelsi og hefur það komið af stað orðrómi um, að þeir hyggist taka upp viðræður við hreyfingar aðskilnaðarsinna. Einn þessara manna, Yasin Malik, leiðtogi einnar hreyfingarinnar, gerir þó lítið úr hugsanlegum viðræðum enda hafa Indverjar margsagt, að þær gætu aðeins átt sér stað innan ramma indversku stjórnarskrárinnar. Það þýðir í raun, að múslimar í Kasmír muni aldrei geta sagt skilið við Indland.