Hannes Hlífar Stefánsson
Hannes Hlífar Stefánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Maí 2000.

ÞRÍR íslensku stórmeistaranna standa í eldlínunni um þessar mundir víðsvegar um heiminn. Helgi Áss hefur nýlega lokið þátttöku í ensku deildakeppninni og þeir Þröstur Þórhallsson og Hannes Hlífar Stefánsson eru að hefja þátttöku í sterkum skákmótum, Þröstur í New York og Hannes á Kúbu þar sem teflt er til minningar um Capablanca, fyrrverandi heimsmeistara.

Góður árangur Helga Áss á Englandi

Helgi Áss Grétarsson tefldi um síðustu helgi á fyrsta borði fyrir Silvine White Rose í ensku deildakeppninni, en liðið er í fyrstu deild. Helga gekk prýðisvel, fékk 2½ vinning í þremur skákum:

Helgi - Paul Littlewood (2313) 1-0

Helgi - John Nunn (2598) ½-½

Helgi - Simon Ansell (2383) 1-0

Hannes á Kúbu

Hannes Hlífar Stefánsson tekur þátt í minningarmóti Cabablanca sem haldið verður í Varadero á Kúbu 6.-22. maí. Þetta mót á sér langa sögu, var fyrst haldið árið 1962 og er nú haldið í 35. skipti. Guðmundur Sigurjónsson tók fyrstur Íslendinga þátt í þessu móti árið 1976, en þá var mótið haldið í Cienfuegos. Góð frammistaða Guðmundar á þessu sterka móti vakti athygli, hann deildi 2. sæti með Razúvajev, en Gulko sigraði á mótinu. Mótið er lokað 14 manna mót, þar af eru 13 stórmeistarar. Keppendur eru: 1 Mihail Kobalija (Rússl. 2593) 2 Alexandre Lesiege (Kanada 2582) 3 Anthony Miles (Engl. 2579) 4 Lázaro Bruzon (Kúba 2568) 5 Hannes H. Stefánsson (2566) 6 Stuart Conquest (Engl. 2563) 7 Jesus Nogueiras (Kúba 2563) 8 Roman Slobodjan (Þýskal. 2561) 9 Alexander Volzhin (Rússl. 2548) 10 Tomas Oral (Tékkl. 2540)11 Reinaldo Vera (Kúba 2546) 12 Peter Acs (Ungverjal. 2542) 13 Walter Arencibia (Kúba 2529) 14 Leinier Dominguez (Kúba 2508).

Fyrir utan Hannes tóku þrír þessara skákmanna þátt í nýafstöðnu Reykjavíkurskákmóti. Það eru þeir Miles, Conquest og Oral. Eftir frábæra frammistöðu Hannesar á Reykjavíkurskákmótinu verður spennandi að fylgjast með árangri hans á þessu sterka skákmóti.

Þröstur á New York Open

Stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson verður meðal þátttakenda á New York Open-skákmótinu, sem fram fer 5.-11. maí. Mótið hefur verið haldið árlega frá 1983, en féll þó niður í fyrra. Skipuleggjandi mótsins er eins og áður Jose Cuchi. Tefldar verða níu umferðir eftir svissneska kerfinu. Mótið er ávallt mjög fjölmennt og sterkt. Þannig var 41 stórmeistari skráður á mótið 4. maí, en alls höfðu skákmenn frá 27 löndum tilkynnt þátttöku. Eftirtaldir stórmeistarar eru stigahæstir á mótinu:

1. Vladimir Epishin (Rússl. 2667)

2. Ilya Smirin (Ísrael 2666)

3. Igor Khenkin (Þýskal. 2622)

4. Pavel Tregubov (Rússl. 2615)

5. Evgenij Agrest (Svíþjóð 2604)

Af öðrum þátttakendum verður einna fróðlegast að fylgjast með Kínverjanum 14 ára, Xiangzhi Bu, sem m.a. stóð sig mjög vel á Reykjavíkurskákmótinu í síðasta mánuði.

Viku eftir að Reykjavíkurmótinu lauk var Bu mættur til þátttöku í 4. alþjóðlega Neckar-skákmótinu í Stuttgart í Þýskalandi, þar sem ungir og efnilegir skákmenn voru í bland við þá eldri og reyndari. Þrettán stórmeistarar tóku þátt í mótinu, en Bu fór taplaus í gegnum það og sigraði.

Guðjón og Dagur sigra á Skólaskákmóti Rvk.

Guðjón Heiðar Valgarðsson sigraði í eldri flokki Skólaskákmóts Reykjavíkur sem fram fór 27. og 28. apríl í félagsheimili TR og Dagur Arngrímsson sigraði í þeim yngri. Aðeins sex keppendur tóku þátt í eldri flokki. Þar urðu úrslit sem hér segir: 1. Guðjón H. Valgarðsson 5 v. af 5. 2.-3. Sigurjón Kjærnestedt og Arnljótur Sigurðsson 3 v. 4. Grímur Daníelsson 2 v. 5.-6. Kristinn Símon Sigurðsson og Halldór Heiðar Hallsson 1 v. Fjórir efstu keppendurnir í eldri flokki unnu sér inn rétt til þátttöku á Landsmóti í skólaskák sem fram fer á Borgarfirði eystri 5.-7. maí. Í yngri flokki tóku 30 keppendur þátt. Þar varð röð efstu manna sem hér segir: 1. Dagur Arngrímsson 7 v. af 7. 2. Guðmundur Kjartansson 6 v. 3.-6. Benedikt Örn Bjarnason, Viðar Berndsen, Aron Ingi Óskarsson og Helgi Rafn Hróðmarsson 5 v. 7. Hilmar Þorsteinsson 4½ v. 8.-13. Garðar Sveinbjörnsson, Birgir Örn Grétarsson, Eydís Arna Sigurbjörnsdóttir, Haraldur Franklín Magnús og Dofri Snorrason 4 v. 14.-16. Gísli Logi Logason, Viktor Orri Valgarðsson og Eggert Freyr Pétursson 3½ v. Þar sem aðeins þrjú efstu sætin gáfu rétt til þátttöku á Landsmótinu í Skólaskák þurftu keppendurnir í 3.-6. sæti að tefla um aukasætið. Þar sigraði Benedikt Örn Bjarnason með 4½ vinning í 6 skákum. Skákstjórar voru Ólafur H. Ólafsson og Ríkharður Sveinsson.

Nýr formaður Taflfélagsins Hellis

Davíð Ólafsson var kjörinn formaður Hellis á aðalfundi félagsins sem haldinn var 2. maí. Daði Örn Jónsson, sem verið hefur formaður félagsins undanfarin þrjú ár, baðst undan endurkjöri en situr þó áfram í stjórn félagsins. Nýja stjórn Hellis skipa eftirtaldir: Davíð Ólafsson, formaður, Benedikt Egilsson, Bjarni Benediktsson, Björn Þorfinnsson, Daði Örn Jónsson, Gunnar Björnsson, Helgi Ólafsson, Lárus Ari Knútsson og Vigfús Ó. Vigfússon.

Áfram KR!

Skákdeild KR gengst fyrir firmakeppni, sem haldin verður í Ráðhúsinu sunnudaginn 7. maí. Fyrirkomulag mótsins er í stuttu máli á þá leið, að fyrirtæki skrá sig í mótið, en keppendur veljast síðan til að keppa fyrir hönd hvers fyrirtækis. Tefldar verða hraðskákir og er keppnin opin öllum skákmönnum sem hafa minna en 2100 Elo-stig. Ágóða af keppninni verður varið til að styrkja skákstarf meðal barna og unglinga. Verðlaun verða ekki af verri endanum, en þ.ám. eru utanlandsferðir og aðrir stórir vinningar.

Skráning keppenda hefst kl. 13, en keppnin sjálf hefst kl. 14. Tefldar verða níu umferðir (Monrad) og umhugsunartími er sjö mínútur. Þátttaka er ókeypis. Ýmis fyrirtæki hafa stutt skákdeild KR í að koma keppninni á fót og eru skákmenn hvattir til að koma og tefla eða fylgjast með. Sérstaklega vonast KR-ingar til að sjá sem flestar stúlkur í mótinu.

Skákdeild KR var formlega stofnuð sl. haust, en í stjórn félagsins eru þeir Kristján Stefánsson (formaður), Kristján Hreinsson, Vilhjálmur Guðjónsson og Finnbogi Guðmundsson. Skákdeildin var stofnuð í kjölfar þess að undanfarin 3-4 ár hafa verið haldnar vel sóttar skákæfingar hjá KR, en ekki er óalgengt að þar mæti 20-26 manns. Meðal þess sem félagið mun leggja áherslu á á næstunni er efling barna- og unglingastarfs í samráði við grunnskólana.

Atkvöld á mánudag

Taflfélagið Hellir heldur eitt af sínum vinsælu atkvöldum mánudaginn 8. maí og hefst mótið kl. 20. Fyrst eru tefldar þrjár hraðskákir þar sem hvor keppandi hefur fimm mínútur til að ljúka skákinni og síðan þrjár atskákir, með tuttugu mínútna umhugsun.

Sigurvegarinn fær verðlaun, mat fyrir tvo frá Pizzahúsinu. Þá hefur einnig verið tekinn upp sá siður að draga út af handahófi annan keppanda, sem einnig fær máltíð fyrir tvo hjá Pizzahúsinu. Þar eiga allir jafna möguleika, án tillits til árangurs á mótinu. Þátttökugjald er kr. 300 fyrir félagsmenn (kr. 200 fyrir 15 ára og yngri) og kr. 500 fyrir aðra (kr. 300 fyrir 15 ára og yngri).

Daði Örn Jónsson

Höf.: Daði Örn Jónsson