TYRKNESKA þingið kaus í gær Ahmet Necdet Sezer, fyrrverandi yfirdómara við stjórnarskrárdómstól landsins, í embætti forseta Tyrklands. Sezer, sem verður tíundi forseti landsins, hlaut 330 atkvæði af 550 í kosningunum. Skæðasti keppinautur hans, Nevzat Yalcintas, fékk mun minna eða 113 atkvæði.
Kosning Sezers er talin munu auka líkur á því að ýmsar umbætur verði framkvæmdar í landinu sem greiða muni fyrir hugsanlegri inngöngu þess í Evrópusambandið (ESB). Á blaðamannafundi eftir sigurinn í gær talaði Sezer um þörfina fyrir aukið lýðræði í landinu. "Rætur nokkurra af þeim vandamálum sem við er að etja í Tyrklandi liggja í óhlýðni við lög og reglu," sagði hinn nýkjörni forseti. "Skilningur á lýðræði hefur ekki þróast í samfélagi og í stjórnmálalífi okkar og ekki hefur tekist að skapa lýðræðishefð í landinu."
Sezer er sagður hafa verið ötull baráttumaður fyrir lýðræðisumbótum í Tyrklandi þau ár sem hann hefur gegnt embætti yfirdómara. Hann hefur m.a. lýst því yfir að stjórnarskrá landsins virði ekki grundvallarréttindi þegnanna. Sezer, sem er 58 ára, er fyrsti dómarinn sem kjörinn er forseti Tyrklands. Sex af níu fyrrverandi forsetum hafa verið hershöfðingjar.
Ankara. AP, AFP.