Innihaldsefni: Vankómýcín. Lyfjaform: Hylki: 125 eða 250 mg. Innrennslisstofn: Hvert hettuglas inniheldur 500 mg eða 1 g þurrefnis. Notkun: Vancocin er sýklalyf sem notað er gegn sýkingum þar sem hættuminni lyf, svo sem penicillin, koma ekki að gagni.
Innihaldsefni: Vankómýcín.

Lyfjaform:

Hylki: 125 eða 250 mg. Innrennslisstofn: Hvert hettuglas inniheldur 500 mg eða 1 g þurrefnis.

Notkun: Vancocin er sýklalyf sem notað er gegn sýkingum þar sem hættuminni lyf, svo sem penicillin, koma ekki að gagni. Innrennslislyfið er gefið í æð og er notað við hættulegum sýkingum, m.a. í kviðarholi. Lyfið má ekki gefa í vöðva. Þegar notuð eru hylki verkar lyfið staðbundið í meltingarfærum en berst nánast ekkert út í blóðið. Hylkin eru aðallega notuð við slæmum sýkingum í ristli, m.a. af völdum bakteríu sem heitir Clostridium difficile.

Skammtar: Gjöf í æð: Algengir skammtar fyrir fullorðna: 500 mg fjórum sinnum eða 1 g tvisvar á sólarhring. Algengir skammtar handa börnum: 40 mg fyrir hvert kg líkamsþyngdar á sólarhring, skipt í 2-4 skammta. Hylki: fullorðnir og börn: 125-500 mg 4 sinnum á sólarhring í u.þ.b. 5 daga. Þeir sem eru með skerta nýrnastarfsemi fá minni skammta.

Aukaverkanir: Dæmi eru um ofnæmi t.d. kláða og útbrot, ennfremur skjálfta eða hækkaðan líkamshita. Æðabólgur á stungustað eru algengar.

Meðganga og brjóstagjöf: Ekki er vitað um áhrif lyfsins á fóstur og skal því gæta varúðar í notkun þess á meðgöngutíma. Ekki er vitað hvort lyfið skilst út í brjóstamjólk, því skal ráðfæra sig við lækni um notkun þess meðan barn er á brjósti.

Samheitalyf: Vancomycin Abbott, Vancomycin Dumex.

Afgreiðsla:

30 hylki í þynnupakkningu. Innrennslisstofn: 1 hettuglas í pakkningu, 500 mg eða 1 g í hverju.

Á Netinu: www.netdoktor.is