BANDARÍSK yfirvöld hafa veitt samþykki sitt fyrir nýju sýklalyfi, sem heitir Zyvox, og er sagt fyrsta, fullkomlega nýja gerðin af slíkum lyfjum sem komið hefur fram í 35 ár.

BANDARÍSK yfirvöld hafa veitt samþykki sitt fyrir nýju sýklalyfi, sem heitir Zyvox, og er sagt fyrsta, fullkomlega nýja gerðin af slíkum lyfjum sem komið hefur fram í 35 ár. Hægt er að nota lyfið gegn venjulegri lungnabólgu og húðsýkingum auk nokkurra tegunda klasahnettlusýkinga, en mestar vonir eru bundnar við notkun þess gegn hinum alræmda iðrakeðjusýkli, sem getur verið banvænn og hefur hingað til staðið af sér öflugasta sýklalyfið, vankómýsin (sjá grein).

Reyndar eru sífellt fleiri sýklar að verða ónæmir fyrir vankómýsini, og eru þess dæmi að fólk hafi látist af völdum sýkinga sem áður var hægt að ráða við. Í tilraunum sem gerðar voru á 145 sjúklingum með iðrakeðjusýkingu, sem stóð af sér vankómýsin, læknuðust 67% sjúklinganna þegar þeir tóku Zyvox. Kom þetta fram í tilkynningu frá bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu.

Síðastliðið haust veitti eftirlitið samþykki sitt fyrir öðru sýklalyfi, Synercid, til notkunar þegar vankómýsin bregst. Er það blanda af tveim eldri lyfjum, sem lítið höfðu verið notuð. Zyvox er aftur á móti alveg nýtt lyf. Sérfræðingar segja að bæði lyfin séu mikilvæg vopn í baráttunni við alvarlega sjúkdóma, en nota verði þau sparlega því að sýklarnir muni þróast og með tímanum standa þau af sér.

Washington. AP.

Höf.: Washington. AP