Aðalbjörg Jónsdóttir fæddist á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð 28. júlí 1912. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 17. febrúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Bústaðakirkju 25. febrúar.

"Einstakur" er orð sem notað er þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd. "Einstakur" lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra. "Einstakur" á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei fyllt. "Einstakur" er orðið sem best lýsir þér. (Teri Fernandez.)

"Einstakur" er orð

sem notað er þegar lýsa á

því sem engu öðru er líkt,

faðmlagi

eða sólarlagi

eða manni sem veitir ástúð

með brosi eða vinsemd.

"Einstakur" lýsir fólki

sem stjórnast af rödd síns hjarta

og hefur í huga hjörtu annarra.

"Einstakur" á við þá

sem eru dáðir og dýrmætir

og hverra skarð verður aldrei fyllt.

"Einstakur" er orðið sem best lýsir þér.

(Teri Fernandez.)

Elskuleg föðursystir mín er látin og söknuður minn er sár, því að í huga mínum var hún eisntök kona og tryggur vinur. Allt frá því að ég man eftir mér hefur Begga frænka skipað stóran sess í lífi mínu. Fyrst á barnsaldri, þegar foreldrar mínir fluttu til Rykjavíkur úr Skagafirði. Þá var ég á fjórða ári og við bjuggum um tíma hjá föðurömmu minni og Unni og Jónasi börnum hennar í Fossvoginum. Þá bjó Begga með Stefáni manni sínum á Fossvogsbletti 40. Þau áttu þá synina Jón og Sigurjón og eignuðust svo dótturina Jóhönnu nokkru síðar. Svo fluttum við í húsið okkar sem pabbi byggði og var spölkorn frá heimili þeirra.

Á leiðinni í skólann var sjö ára lítil písl hræðilega myrkfælin (þá voru ekki götuljósin). Þá var gott að komast í hús hjá Beggu frænku og fá heitan kakóbolla og flatköku eða annað góðgæti sem hún hafði bakað og verða svo stóra frænda, Jóni syni hennar, samferða í skólann.

Síðan flutti ég aftur í sveitina og um nokkurra ára skeið hittumst við frænkurnar ekki eins oft. En svo lá leið mín til Reykjavíkur á nýjan leik, fyrst til að vinna fyrir mér og svo stofnaði ég heimili mitt hér. Alltaf var heimili Beggu og Stefáns manns hennar, sem var sérstakt ljúfmenni, mér og fjölskyldu minni opið. Gestrisni þeirra var með eindæmum. Enginn skyldi fara svangur úr húsi þeirra. Begga var alveg sérstaklega myndarleg húsmóðir, eldaði meira að segja alls konar nýtísku mat, grillaði og hvaðeina, komin hátt á níræðisaldur. Hún bakaði flatbrauð og rúgbrauð og ekki var nóg með að maður yrði að borða þangað til maður stóð á blístri, heldur varð maður að taka bita með sér heim líka.

Fjölskyldan var Beggu frænku minni mjög mikilvæg. Hún átti góð börn og elskuleg barnabörn sem heimsóttu afa og ömmu oft, og ekki sjaldnar eftir að hún varð ein. Hún gat spjallað við þau eins og alla aðra af þeirri hreinskilni sem henni var svo eðlileg. Hún sagði alltaf meiningu sína og stóð fast á skoðunum sínum en var alltaf hress og kát og stutt í brosið. Heilsan var ekki alltaf góð en ævinlega reis hún upp að nýju og þá var hlaupið í búðina eða bæinn. Henni fannst gaman að ganga enda var hún alla tíð létt í spori og lífskrafturinn með eindæmum.

Minningarnar leita til mín. Ég sit í borðkróknum, hún er að bardúsa við eldhúsborðið og að spyrja um dætur mínar og barnabörn sem kölluðu hana ömmu, ég að spyrja um hennar barnabörn og langömmubörn. Þá var nú margt spjallað og mikið hlegið og leitað frétta af ættingjum og vinum. Frænka mín var sérstaklega ættrækin og hugsaði raunar oftast meira um aðra en sjálfa sig. Þannig man ég hana síðustu árin, sem hún bjó með Sigurjóni syni sínum, sem var henni stoð og stytta og gerði henni kleift að búa í húsinu sínu í Brautarlandinu allt til loka. Gott var að hún skyldi fá að fara í fullu starfi sem húsmóðir. Það hefði aldrei átt við hana að liggja í rúminu og vera upp á aðra komin. Megi góður Guð styrkja og hugga ástvini hennar.

Með söknuði í hjarta kveð ég þig, frænka mín, og segi eins og Rósa litla, barnabarn mitt, sem er á fjórða ári: "Nú er Begga frænka dáin, farin til Guðs og englanna og ég sé hana aldrei aftur, og það þykir mér svo leiðinlegt, því að mér þótti svo vænt um hana Beggu."

Hvíl í friði.

Þrúða.

Þrúða.